Undirbúa kennslu á háskólastigi á Austurlandi
Samstarfssamningur um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi hefur verið undirritaður. Markmið samningsins er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi og er ráðgert að fyrsta skrefið í þá veru verði frumgreinadeild sem taki til starfa haustið 2021.
„Það eru sterkir grunnatvinnuvegir á Austurlandi í sjávarútvegi, áliðnaði og ýmsum verk- og tæknigreinum. Á þeim innviðum verður byggt í þessu verkefni sem vonir standa til að muni efla samfélög og atvinnulíf í fjórðungnum. Ég fagna samvinnu við sveitarfélögin á Austurlandi sem standa saman að þessu verkefni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, sem skrifaði undir samninginn.
Horft til styrkleika atvinnulífsins
Við skipulag háskólaútibúsins verður horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi og í framhaldi af námi við frumgreinadeild er fyrirhugað að boðið verði upp á grunnnám í hagnýtri iðnaðartæknifræði til B.Sc. gráðu, þriggja og hálfs árs nám til alls 210 ECTS eininga. Sem stendur er ekki boðið upp á tæknifræðinám utan höfuðborgarsvæðisins.