Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Sannað þykir að erfðaefni úr Marco Polo argali-sauðfé, hinu stærsta og hornprúðasta í heimi, hafi verið notað til að rækta stökkbreytt Montana Mountain King-sauðfé, með algerlega ólögmætum hætti.
Sannað þykir að erfðaefni úr Marco Polo argali-sauðfé, hinu stærsta og hornprúðasta í heimi, hafi verið notað til að rækta stökkbreytt Montana Mountain King-sauðfé, með algerlega ólögmætum hætti.
Mynd / Montana Fish Wildlife and Parks
Utan úr heimi 3. apríl 2024

Ræktaði stökkbreytt risasauðfé sem veiðibráð

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Bóndi nokkur í Montana í Bandaríkjunum á yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir áætlanir um að rækta stökkbreytt og risavaxið sauðfé sem veiðibráð fyrir skotveiðimenn.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá því um miðjan mánuð að bóndinn, Arthur Schubarth, sé sakaður um að hafa ræktað mikið stökkbreytt sauðfé og haft áform um að selja dýrin sem veiðibráð til veiðimanna fyrir gríðarlegar fjárhæðir. Játaði Schubarth, áttræður bóndi og búgarðseigandi í Vaughn, Montana, á dögunum sök í réttarhöldum í Great Falls.

Saksóknarar sýndu fram á að Schubarth hefði stundað ólöglega starfsemi með því að nýta erfðaefni úr Marco Polo argali-sauðfé (Ovis ammon polii), tegund sem upprunnin er í Mið-Asíu og nýtur alþjóðlegrar verndar sem tegund í útrýmingarhættu, til að rækta blendingsfé í viðskiptalegum tilgangi. Marco Polo argali- sauðfjártegundin er talin einstök vegna mikillar stærðar og tilkomumikilla horna.

Flutti inn vefi og eistu

Lýsa dómskjöl leynilegu verkefni, sem spannað hafi árin 2013 til 2021, og tengir Schubarth og að minnsta kosti fimm aðra við áætlun um að rækta mjög stórvaxnar blendingskindur og græða stórfé á að selja þær sem veiðibráð.

Hinn 215 hektara búgarður Schubarths, sem sérhæfir sig í viðskiptum með og ræktun á „úrvalsbúfé“, ekki síst sem bráð fyrir veiðimenn, er sagður hafa verið miðstöð þessa ólöglega laumuspils. Saksóknarar segja sannað að Schubarth hafi ólöglega flutt inn vefi og eistu úr Marco Polo argali-sauðfé, stærstu sauðfjártegund í heimi. Sendi hann erfðaefni til rannsóknastofu til að búa til klóna fósturvísa. Hann græddi svo fósturvísana í ær á búgarði sínum og varð m.a. úr því blendingshrútur sem nefndur er Montana Mountain King (MMK). Sæði hans var notað til að búa til afkvæmi með tæknifrjóvgun ýmissa ærtegunda, sem allar eru óleyfilegar í Montana.

Verslaði með erfðaefni fleiri tegunda

Dómstóllinn tók jafnframt fyrir ásakanir á hendur Schubarths um milligöngu við að selja afkvæmi MMK fyrir háar fjárhæðir.

Til að sniðganga lagalegar hindranir höfðu Schubarth og félagar hans m.a. falsað skoðunarvottorð dýralækna. Aukinheldur mun Schubarth hafa selt sæði úr MMK til sauðfjárræktenda í öðrum ríkjum, og þannig enn frekar bitið höfuðið af skömminni.

Schubarth er harkalega gagnrýndur fyrir að stofna upprunalegum sauðfjárstofnum Montana í hættu og brjóta jafnt alþjóðleg lög sem alríkislög, sem ætlað er að vernda tegundir í útrýmingarhættu. Bandarísku Lacey-lögin, hornsteinn löggjafar um verndun villtra dýra, banna með öllu viðskipti með villt dýr sem fengin eru með ólögmætum hætti.

Ólögleg starfsemi Schubarths var ekki einskorðuð við Marco Polo argali-sauðkindina. Dómskjöl leiða einnig í ljós þátttöku Schubarths í verslun með erfðaefni úr Rocky Mountain Bighorn-sauðfé, annarri verndaðri tegund upprunninni í Norður-Ameríku. Yfirmaður dýravelferðar í Montana hefur í kjölfar málsins lýst þungum áhyggjum af afleiðingum slíkrar glæpastarfsemi á stofna villtra dýrategunda í ríkinu.

Fyrir hvern ákærulið á Schubarth, að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins, yfir höfði sér fimm ára fangelsisvist, rúmlega 34 milljóna króna sekt og þriggja ára skilorð undir eftirliti.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...