Upphefja íslensku ullina í veggljósi
Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Vöruhönnuðirnir Kristín Soffía Þorsteinsdóttir og Bjarmi Fannar Irmuson reka saman hönnunarstúdíóið Stundumstudio og hafa nú sett á markað ljósið Ær sem á rætur að rekja til verkefnis sem hófst í samstarfi við Icelandic Lamb árið 2018. Með því vildu þau skoða hvort bóndinn gæti fengið meira fyrir sínar afurðir og upphefja ullina til nýtingar í hönnun sinni.
„Við vorum saman í bekk í vöruhönnun í Listaháskólanum og útskrifuðumst fyrir tveimur árum. Eftir útskriftina fengum við styrk frá Rannís til að skoða stöðu óætra afurða kindarinnar. Án þess að fara nánar út í niðurstöður okkar það sumarið, leiddi þessi rannsókn til þess að okkur fannst mikilvægt að setja íslensku ullina í nýtt samhengi og nýjan búning með það að markmiði að opna augu fólks fyrir þeim möguleikum og verðmætum sem hún býr yfir. Á þeim forsendum varð veggljósið Ær til. Við hófum samstarf við Icelandic Lamb og skoðuðum ýmislegt, meðal annars að nota ærmjólk, en enduðum á að nýta ullina í okkar hönnun. Við fórum á milli bæja og hittum bændur og byrjuðum að þæfa ull,“ útskýrir Kristín Soffía.
Glært og endingargott efni
Hönnuðirnir byrjuðu að handþæfa meðal annars dúnúlpu, derhúfur og mittistöskur, sem var hugsað sem liður inn í unglingamenningu landsins.
„Við sýndum vörurnar á Hönnunarmars og þegar þessu var lokið langaði okkur að vinna meira með ullina og langaði að gera hana í föstu formi eins og trefjaplast. Við sáum hvað það skein fallega í gegnum hana og þá kom hugmyndin að ljósinu. Við tókum ólitaða og litaða kembu, lögðum í sílíkonmót og notum fljótandi pólyester-resínefni sem er alveg glært og verður eins og gler. Efnið er mjög endingargott en við röðum kembunni eftir okkar hugmyndum eða eftir óskum fólks og fáum þá skemmtilega litaflóru í ljósin. Hvert ljós er einstakt og engin tvö eru eins. Við getum notað verðlitla ull í framleiðsluna og okkur er alveg sama þó að það sé lyng eða mói sjáanlegt. Ljósið er hannað þannig að hægt er að skipta ullarplattanum út að framan en það er sett á ljósastellið með seglum svo auðvelt er að skipta því út,“ segir Kristín Soffía en nú vinna þau að hönnun umbúða og senn fer heimasíðan stundumstudio.com í loftið.