Þokast í sýklalyfjarannsóknum
Vísindamenn hafa uppgötvað nýjan flokk sýklalyfja sem mögulega drepa eina af þeim þremur sýklalyfjaónæmu bakteríum sem taldar eru vera meiri háttar ógn við heilsu fólks vegna mikils lyfjaónæmis.
Sýklalyfjaónæmi er skilgreint meðal tíu helstu heilbrigðisógna í heiminum í dag.
Á vísindafréttavefmiðlinum Livescience segir að nýja lyfið, Zosurabalpin, beinist að CRAB (Carbapenem-ónæmum Acinetobacter baumannii), sem sýnir ónæmi fyrir flestum núverandi sýklalyfjum. Zosurabalpin vinni bug á CRAB með því að nota árásaraðferð sem hafi aldrei sést áður í sýklalyfjum. Lyfið er sagt hafa unnið á afar ónæmum undirgerðum CRAB í músum sem þjáðust af lungnabólgu og sýklasótt. Zosurabalpin er nú í fyrstu prófunum á mönnum.
Ein af þremur negld
„Kosturinn við nýjan flokk fullkomlega tilbúinna sýklalyfja er að bakteríur hafa aldrei komist í kynni við þau,“ segir Kenneth Bradley, einn af þróunaraðilum lyfsins og yfirmaður smitsjúkdómarannsókna hjá svissneska lyfjafyrirtækinu Roche, við Live Science. Þannig geti núverandi varnir sem CRAB noti til að verjast sýklalyfjum ekki hindrað árásir nýja lyfsins.
Bradley og samstarfsmenn við Roche og Harvard-háskóla birtu tvær greinar laust eftir áramót í tímaritinu Nature þar sem lýst er uppgötvun og virkni nýja sýklalyfsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint CRAB í hæsta varúðarflokk baktería sem nauðsynlegt sé að rannsaka og þróa ný lyf gegn, ásamt tveimur til viðbótar: umhverfisbakteríum (Pseudomonas aeruginosa) og þarmabakteríum (Enterobacteriaceae).
Þá hefur CRAB verið skilgreint sem veruleg ógn í Bandaríkjunum vegna mikillar mótstöðuhæfni. Örveran veldur sýkingum í blóði, þvagfærum, lungum og sárum og stafar sérstakri hættu af henni fyrir fólk með veikt ónæmiskerfi og þá sem þurfa á æðaleggjum eða öndunarvélum að halda, svo sem inni á heilbrigðisstofnunum.
Engin ný sýklalyf gegn umræddum bakteríum munu hafa komið á markað sl. 50 ár.
Mun ekki uppræta sýklalyfjaónæmi
Segir Andrew Edwards, sérfræðingur í sameindalíffræði við Imperialháskólann í London, í samtali við Guardian um málið, að CRAB sé hættulegur sýkingarvaldur á sjúkrahúsum. „Þótt CRAB sé ekki ágeng baktería er hún ónæm fyrir mörgum mismunandi sýklalyfjum og því erfitt að meðhöndla hana,“ segir Edwards.
„Þróun nýrra meðferða gegn bakteríunni hefur því miður verið mjög krefjandi þar sem hún er lagin við að hleypa sýklalyfjum ekki gegnum ytra frumulag sitt, varnarhjúp sem er m.a. gerður úr fitufjölsykru (LPS), sem gerir bakteríunum bæði kleift að komast af í fjandsamlegu umhverfi og forðast atlögur ónæmiskerfisins. Þessi nýja uppgötvun er því mjög áhugaverð og gefur vísbendingar um að þær aðferðir sem notaðar eru til að finna ný sýklalyf geti orðið árangursríkar,“ sagði Edwards.
Zosurabalpin hindrar fitufjölsykruna í að berast í varnarhjúp bakteríunnar sem gerir það að verkum að hún deyr. Uppgötvunin er ekki talin eiga eftir að uppræta sýklalyfjaónæmi en sé mikilvægt lóð á vogarskálar í þróun nýrra lyfja gegn fjölónæmum bakteríum.
Því er við að bæta að þverfaglegur starfshópur skipaður af stjórnvöldum skilaði fyrir skömmu af sér tillögum sem fela í sér fimm ára ítarlega aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi hérlendis.
Gangi þær eftir munu þær snerta menn, dýr, umhverfi og matvæli og einkum verða í formi fræðslu, gagnaöflunar og að minnka og straumlínulaga sýklalyfjanotkun til að varðveita virkni þeirra sýklalyfja sem til eru.