Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hlutfallsleg þróun ísútbreiðslu á norðurhveli jarðar frá árinu 1978.
Hlutfallsleg þróun ísútbreiðslu á norðurhveli jarðar frá árinu 1978.
Fréttir 9. mars 2022

Útbreiðsla hafíss á norðurhveli sú mesta í 13 ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Útbreiðsla hafíss á norðurslóðum í janúar er sú mesta sem sést hefur síðan 2009, eða í 13 ár. Einungis tvisvar frá 2005 hefur hafís verið meiri, eða í 17 ár. Nú í janúar var hafísinn á Suðurheimsskautinu hins vegar sá minnsti sem mælst hefur, samkvæmt tölum Arctic Data archive System, NIPR.

Ástæða þessarar hröðu hafís­söfnunar á Norðurheimsskautinu er að hluta vegna kulda í sumar og haust á vestanverðu Norður-íshafinu. Hafísinn nú er meiri en mældist á árunum 2005–2007 og einnig meiri en öll árin frá 2010 til og með 2021.

Hafísinn á norðurslóðum er nú talsvert meiri en verið hefur allt frá árinu 2009.

Hafís hefur aukist frá 2018

Minnstu útbreiðslu náði hafísinn árið 2018 frá því gervihnattamælingar hófust árið 1981. Síðan hefur ísinn verið að aukast. Virðist það vera í takti við kenningar sem Páll Bergþórsson veðurfræðingur kom fram með fyrir nokkrum árum um að við séum að sigla inn í kuldaskeið.

Lækkandi sjávarhiti við Ísland undanfarin ár gefur sömu vísbendingar. Það er öfugt við kenningar sem flestir hafa haldið á lofti. Framvindan mun svo leiða í ljós hvort Páll hafi rétt fyrir sér.

Vísindamenn bíða nú spenntir eftir að sjá hvaða áhrif staðan nú hafi á útbreiðsluna í mars næstkomandi og ísbráðnun í sumar og stöðuna þegar ísinn er að jafnaði minnstur í september.

Staða hafíss á norðurhveli nálægt meðaltali áranna
1981–2010

Að meðaltali var umfang hafíssins á norðurslóðum um 13,88 milljónir ferkílómetrar í janúar síðastliðnum. Í lok mánaðarins var hafísinn svo vel yfir 14 milljónir ferkílómetra.

Er staðan á Norðurheimskautinu nálægt því að ná meðaltali áranna frá 1981 til 2010. Hafísinn er þó víða þynnri en oft áður enda ekki eins gamall á svæðum þegar bráðnunin var mest 2018.

Allt miðað við litlu ísöld

Þó það sé staðreynd að loftslag hafi hlýnað að meðaltali á jörðinni í rúma öld, þá virðist staðan hvað hafís varðar í janúar skjóta dálítið skökku við þá ofsafengna umræðu sem verið hefur um hamfarahlýnun á undanförnum misserum og árum. Svo mikill ákafi hefur verið í þeim málflutningi að þess hefur í alvöru verið krafist að Íslendingar lýstu yfir neyðarástandi.

Þessi öfgafulla umræða er öll miðuð út frá grunnstöðu sem markast af litlu ísöld sem oft er tímasett frá um 1300 til 1850. Það á t.d. við mælingar á hnignun jökla á Íslandi.
Ætla mætti af þeirri umræðu að staðan sem var á litlu ísöld á norðurhveli sé sérstaklega eftirsóknarvert viðmið. Þá voru m.a. dæmi um að áin Thames í London botnfrysi. Þá voru líka dæmi um að hafís hafi verið landfastur allt í kringum Ísland, með tilheyrandi uppskerubresti, eymd og fæðuskorti.
Reyndar snúast deilurnar um loftslagshlýnun ekki síst um hvort sú kenning standist að hlýnun loftslags stafi alfarið af uppsöfnun koltvísýrings CO2 í andrúmsloftinu sem losaður er af mannavöldum, eða hvort ástæðurnar séu aðrar.

