Kyrkislöngubúskapur vænlegur kostur
Framleiðsla á kyrkislöngukjöti er talin geta bætt fæðuöryggi. Þessi búskapur er loftslagsvænni leið til framleiðslu á kjöti samanborið við hefðbundið búfé.
Sérfræðingar telja framleiðslu kyrkislöngukjöts raunhæfan kost í sunnanverðri Afríku þar sem búfé hefur verið að drepast vegna þurrka. Þá er ekki talið ólíklegt að slíkur búskapur geti gengið vel í Asíu þar sem fólk er óhrætt við að borða kyrkislöngukjöt. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Nokkrar tegundir kyrkislanga eru taldar hentugar til landbúnaðarframleiðslu. Þar má nefna búrmönsku kyrkislönguna, möskvakyrkislönguna og suður- afrísku klettakyrkislönguna. Þessir snákar geta lifað í heilan mánuð án þess að komast í annað vatn en morgundöggina sem sest á hreistrið. Þá geta slöngurnar þraukað í heilt ár án þess að neyta fæðu. Skepnurnar yrðu ekki fangaðar í náttúrunni, heldur látnar klekjast úr eggjum á ræktunarbúum.
Ekki er talað um að leysa hefðbundið kjöt af hólmi með þessari framleiðslu, heldur sé snákakjöt góð viðbót til að efla fæðuöryggi.
Mun loftslagsvænna er að framleiða prótein úr kyrkislöngukjöti en rauðu kjöti, kjúklingakjöti eða laxi. Það má rekja til þess að kyrkislöngur þurfa mun minna vatn, framleiða umtalsvert minna af gróðurhúsalofttegundum, eru þolnari við öfgum í veðurfari og eru ekki smitberar á sóttum eins og fuglaflensu og Covid-19.
Gagnrýnendur segja nærtækara að framleiða prótein úr jurtaríkinu í staðinn fyrir ræktun kyrkislöngukjöts.