Nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði
Skref í áttina að betra afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum var stigið 3. september þegar iðnaðarráðherra tók formlega í gagnið nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.
Styrkingar hafa einnig farið fram á Tálknafjarðarlínu og vinna við varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík er langt komin. Hún á að vera tilbúin til notkunar fyrir árslok að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsneti.
Heildarkostnaður við byggingu nýja tengivirkisins og jarðstrengslagnir er um hálfur milljarður króna og kostnaður við varaaflsstöðina í Bolungarvík um einn og hálfur milljarður.
„Það er von okkar að þessi verkefni skili verulega bættu ástandi í raforkumálum hér,“ sagði Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, þegar nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði var tekið í notkun við athöfn vestra af iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur.
Framleitt er mun minna rafmagn á Vestfjörðum en þar er notað og eina tenging svæðisins við byggðalínuhringinn er um svokallaða Vesturlínu. Afhendingaröryggi raforku hefur ekki verið ásættanlegt vestra og hefur það verið forgangsmál hjá Landsneti á undanförnum misserum og árum að bæta þar úr.
Þegar hefur verið komið fyrir sérstökum fjarvörnum á öllum línum Landsnets á Vestfjörðum sem dregur úr líkum á umfangsmiklu straumleysi og auðveldar bilanaleit. Endurbætur hafa farið fram á Tálknafjarðarlínu, bæði í sumar og fyrrasumar, og bygging varaaflsstöðvar í Bolungarvík er langt komin þar sem hægt verður að framleiða allt að 11 megavött (MW) inn á svæðiskerfið með sex dísilvélum. Þá lauk byggingu nýja tengivirkisins á Ísafirði síðsumars og var þörfin fyrir það orðin brýn. Gamla virkið var orðið úr sér gengið tæknilega, auk þess sem það er á snjóflóðahættusvæði í Stórurð og er þar í vegi fyrir nýjum ofanflóðavarnargarði.
Samstarfsverkefni Landsnets og Orkubús Vestfjarða
Nýja tengivirkið er staðsett á iðnaðarsvæðinu á Skeið, innan við Ísafjarðarkaupstað, við hlið kyndistöðvar Orkubús Vestfjarða.