Um þetta eru vísindamenn ekki sammála. Háværustu raddirnar eru þar fylgjandi kenningunni um að hlutfallslega mjög lítið magn CO2
í lofthjúpnum (þúsundustu partar úr milljón) geti valdið hlýnun andrúmsloftsins.

Miðað við vaxandi hlutfall CO2 í andrúmslofti á liðnum árum og að það hafi um nýliðna helgi 19. febrúar, staðið í 418,6 ppm, þá er trúlega mjög erfitt að útskýra aukna ísmyndun á norðurslóðum. Glíma vísindamanna við að sanna kenningar sínar er því augljóslega ekki einföld.

Minni sveiflur á Suðurpólnum

Þótt hafís hafi verið að aukast á norður­hveli frá 2018, þá virðist hlýnun jarðar ekki hafa valdið eins sveiflukenndu ástandi á Suðurpólnum.

Þar hefur ríkt mun meiri stöðugleiki en ísinn hefur samt verið að hopa. Er hann nú nálægt því þegar hann var með minnsta útbreiðslu á árinu 2017.

Áhrif stúlku og drengs á veður

Veðurfyrirbærið La Niña, sem leiðir til 3-5°C kólnunar á austanverðu Kyrrahafi, er nú að brotna upp með tilheyrandi breytingum á veðurfar á Suðurheimskautssvæðinu og upp eftir Ameríku og víðar.

Hafís á Suðurheimskautssvæðinu var því með mesta móti yfir hausttímabilið á síðasta ári, en fer nú minnkandi.

La Niña merkir stúlka á spænsku og andstæða þessa veðurfars­­fyrirbæris er drengurinn, eða El Niño, sem leiðir til hlýnunar, venju­lega í sjö til níu mánuði. Líklegt er því að ís muni minnka á Suður­heimskautssvæðinu á næsta ári.

Athyglisvert er að fyrirbæris sem menn nefna hnattræna hlýn­un hefur gætt mun minna á Suður­­heimskautinu en á Norður­heimskautinu samkvæmt gögnum EUMETSAT (Europe­an Organi­sation for the Exploitation of Meteorological Satellites). Frá 1979 hefur í raun verið aukin ísmyndun á Suður­heimskautssvæðinu, eða um 3-10% vetur og sumar á meðan flatarmál hafíss á Norður­heimskautinu hefur dregist saman á bilinu 10-40% vetur og sumar.

Í ágúst 2021 var Golfstraumurinn sagður vera að stöðvast, en var svo sagður öflugri en nokkru sinni í janúar 2022

Í ágúst 2021 birtist frétt í breska blaðinu the Guardian sem fleiri fjölmiðlar gripu á lofti um að máttur Golfstraumsins í Atlants­hafi væri um það bil að hrynja vegna áhrifa af loftslagshlýnun. Töldu vísindamenn sig þá hafa fundið merki um að Golf­straumurinn væri við það að stöðvast og það gæti verið vendi­punktur á þróun loftslags. Sex mánuðum seinna, eða í janúar 2022, sýndu rannsóknir Norð­manna að þessu var þveröfugt farið. Golfstraumurinn hafi verið að styrkjast verulega.

Vangaveltur vísindamanna um Golfstrauminn eru nátengdar loftslags­umræðunni á liðnum árum. Mörgum varð því hverft við þegar vísindamenn sögðu í ágúst 2021 að vísbendingar væru um að Golf­straumurinn væri að stöðvast. Ef rétt væri myndi það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir búsetu fólks við norðanvert Atlantshaf, þ.e. íbúa Norður-Evrópu og þar með á Íslandi. Hiti á þeim slóðum myndi lækka stórlega.

Rannsóknir vísa hvort í sína áttina

Rannsókn vísindamanna sem greint var frá í Guardian í ágúst á síðasta ári á uppruna sinn í rannsókn Advancing Earth and space science AGU frá því í október 2020. Hún leiddi í ljós „nánast algjört tap á stöðugleika á síðustu öld“, þ.e. strauma sem vísindamenn kalla Atlantic meridional overturning circulation (AMOC). Svo kom ný rannsókn frá Noregi sem vísaði í þveröfuga átt. Allt eru það hálærðir vísindamenn sem þarna eiga í hlut og kannski spurning hvorum hópnum fólk vill frekar trúa.

