Úrgangur frá fæðustöðvum mengar grunnvatn
Með auknum verksmiðjubúskap færist sífellt í aukana að kjúklingar, svín og nautgripir hafa ekki aðgang að landi og dýrin alin upp í lokuðum húsum eða við fóðurstöðvar.
Heilbrigðisyfirvöld í Minnesota-ríki í Norður-Ameríku segja fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af úrgangi frá fæðustöðvum, feedloads, í ríkinu og víðar í Bandaríkjunum.
Í Minnesota er talið að yfir 3.000 vatnslindir séu alvarlega mengaðar og að vatnsgæði þeirra séu 85% yfir þeim mörkum sem eðlilegt þykir fyrir drykkjarvatn, sé litið til saurgerlamengunar og mengunar af völdum niturs og fosfór.
Nýsmíði rotþrór við fóðrunarstöð.
18.000 fæðustöðvar með safnþróm
Víða í Minnesota safnast upp mikið magn af búfjárskít í uppistöðulónum frá búfjárrækt og er nú svo komið að afrennsli frá lónunum er farið að menga grunnvatn með þeim afleiðingum að það verður ódrykkjarhæft. Samkvæmt tölum heilbrigðisyfirvalda eru um 80 milljónir gripa í ríkinu, aðallega kjúklingar, svín og nautgripir, sem losa frá sér milljónir tonna af skít og menga bæði ár og vötn með nitri og fosfór. Um 18.000 fóðrunarstöðvar með safnþróm eru skráðar í ríkinu og er sú stærsta sögð hýsa um 125.000 kjúklinga á dag.
Heilbrigðisyfirvöld í Minnesota segja að aukin saurgerla-, nitur- og fosfórmengun í grunn- og drykkjarvatni haldist í hendur við fjölgun fæðustöðva í ríkinu. Einnig er bent á að notkun á tilbúnum niturríkum áburði hafi aukist samfara minni notkun á búfjáráburði við kornrækt.
Minna súrefnisflæði
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni getur niturmengað vatn valdið krabbameini og því sem kallast blue baby syndrom vegna minni súrefnisflæðis í blóði ungbarna.
Mikið magn niturs og fosfór veldur einnig auknum þörungablóma í ám og vötnum sem getur verið skaðlegt heilsu bæði manna og dýra.