Veira í agúrkurækt
Matvælastofnun hefur borist tilkynning um veirusmit á tveimur búum í agúrkurækt á Suðurlandi. Óljóst er hve útbreidd veiran er eða hve mikið tjón getur hlotist af sýkingu á þessum tímapunkti.
Matvælastofnun skipuleggur nú sýnatökur til að kanna frekari útbreiðslu og beinir þeim tilmælum til ræktenda að gæta ýtrustu smitvarna.
Veiran sem um ræðir nefnist cucumber green mottle mosaic virus (CGMMV) og er af ættkvísl Tobamoveira. Veiran hefur greinst víða í Evrópu. Hún smitar ekki menn og stafar almenningi ekki hætta af neyslu agúrka.
Veiran getur smitast milli plantna með snertingu (hendur, föt og áhöld) og getur einnig dreifst með fræi. Aðrar smitleiðir eru sýktar ungplöntur, afskornir plöntuhlutar, pökkunarefni og ávextir. Veiran getur lifað á fatnaði í allt að mánuð. Ekki er ástæða til að ætla að veiran breiðist út fyrir gróðurhúsarækt.
Einkenni sýkingar eru breytileg milli árstíða en meðal einkenna eru gulleit laufblöð, gult og grænt mósaík munstur á laufblöðum, misvöxtur ávaxta og dauði plantna.
Mikilvægt er að takmarka útbreiðslu veirunnar eins og mögulegt er og vill Matvælastofnun beina því til ræktenda, sem og annarra sem við á, að gæta fyllsta hreinlætis þegar komið og farið er frá ræktunarstöðum. Forðast skal allan samgang milli ræktunarstaða. Matvælastofnun birti nýlega leiðbeiningar um sóttvarnir við ræktun garðyrkjuafurða og hvetur stofnunin alla ræktendur til að kynna sér sóttvarnir og innleiða þær eftir fremsta megni.