Útlendingar ekki í röð eftir að kaupa jarðir á Íslandi
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Staðan er sú að útlendingar standa hér ekki í röðum eftir að kaupa jarðir á Íslandi, það er enn svo að framboð af jörðum er meira en eftirspurnin. Útlendingar eiga um 60 jarðir hér á landi af um 7.000 þannig að þetta er lítið brot í heildarsamhenginu,“ segir Magnús Leópoldsson, fasteignasali hjá Fasteignamiðstöðinni, en hann hefur 35 ára reynslu af jarðaviðskiptum á sinni fasteignasölu.
Enginn kaupir jörð út í bláinn, einhver tenging alltaf fyrir hendi
Magnús segir flesta þá útlendinga sem kaupa jarðir hér á landi tengjast landinu með einhverjum hætti, þeir þekki Íslendinga og hafi komið til landsins og tekið við það ástfóstri. Fólk hafi áhuga á veiðiskap í íslenskum ám, eigi íslensk hross eða eitthvað því um líkt. „Það kemur enginn hingað upp úr þurru og kaupir 500 hektara jörð út í bláinn, það eru alltaf einhverjar tengingar fyrir hendi. Bara líkt og gildir um okkur Íslendinga sem fjárfestum í fasteignum erlendis, það þarf einhver tenging að vera fyrir hendi,“ segir Magnús.
Jafnvægi hin síðari ár
Hann segir að jafnvægi hafi verið hin síðari í ár í jarðakaupum útlendinga og að jafnaði seljist örfáar jarðir á ári til erlendra aðila.
Magnús telur að erfitt geti verið að finna flöt á nýjum reglum varðandi fasteignakaup erlendra aðila, þ.e. að setja upp einhverjar girðingar sem hamli kaupum. „Það verður auðvitað að vera þokkaleg sátt um þessi mál. Sjálfur hef ég hugleitt að það þurfi til langs tíma að gera áætlanir um nýtingu landsins með hagkvæmni í huga því auðvitað viljum við hafa landbúnað áfram,“ segir hann. Einnig kveðst hann brýna fyrir sínum viðskiptavinum að ábyrgð fylgi því að eiga jörð, m.a. varðandi fjallskil og ýmislegt fleira.
Veit ekki til að verið sé að bera fé á fólk
Magnús telur að útlendingar kaupi sínar jarðir almennt ekki á yfirverði, þeir ekki síður en aðrir hugsi um veskið sitt. Hann sá um viðskiptin með Atlastaði í Svarfaðardal og segir að á þeirri jörð sé einungis íbúðarhúsið fyrir hendi, öll útihús hafi verið rifin. Nágrannabændur hafa nýtt túnin við bæinn og svo verði væntanlega áfram. Fljótabakki ehf., sem rekur ferðaþjónustu í Fljótum, hafi séð hag í því að eiga íbúðarhúsið til að nýta í sinni starfsemi en stutt er að fara á milli staðanna í lofti.