Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Við Markarfljótsgljúfur.
Við Markarfljótsgljúfur.
Fréttir 19. nóvember 2015

Vegamál í óbyggðum hafa lengi verið í ákveðnum ólestri

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagstofnunar, hélt erindi á Umhverfisþingi 2015 sem hún nefndi „Ferðamannavegir, „óformlega vegakerfið“ og utanvegaakstur: 
„Það þarf ekki að hafa langan inngang að því að vegamál í óbyggðum hafa lengi verið í ákveðnum ólestri,“ sagði Ásdís.
 
Ásdísi Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagstofnunar. 
„Það hefur verið óljóst hvernig ákvarðanir eru teknar um vegakerfið og hvernig vegirnir myndast. Það hefur verið óljóst hvaða hjólför og leiðir teljast til heimilla akstursleiða, hvaða vegi skuli sýna á kortum, hver hefur eftirlit með umferð, hver er veghaldari vega og þessu til viðbótar bætist svo hreinn og beinn utanvegaakstur.“
 
Hún sagði að það þyrfti ekki að fjölyrða um hvers vegna það skiptir höfuðmáli í skipulags- og náttúruverndarumræðu að það takist að skýra þessa umgjörð og koma í veg fyrir utanvegaakstur. Fór hún síðan yfir það sem hún taldi vera stærstu breyturnar í þessum málum. Þar væri m.a. spurning hvernig við skipulegðum vegakerfið.
 
Lagalegar forsendur
 
„Viðfangsefni okkar tíma hefur fyrst og fremst verið að skrá og taka afstöðu til ökuleiða sem hafa mótast mikið til skipulagslaust í áranna rás. Það þarf að ákveða hverjar þessara leiða eiga að teljast til vega og hverjar ekki. Síðan getur auðvitað jafnframt þurft að ákveða nýjar ökuleiðir, þar sem þörf hefur myndast á nýjum vegtengingum og engar eru fyrir. 
 
Talsvert starf hefur verið unnið á undanförnum árum við að skýra hvaða vegir, hjólför og leiðir eiga að teljast til akstursleiða. Þetta hefur verið gert undir formerkjum verkefnisins Ávallt á vegi, en skort hefur á formlega lagaumgjörð og ramma um það verkefni. 
 
Ákveðin útfærsla lagaramma um vegamálin var sett fram í náttúruverndarlögunum 2013, en um hana reyndist ekki nægileg sátt. 
 
Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, til breytinga á þeim lögum, er lögð til breytt útfærsla að þessu verkefni sem felur í sér áherslu á nokkur lykilatriði: 
  • Í fyrsta lagi er skýr áhersla á að ákvarðanir um vegi eru ekki tæknilegt viðfangsefni fyrst og fremst heldur miklu fremur skipulagslegt viðfangsefni sem kallar á að ákvarðanir séu teknar af kjörnum fulltrúum með lýðræðislegt umboð, að undangengnu samráðsferli gagnvart hagsmunaaðilum. 
  • Í öðru lagi er lögð áhersla á að vegakerfið allt, hvort sem það er hið formlega vegakerfi í byggð eða hið óformlega vegakerfi í óbyggðum sé ein samfelld heild. 
  • Í þriðja lagi að vegakerfið verður ekki ákveðið í eitt skipti fyrir öll, heldur þarf að taka það til endurskoðunar með reglubundnu millibili. 
Síðast en ekki síst, þá skal hið óformlega vegakerfi óbyggðanna ávallt ákveðið á forsendum náttúruverndar og jafnframt er meðvitund um að það er og verður samsett úr ólíkum sumum akstursleiðum,  sem eru opnar almennri umferð og öðrum sem um gilda meiri eða minni takmarkanir á því hverjir mega aka þær, í hvaða tilgangi og á hvaða tíma árs.“ 
 
Hlutverk sveitarfélaga styrkt
 
„Í þessu ljósi er hlutverk sveitarfélaga styrkt í ákvæðum frumvarpsins, sem og áhersla á samráð við hagsmunaaðila og Vegagerðinni falið að varðveita heildstæða vegaskrá yfir jafnt hið formlega og óformlega vegakerfi. 
 
Í öllu samgönguskipulagi er mikilvægt að skipulagsfólk og hönnuðir átti sig á hvers konar útfærsla vegar eða götu á við á hverjum stað, miðað við umhverfi og aðstæður. Þannig er vaxandi skilningur og meðvitund um það að gatnahönnun í þéttbýli þarf að lúta öðrum lögmálum en þjóðvega- og hraðbrautahönnun. Það sama á við með vegakerfið í óbyggðum. Þar þarf að taka afstöðu til þess hvernig útfærsla vegar á við á hverjum stað. Á við að gera ekkert eða sem minnst, þannig að ökuleið liggi í landi, með óbrúuðum ám? Á við að byggja veginn upp, brúa ár og þess háttar? Og síðan eru það allar þær leiðir sem ekki er tilefni til að hafa opnar fyrir almennri umferð, en tilteknir hópar þurfa að hafa heimild til að fara um í tilteknum tilgangi. 
 
