Vaninhyrndur forystusauður
Jón Gunnþór Þorsteinsson, bóndi á bænum Syðri-Velli í Flóahreppi, á forystusauðina Greifa (t.v.) og Höfða (t.h.). Eins og sjá má eru horn þeirra einstaklega glæsileg, ekki síst á Höfða sem er vaninhyrndur.
„Ég vandi þau að gömlum sið með hertri nautshúð, það virkar mjög vel, ég vildi ekki nota vír. Það strekkist á húðinni þegar hún þornar og þannig verður strekkingin sjálfvirk. Húðin sem ég notaðist við er rúmlega 20 ára gömul og reynist einstaklega vel í svona verkefni. Þetta er toppurinn í bransanum ef gera skal sauð vaninhyrndan,“ segir Jón Gunnþór. Á Syðri-Velli eru um 100 fjár og þar er líka myndarlegt kúabú.