Vegir verði lagfærðir í Svarfaðardal og Skíðadal
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Íbúafundur sem haldinn var í Svarfaðardal og Skíðadal fyrir nokkru skorar á sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar að vegir fram í Svarfaðardal og Skíðadal verði lagfærðir og upphækkaðir hið allra fyrsta og sett á þá bundið slitlag.
Enn fremur skoraði fundurinn á sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar að breyta reglum um mokstur heimreiða þannig að fyrsti klukkutíminn fyrir snjómokstur verði greiddur af sveitarfélaginu en mokstur þar umfram verði greiddur til helminga af sveitarfélaginu og ábúendum. Þá skoraði fundurinn einnig á sveitarstjórn að mótmæla þeirri ákvörðun Íslandspósts að draga úr þjónustu í dreifbýli Dalvíkurbyggðar.
Byggðaráð Dalvíkurbyggðar fjallaði um erindi frá íbúafundinum og samþykkti á fundi að fela sveitarstjóra að gera tillögu til Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu og aðrar framkvæmdir og leggja fyrir næsta fund Byggðaráðs. Samþykkt var einnig að halda óbreyttum reglum varðandi heimreiðamokstur.