Í þessu sambandi er tilefni til að vekja athygli á að í fyrirliggjandi tillögu að landsskipulagsstefnu, sem Alþingi hefur einnig nú til umfjöllunar er tekið á þessu efni.
 
Í henni er lagt til að skipulag samgöngumála á miðhálendinu feli í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. Einnig er samgöngu- og skipulagsyfirvöldum falið að vinna frekar að útfærslu hönnunarforsendna fyrir vegi á hálendinu.“ 
 
En hvaða vegi á að sýna á kortum? 
 
„Í dag ríkir dálítið óvissuástand og sumir segja ófremdarástand um þetta efni og erfitt fyrir vegfarendur að leggja fullt traust á vegakort – hvort þau sýna í raun vegi sem heimilt er að aka, eða ekki. Mér er sagt, til dæmis, að á þessari mynd sé vegurinn sem sýndur er til vinstri á skjá GPS-tækisins ekki akvegur, heldur reiðleið – en það er ekkert á GPS-kortinu sem gefur það til kynna. 
 
Það liggur fyrir að á þau kort sem vegfarendur aka eftir um landið í dag hafa ratað margvíslegar leiðir sem ekki liggja fyrir ákvarðanir um að eigi að tilheyra vegakerfi landsins. Þarna inni eru reiðvegir, gönguleiðir og ökuleiðir sem ættu ef til vill eingöngu að vera opnar takmarkaðri, en ekki almennri umferð. 
Ákvæði nýrra náttúruverndarlaga og þess frumvarps sem Alþingi fjallar um nú stígur mikilvægt skref í átt að því að leysa þetta mál, en engu að síður bíður enn útfærslu í reglugerð að ákveða hvaða vegir skuli sýndir á opinberum kortum og hvernig.“ 
 
Umferðarútgerð
 
Ásdís Hlökk vék síðan að nokkrum þáttum til viðbótar og sagði:
„Eitt er það sem ég vil kalla umferðarútgerð, þ.e.a.s. ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á margvísleg akstursævintýri í náttúru Íslands. Það þarf náttúrlega að vera hafið yfir allan vafa að slík útgerð stundi ekki akstur utan vega. Ég tel að ábyrgðin á því liggi auðvitað og augljóslega hjá viðkomandi ferðaþjónustuaðilum, en hún liggur líka hjá þeim opinberu aðilum sem veita leyfi til viðkomandi ferðaþjónustufyrirtækja, þ.e .a.s að í leyfunum og samskiptum leyfisveitanda og rekstraraðila sé skýrt tekið á þessu efni – leiðbeint og sett afdráttarlaus skilyrði. 
 
Mig langar líka rétt stuttlega að nefna umsjón með vegunum. Það er það atriði sem ég held að við eigum kannski lengst í land með, en um leið er það mjög mikilvægt. Það liggur í augum uppi, að vegir þurfa viðhald og umsjón og það verða nauðsynlega að vera viðeigandi merkingar á öllum vegum í óbyggðum, hvort sem þeir eru opnir almennri umferð, lokaðir eða eingöngu opnir takmarkaðri umferð. Og þá þarf að vera skýrt hvers ábyrgð það er að annast þær merkingar. Og eins og ég les kerfið í dag, kunnum við að eiga eftir að skýra það talsvert mun betur.“ 
 
Utanvegaaksturinn
 
Ásdís vék síðan að utanvegaakstrinum undir lok erindis síns. Hún sagði að  hann snerist um akstur eftir hjólförum og slóðum sem viðkomandi telur vera fullgilda ökuleið. 
 
„En fyrir utan slíkan utanvegaakstur eru náttúrlega því miður allt of mörg dæmi um gálausan akstur á ósnortnu landi. Hvað er til ráða gagnvart því? 
 
Ég hef ekki töfralausn á því, en vil þó vera bjartsýn á að við eigum með markvissum hætti að geta með upplýsingum og umræðu breytt normum og viðhorfum í þá veru að slík hegðun geti heyrt sögunni til.“
Sagði Ásdís að bjartsýni sín um úrbætur byggði á fjölda dæma um hvernig viðhorf og hegðun í samfélaginu varðandi tiltekin mál hafi gjörbreyst á stuttum tíma.
 
„Við líðum ekki lengur reykingar innan dyra. Við líðum ekki lengur unglingadrykkju. Við spennum öll bílbeltin. Og svona mætti áfram telja grundvallar breytingar á viðhorfum og hegðun í samfélaginu sem gerst hafa á tiltölulega stuttum tíma. Við getum með sama hætti jaðarsett eða jafnvel útrýmt utanvegaakstri – og þá á ég bæði við okkar Íslendinga og erlendra ferðamanna. Kannski er hér komið tilvalið verkefni fyrir hina nýju stjórnstöð ferðamála,“ sagði Ásdís Hlökk. 

2 myndir:

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...