Uppskerubrestur á rauðum pipar í Indlandi
Framleiðsla Indverja á rauðum pipar (chili) lækkar um fimmtung frá fyrra ári vegna uppskerubrests þar í landi. Ástæðan er ágeng óværa sem lagðist á plönturnar og óvenju mikil rigning í helstu framleiðsluríkjum suðurhluta Indlands.
Plöntur urðu illa fyrir barðinu á kögurvængjum (thrips) þrátt fyrir mikla notkun skordýraeiturs og haft er eftir D. Kanungo, frá Andrah Pradesh ríki að bændur hafi þurft að rífa upp plöntur í blómgun. Óværan hafi auk þess valdið mikilli vansköpun á ávöxtum.
Í fregn Reuters er haft eftir jarðræktarfræðingi hjá Indverska landbúnaðarrannsóknarráðinu að í stað þess að bregðast við meindýrinu hefðu bændur í mörgum tilfellum horfið frá ökrum sínum sem magnaði upp óværuna og gerði illt verra.
Minni framleiðsla hefur orðið til þess að heimsmarkaðsverð á rauðum pipar hefur rokið upp úr öllu valdi á síðustu mánuðum og líklegt er að verðið haldist hátt út árið. Með hækkandi kostnaði við flutninga má einnig búast við enn frekari verðhækkunum á chili og afleiddum afurðum.
Indland er stærsti út- flytjandi af rauðum pipar í heiminum og seldi 578.800 tonn árið 2021 sem var 8% meira en árið áður. Í nágrannaríkinu Pakistan, sem einnig er stór framleiðandi, mun staðan vera svipuð og horfir í uppskerubrest vegna sviptinga í tíðarfari.