Golfstraumurinn sagður hafa styrkst umtalsvert

Þann 24. janúar 2022 birtist svo þessi frétt um norska rannsókn og sterka stöðu Golfstraumsins. Í fyrirsögn sagði þar:

„Golfstraumurinn verður sterk­ari og hlýrri, hraðar upphitun norðurslóða – norsk rannsókn.“ Síðan sagði:

„Þökk sé hlýja straumnum, Golf­straumnum, eru svæði sem liggja að honum, eins og strönd Noregs og Kólaskagi Rússlands, með mildara loftslag en önnur svæði á sömu landfræðilegu breiddar­gráðu. Þar eru mun hlýrri vetur og aðgengi að íslausum höfnum.“

Golfstraumurinn, kerfi heitra strauma í Norður-Atlantshafi, sem nær frá Flórída til Skandi­navíuskagans, Svalbarða-eyja­klasans og Norður-Íshafsins, hefur styrkst umtalsvert, að því er sameiginlegur hópur norskra vísinda­manna hefur ályktað.

„Vatnsflæði hefur aukist nokkuð jafnt,“ sagði Lars Henrik Smedsrud, prófessor við háskól­ann í Bergen og fræðimaður við Bjerknes-miðstöðina, við ríkisútvarpið NRK. – „Þetta þýðir að Golfstraumurinn inn í norðurhöf hefur styrkst.“

30% aukning á hitaflutningi

Niðurstöður norsku vísindamann­anna gáfu til kynna að hitaflutn­ingurinn hafi orðið um 30 prósent sterkari. Með öðrum orðum, mun meira og hlýrra vatn fer norður á styttri tíma.

Þetta leiðir aftur til hlýrra loftslags á strönd Noregs, norður­skautseyjum og Kólaskaga Rúss­lands. Veðurfræðistofnun Noregs komst að þeirri niðurstöðu að vetur í borginni Bodø í Nordlandssýslu hafi styst um tvo mánuði.

„Við bjuggumst við auknu hitastigi vegna hlýnunar jarðar. Það kemur því ekki á óvart að vatnið sem rennur norður sé hlýrra. En það er samt í raun ekkert sem ætti að benda til aukins magnflutnings. Það kemur á óvart,“ útskýrði Smedsrud.

Að sögn Smedsrud eru tvær líklegar skýringar. Í fyrsta lagi er sterkari vindur að þrýsta meiri sjó norður og í átt að ströndinni. Samt er óvíst hvort sterkir vindar verði viðvarandi í framtíðinni.

„Ef við lítum enn lengra aftur í tímann, eða til 1850, blés jafn mikið og í dag,“ útskýrði Smedsrud.

Annað er meiri þéttleikamunur á vatns­massanum sem gerir straum­inn sem ber með sér mikinn massa af volgu vatni. Þetta hefur í för með sér vítahring þar sem minni ís veldur því að meiri hiti frá sjó fer út í andrúmsloftið og hraðar því ferlinu.

Ef þessi niðurstaða Norðmanna er rétt, sem og sá hluti í rannsókn AMOC sem sýndi áhrif hafsins á að auka hita lofthjúpsins á norðurslóðum, þá er kannski eðlilegt að leikmenn spyrji hvernig vísindamenn skýri þá aukna ísmyndun á norðurslóðum í vetur. Eitthvað í fregnum af þessum andstæðu niðurstöðum vísindarannsókna gengur ekki alveg upp í hugum leikmanna.

Sagan sýnir að eldgos hafa haft áhrif til kælingar lofthjúpsins í gegnum tíðina. Hvergi er þó í rannsóknunum minnst á möguleg áhrif af margra mánaða eldgosi á Íslandi á síðasta ári.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...