Ungamamman á Ökrum
Rakel Steinarsdóttir, ábúandi og ungamamma á Suðurbænum Ökrum á Mýrum, er að reyna fyrir sér með uppeldi á æðarungum sem hún klekur úr eggjum í útungunarvél.
Hugmyndin er að koma upp æðavarpi í kringum hús Rakelar eða á landskikka sem liggur við sjó.
„Ég fékk egg hjá bændum í nágreni við mig og það hefur gengið vonum framar að unga þeim út og ég er kominn með 35 unga í garðinn og þeim á eftir að fjölga ef allt gengur að óskum.“
Útungunarvélin er í forstofunni hjá Rakel og eftir að ungarnir klekjast út sér hún um uppeldið.
„Ég fer með unganna í göngutúr niður að sjó þar sem ég leyfi þeim að synda og svo gef ég þeim að borða þannig að ég hef gengið þeim í móðurstað og það er ótrúlegt hvað ungarnir eru ólíkir innbirgðs og hver og einn hefur sinn sérstaka karakter.
Rakel segir að sem stendur hafi hún ekki aðgang að öðru landi undir varpið en garðinn í kringum íbúðarhúsið sitt. „Ég er að leita að hentugu svæði fyrir varpið í framtíðinni og vil gjarnan heyra í hverjum þeim sem gæti aðstoðað mig í að finna hentugan skika við sjó.“
Að sögn Rakelar venjast ungarnir á ákveðið heimasvæði í sumar og í haust fara þeir út á sjó með öðrum æðarfuglahópum. „Vonandi skila sumir þeirra sér aftur heim næsta vor. Fuglarnir verða kynþroska á öðru eða þriðja ári og ég geri ráð fyrir að unga úr fleiri eggjum á næsta og þar næsta ári til að byggja um varpstofn.
Að þeim tíma liðnum geri ég mér svo vonir um að einhverjir fugla geri sér hreiður annað hvort í garðinum hjá mér eða á skika sem mér áskotnast.“