Vegagerðin kallaði bónda úr Hrútafirði til aðstoðar
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Þó nú virðist vor vera á næsta leiti hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum mikil snjókoma á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt 26. febrúar. Á sama tíma var lítill snjór miðað við árstíma víðast hvar annars staðar á landinu.
Sökum mikils fannfergis brá Vegagerðin á það ráð að kalla til tæki og mannskap utan af landi til að flýta fyrir að hreinsa vegi og vegkanta.
Hannes Hilmarsson, bóndi á Kolbeinsá í Hrútafirði, á dráttarvél með snjóblásara framan á vélinni og hefur aðallega verið við snjómokstur á Holtavörðuheiði og á Ströndum undanfarin ár. Hann var á meðal þeirra sem tók þátt í „hvítagullsæðinu“ á höfuðborgarsvæðinu.
Hannes setti traktorinn sinn á vörubíl og ók suður og byrjaði við suðurenda Hvalfjarðarganga. Á nóttunni alla síðustu viku var Hannes í að blása snjónum frá vegköntum út frá Reykjavík beggja vegna vegar ásamt fleiru.