Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Mælt er með auknu hlutfalli matvæla úr jurtaríkinu.
Mælt er með auknu hlutfalli matvæla úr jurtaríkinu.
Mynd / Luisa Brimble
Fréttir 22. júní 2023

Uppfærðar norrænar næringarráðleggingar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ný útgáfa af Norrænu næringarráðleggingunum (NNR) hefur verið gefin út af Norrænu ráðherranefndinni og var kynnt í Hörpu á þriðjudaginn.

Mælt er með auknu hlutfalli matvæla úr jurtaríkinu, á meðan hlutfall kjöts og mjólkurvara lækkar.

Þetta er í fyrsta skipti sem næringarráðleggingarnar taka bæði tillit til lýðheilsu- og umhverfissjónarmiða síðan fyrsta útgáfan var gefin út árið 1980. Þær eru vísindalegur grunnur fyrir næringarráð norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna.

Rune Blomhoff, verkefnastjóri næringarráðlegginganna og prófessor við Háskólann í Osló, segir ráðleggingarnar ekki taka tillit til staðbundinna atriða, eins og svæðisbundinnar matvælaframleiðslu, sjálfbærni, matvælaöryggi, fæðuöryggi, dýravelferð og menningarlegra atriða.

Það sé stjórnvalda á hverjum stað að aðlaga ráðleggingarnar að þessum atriðum. Hann er þó bjartsýnn á að Norðurlöndin geti aukið framleiðslu á jurtafæði til að ná frekari sjálfbærni.

Vísindi fram yfir stjórnmál

Blomhoff segir helstu áskorunina hafa verið að velja vísindi fram yfir stjórnmál. Fjölmargir þrýstihópar reyndu að hafa áhrif á ráðleggingarnar. Samantektin sem gefin var út 20. júní er 400 síður, en síðar í haust kemur ítarleg 2.000 blaðsíðna skýrsla, þar sem hægt er að sjá þær bakgrunnsupplýsingar sem stuðst var við. Settar voru strangar kröfur á þau gögn sem nýtt voru og allt reynt til að forðast slagsíðu.

NNR mun hafa ýmis áhrif, eins og á innkaup hjá ríki og sveitarfélögum og stefnu stjórnvalda í landbúnaði. Bjørn Gimming, formaður norsku bændasamtakanna, segir í samtali við Aftenposten gagnrýnivert að NNR horfi bara á loftslags- og lýðheilsumál, ekki sjálfbærni.

Hann segir að ráðleggingarnar um minna en 350 grömm af kjöti á viku leiði til þess að Noregur verði ekki eins sjálfbær í sinni matvælaframleiðslu. Mataræðið ætti að ákvarðast af þeim auðlindum sem eru á hverjum stað.

Hvað skal borða?

Samanborið við fyrri næringarráðleggingar, þá mæla þær nýju með aukningu á neyslu matvæla úr plönturíkinu. Enn fremur er hvatt til aukinnar neyslu á fiskmeti úr sjálfbærum fiskstofnum, eða 300–450 grömm vikulega. Lagt er til að neysla á rauðu og hvítu kjöti sé takmörkuð við 350 grömm á viku, þar sem hættan á ristilkrabbameini eykst við meiri neyslu. Tekið er fram að neysla hvíts kjöts, eins og kjúklings, hafi lítil slæm áhrif á heilsu, en framleiðsla þess hefur neikvæð áhrif á umhverfi og líffræðilegan fjölbreytileika.

Lagt er til að fólk borði daglega 500–800 grömm af grænmeti, ávöxtum og berjum. Dagleg neysla kornmetis skal vera minnst 90 grömm, þó meiri neysla sé í lagi. Kornmeti, fyrir utan hrísgrjón, sé ein lykilfæðan í umskiptunum yfir í umhverfisvænni matvæli. Neysla mjólkurvara sem innihalda litla fitu skal vera á bilinu 350–500 millilítrar á dag. Enn fremur er lagt til verulegrar neyslu á kartöflum, þar sem framleiðsla þeirra hefur takmörkuð áhrif á umhverfið.

Lagt er til 20–30 gramma daglegrar neyslu á hnetum. Jafnframt er hvatt til aukinnar neyslu á fræjum, þó ekki séu til vísindaleg gögn til að leggja til ákveðið magn. NNR hvetur til að halda neyslu unninna matvara sem innihalda mikið magn sykurs, fitu og salts í lágmarki. Ekki var þó hægt að gefa skýrar leiðbeiningar, þar sem sum unnin matvæli geta verið holl.

Í skýrslunni er lagt til að sleppa allri áfengisneyslu. Sé áfengi hins vegar neytt, skal það vera í algjöru lágmarki. Það er vegna þess að nýjar rannsóknir hafa hrakið fyrri kenningar sem héldu fram jákvæðum áhrifum áfengis á heilsu.

Frekari gagnrýni

Í Aftenposten kemur fram gagnrýni á að ekki séu neinar ráðleggingar hvað varðar mettaða fitu, sem finnst meðal annars í mjólkurvörum. Þar er bent á að nýjar safngreiningar bendi til þess að neikvæð áhrif af neyslu þessarar gerðar fitu séu ekki eins mikil og áður var talið. Enn fremur er lagt til að takmarka neyslu eggja við eitt á dag, þó undanfarið hafi komið fram gögn sem benda til að þau hafi jákvæð heilsufarsáhrif.

Alþjóðlegt lof

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði við kynninguna að þessi skýrsla væri skýrt ákall til aðgerða. Matvælaframleiðendur þyrftu að svara áskoruninni með framleiðslu á heilbrigðum og næringarríkum matvælum sem lágmarka umhverfisáhrif.

Thedros Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), tók í sama streng í sínu ávarpi. Nýju ráðleggingarnar hvetji til öflugra tengsla milli heilbrigðs lífs og heilbrigðrar plánetu. WHO vinnur að nýjum næringarráðleggingum sem eru á margan hátt sambærileg og NNR.

Gæðingafeður og mæður
Fréttir 19. júlí 2024

Gæðingafeður og mæður

Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á Landsmóti hestamanna í ár, 31 talsins.

Kúakaup fyrir dómi
Fréttir 19. júlí 2024

Kúakaup fyrir dómi

Kúakaup milli tveggja bænda rötuðu til héraðsdóms á dögunum.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...