Útbreiðsla katta kortlögð
Höfundur: ghp
Tengsl manna og katta ná aftur til nýsteinaldar. Jarðvistarleifar sem fundust í Kýpur benda til þess að kettir hafi lifað í nánu samlífi með mönnum allt frá 7.500 f.Kr. Í dag eru húsvandir kettir til staðar í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu og á afskekktustu útskikum veraldar.
Þótt hann sé í dag mestmegnis alinn sem hæverskur nautnaseggur og dyntóttur fjölskyldumeðlimur þjónaði köttur mikilvægu hlutverki til að sporna við meindýrum, einkum nagdýrum, á sveitabýlum, í skipum og þorpum á árum áður.
Vísindaritið Nature birti nýlega niðurstöður rannsókna á útbreiðslumynstri katta um heiminn. Notaðar voru DNA-greiningar á jarðvistarleifum kattardýra og benda niðurstöður til þess að kettir hafi breiðst út samhliða sjóferðum manna, frá ströndum og þaðan inn til meginlanda. Þá sýna greiningar á þróun litmynsturs katta fram á að eiginleg ræktun katta hefjist síðar en hjá flestum öðrum heimilisdýrum.