Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu á árinu 2025. Það var ljóst við samþykkt fjárlaga frá Alþingi þann 18. nóvember sl.
Meðal stærstu framkvæmda sem unnið verður að eru Reykjanesbraut (Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun), brú og vegtengingar við Hornafjarðarfljót og tvö verkefni á Vestfjarðavegi (Gufudalssveit og Dynjandisheiði) og Norðausturvegur (Brekknaheiði), að því er fram kemur í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.
Fjögur göng
Einnig er gert ráð fyrir framlögum vegna undirbúnings jarðganga á fjórum stöðum; Fljótagöng, Hvalfjarðargöng, milli Ólafsfjarðar og Dalvík og milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Þar að auki hefjast framkvæmdir vegna Ölfusárbrúar á næsta ári en gert er ráð fyrir að veggjöld af umferð muni standa undir kostnaði við framkvæmdir og tefji því ekki framkvæmdir við aðra samgönguinnviði.
Fækkun einbreiðra brúa
Tæpir 4,3 milljarðar króna fara í framlög í fjölbreytt sameiginleg verkefni samkvæmt tilkynningu innviðaráðuneytisins. „Þar á meðal verða 2,5 ma. kr. settir í að leggja slitlag á tengivegi um land allt og 500 m.kr. í að fækka einbreiðum brúm, eða samtals 3 ma.kr. Stefnt er að því að einbreiðum brúm fækki um fimm árið 2025, á Hringveginum og utan hans.“