Vaxtarletjandi garðyrkja
Vonir garðyrkjubænda um að skilyrði verði sköpuð til vaxtar í greininni í nánustu framtíð voru blásnar út af borðinu með birtingu fjárlagafrumvarpsins nú á upphafsdögum Alþingis.
Þá varð ljóst að ekki ætti að auka stuðninginn við þennan hluta íslenskrar matvælaframleiðslu, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gefin út vilyrði um betri vaxtarskilyrði fyrir greinina.
Birtingarmyndir þessara vilyrða hafa verið margvíslegar á undanförnum árum. Í núgildandi búvörusamningum frá 2016 er tiltekið að markmið samkomulagsins sé að við endurskoðun hans árið 2023 hafi framleiðsla á íslensku grænmeti aukist um 25 prósent, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019. Á árunum 2020 og 2021 dróst heildarframleiðsla saman frá viðmiðunarárunum. Á síðasta ári varð aukning um þrjú prósent.
Endurskoðun búvörusamninga stendur nú yfir. Garðyrkjubændur hafa lýst yfir vonleysi um gang viðræðna um starfsskilyrði þeirra. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tiltekið að aukinni „... framleiðslu á grænmeti verður náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar,“ sem er einmitt eitt af þeirra helstu áherslumálum við samningaborðið.
Sjá nánar í fréttaskýringu á bls. 20–21. í Bændablaðinu sem kom út í dag.