Íslenskir hestar bjarga sanddyngjum
Íslenskir hestar leika lykilhlutverk í nýrri beitaráætlun á náttúruverndarsvæði í Lassee í Austurríki.
Á Marchfeld-svæðinu, sem liggur milli Vínar og Bratislava, voru áður stór svæði þakin sanddyngjum. Skógrækt og akurlendi hafa þrengt að sandinum og aðeins örfá svæði standa eftir. Sanddyngjurnar eru heimili einstakrar flóru og dýralífs og má þar finna lífverur sem eru í útrýmingarhættu.
Í bænum Lassee, sem er á Marchfeld-svæðinu, hafa stjórnvöld sett af stað beitaráætlun í samstarfi við sérfræðinga frá verndarsvæðum og náttúruverndardeild Neðra- Austurríkis en verkefnið er fjár- magnað af einkafélaginu Blühendes Österreich - BILLA og Evrópusambandinu (ESB). Svæðin eru meðal annars beitt af íslenskum hestum frá hrossabúgarði sem rekin er af Petru Busam.
„Ef litið er yfir söguna þá voru það stór beitardýr sem færðu líffræðilegan fjölbreytileika til Marchfeld. Eftir að dregið hefur saman í beitarbúskap á svæðinu hafa mörg búsvæði ákveðinna lífvera og tegundir farið forgörðum. Hestabeit hjálpar til við að koma í veg fyrir ofvöxt runna og varðveita þannig fjölbreytileika á svæðinu. Ég er ánægð að geta haft jákvæð áhrif á umhverfið með hrossunum mínum,“ segir Petra.
Samkvæmt Tobias Schernhammer, forstöðumanni verndarsvæðanna, skapar beitin opin svæði á jörðinni og hestaskíturinn tryggir líf fyrir um 500 tegundir af skordýrum. Beitarstjórnunin stuðlar einnig að fjölbreytileika flórunnar. Öfugt við slátt þá hreinsa hrossin eingöngu gras og stuðla þannig að lífvænlegu umhverfi tiltekinna blóma og jurta.