Unnið við uppbyggingu á 9 nýbyggingum
„Tækifærin eru næg í Fljótsdal, möguleikarnir byggjast á sterkri hefð og sögu um sjálfbærni og sjálfsbjargarviðleitni. Það er ómetanlegt veganesti fyrir alla þá sem vilja láta til sín taka í sveitarfélaginu,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdalshreppi, þar sem mikil uppbygging er nú í gangi.
Helgi segir að íbúar hafi nú hin síðari ár sýnt í verki að efling byggðar í Fljótsdal sé þeim hjartans mál, en þessi misserin er unnið við byggingu níu nýbygginga í sveitinni. Um er að ræða íbúðarhús, sumarbústaði, skemmur, hótel og þjónustuhús. Að auki er verið að endurbyggja tvö gömul og glæsileg íbúðarhús í sveitarfélaginu en í þeim hefur ekki verið búið í áratugi. „Fyrst og síðast eru þetta íbúarnir sjálfir sem standa í þessum framkvæmdum, en við erum um það bil eitt hundrað talsins svo geri aðrir betur,“ segir Helgi.
Viljum þróast og dafna um ókomna tíð
Hann nefndi að uppi séu áform um að byggja upp byggðakjarna í sveitarfélaginu en enginn slíkur er fyrir hendi. „Þetta er alveg einstakt verkefni, en markmið okkar er að byggja upp stað þar sem íbúar munu njóta hvort tveggja þéttbýlis og dreifbýlis. Samfélagið á Fljótsdal er með þessu móti að mæta kröfum nútímans og sýna í verki vilja sinn til að vaxa, þróast og dafna um ókomna tíð.“
Hér er verið að reisa sumarhúsið Borgarhól. Á bak við trén í fjarska grillir í nýtt íbúðarhús sem verið er að byggja á bújörðinni Brekkugerði.
Þekkjum ekki togstreitu milli skóg- og sauðfjárræktar
Helgi nefnir að rík hefð sé fyrir skógrækt í sveitarfélaginu, en Fljótsdælingar hófu fyrstir bænda nytjaskógrækt á bújörðum sínum hér á landi árið 1970. Sú framsýni geri að verkum að binding koltvíoxíðs sé meiri en losun þess í sveitarfélaginu. „Skógrækt hér um slóðir þykir jafnsjálfsögð búgrein að stunda og aðrar landbúnaðargreinar til sveita. Ég get nefnt Valþjófsstaðabændur sem ganga til verka við gjöf í fjárhúsum að morgni dags og síðan er keðjusögin tekin og unnið í skóginum við grisjun. Þessi gamla togstreita sem var á milli sauðfjárræktar og skógræktar er eitthvað sem við Fljótsdælingar lesum um í blöðunum og er okkur frekar óskiljanleg og eiginlega meira til skemmtunar. Tala nú ekki um þegar málsmetandi fólk af norskum uppruna fer að fjargviðrast út af ætterni nytjaplantna í landbúnaði, tja ... þá er efniviðurinn kominn fyrir þorrablótið.“
Helgi segir atvinnulíf í Fljótsdal fjölbreytt, landbúnaður er stundaður af kappi svo sem vera ber. Skógarafurðir er félag á Víðivöllum sem vinnur úr afurðum skógarins, á Egilsstöðum er félagið Sauðagull þar sem unninn er varningur úr sauðamjólk og þá er starfandi félagið Hel Fjallahjólaleiðir sem býður upp á áhugaverðar hjólaferðir um svæðið.
Fljótsdalsstöð starfar innan sveitarfélagsins, Vatnajökulsþjóðgarður og Gunnarsstofnun sömuleiðis. Þar er starfandi jarðvegsverktaki og vísir er að bifreiðaverkstæði sem þjónustar ferðamenn, en í Fljótsdal hefur ferðaþjónustu vaxið fiskur um hrygg á liðnum árum.
Framkvæmdir standa yfir við hótelbyggingu við Óbyggðasetrið í Fljótsdal.