Verð – gæði – framboð – öryggi
Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Til eru þeir sem staðhæfa að ekki sé til ódýr matvara. Er töluverður sannleikur í staðhæfingunni? Fiskur á borði, kjötstykki, mjólkurglas, brauðhleifur eða epli lenda ekki þar án margþættrar vinnu sem að einhverju leyti kann að vera ógreidd en má engu að síður meta til verðs.
Veiði frummannsins var ekki ódýr gjörð ef erfiðið, áhættan og afraksturinn eru metin. Strit bænda, án véla lengst af, kostaði mikið, eins þótt margir þeirra sæju minnst af verðmætunum í gamla lénskerfinu. Asískt krydd kann að vera fengið að hluta með barnaþrælkun. Eftir að vélar og aðfengin orka með jarðefnaeldsneyti kom til sögu jókst kostnaður við matvælaframleiðslu um margt þó að framleiðslutími kynni að styttast og uppskeran að aukast. Neytendum hættir eflaust og eðlilega til að horfa alls ekki heildrænt á verðmiðann. Krónutalan hér og nú skiptir okkur langmestu máli. Framboð og eftirspurn ræður miklu um töluna. Sömuleiðis verð til bóndans, innlendur og erlendur flutningskostnaður, tollar og óljós álagning allra aðila frá framleiðanda til seljandans, svo það helsta sé nefnt. En hver spáir í slíkt? Eða í umhverfisáhrifin sem fylgja lága verðinu? Á opnum, stórum matarmarkaði í miðri París geta menn valið um lambakjöt frá smábýli í Auvergne eða þriðjungi ódýrara kjöt frá stórbýli í Nýja-Sjálandi. Hver er verðsamanburðurinn þegar allt er talið? Og er ódýrara kjötið í raun ódýrt?
II
Að sönnu skiptir verð landbúnaðarvara hvert okkar miklu máli. Það er skylda þeirra sem búa hana til fullmótaða að sýna sanngirni og það er skylda okkar hinna að hugsa heildrænt þegar við metum verðmiðana. Þá kemur að álagi á umhverfið, gæðum, hollustu, nauðsynlegu framboði og matvælaöryggi. Samhliða eigum við að veita aðhald, rétt eins og framleiðendurnir sækja sér sem mestan hagnað af sínum þætti í öllu ferlinu. Gæði matvöru er vanmetinn þáttur en á að vera einna mikilvægastur þegar kemur að verðmatinu. Við erum það sem við borðum og fyrir löngu er orðið ljóst að sjúkdómar og vandræði vegna neyslu óhollra matvara (menn geta deilt um þær) eru valdir að gríðarlegum samfélagskostnaði. Sem mest gæði miðað við verð fást með góðu regluverki um t.d. áburð og líka efni gegn sjúkdómum, skordýrum, sveppum osfrv., með gegnsæi þegar kemur að framleiðslunni, notkun vistvænna og hreinna auðlinda, t.d. vatns, með sem mestum ferskleika og þannig mætti áfram telja. Þess vegna hljótum við að sækjast eftir innlendum matvælum, þar sem heimatökin eru hæg, og þeim erlendu, sem við vitum að eru góð og holl. Þess vegna er landbúnaður stundaður alls staðar sem unnt er, veðurfars og aðstæðna vegna. Í raun er matvælaframleiðsla heima fyrir, þegar mannkyn stefnir í 10 milljarða, sammannleg skylda.
III
Kalla má það skiljanlega hugmynd að nota greiðar samgöngur og ólíka uppskerutíma eftir hnattstöðu svo framboð margra vara verði stöðugt. Það gildir þó aðeins í „ríkum löndum“ en ekki í löndum þar sem almenningur hefur ekki efni á að nota mikið af innfluttri matvöru. Á Íslandi, fram undir 1970, var raunin sú að árstíðir réðu miklu um matvöruframboð en nú er staðan allt önnur. Nú fæst næstum allt (þótt dýrt geti verið), allan ársins hring. Mikið af þeirri vöru kemur langt að og oft með flugi. Hitt blasir líka við að innlend vara er oft ekki til í nægu magni á uppskerutíma og eftir hann. Getum við bætt hér um betur? Vafalítið.
Enginn kaffineytandi vill vera kaffilaus og má segja það sama um margar vörutegundir. En ýmsum öðrum vörum, t.d. ávaxtategundum og grænmeti, geta menn alveg beðið eftir og neytt þegar þær fást úr næsta nágrenni landsins.
Röksemdin: – Ef fólk vill borga, fær það vöruna hvaðan sem er – ber vott um einsýni og skammsýni. Einhvers staðar liggja sanngirnismörk. Hér þarf að höfða bæði til neytenda og innflytjenda. Þegar kemur að innlendum vörum sem tímabundinn skortur er á, hlýtur að vera hægt að nota hvata og sveigjanlegar áætlanir, svo ekki sé minnst á jarðvarma (úti eða inni), til þess að auka framboð. Reynslan sýnir að neytendur velja oftar en ekki íslenskar vörur í stað sams konar erlendrar vöru.
IV
Hugtakið fæðuöryggi minnir á stríðstíma eða náttúruhamfarir. Margir vilja gera lítið úr því enda höfum við varla barist við slíkt síðan í Skaftáreldum. Nú til dags, á gnægtartímum hér við Norður-Atlantshaf, vilja margir gera lítið úr fæðuöryggi. En það er ekki allt sem sýnist. Án þess að vilja mála of dökka mynd af loftslagsbreytingum eða hækkun olíuverðs eða illvígum átökum í mörgum löndum núorðið, getur verið rétt að hafa allan varann á. Matvöruskortur, í skamman eða langan tíma, getur stafað af of háum flutningskostnaði, of litlu, staðbundnu vatni, hraðri eyðimerkurmyndun, súrnun sjávar, þrálátum stormum, lokun siglingaleiða, breytingum til hins betra á einhæfri framleiðslu í þróunarlöndum og jarðvegsmengun vegna mengunarslysa, skaðlegs frárennslis og úrgangs. Listinn gæti verið miklu lengri. Hann beinir sjónum að því sama og fyrr var nefnt: Landbúnað ber að stunda alls staðar sem unnt er, veðurfars og aðstæðna vegna. Í raun er matvælaframleiðsla heima fyrir, þegar mannkyn stefnir í 10 milljarða, sammannleg skylda.
V
Samruni umhverfisfræði og hagfræði er löngu staðreynd. Þar með hefur til orðið nýtt hugtak: Lífhagkerfi. Það nær yfir allar lífauðlindir, innra samhengi þeirra og áhrif á efnahag, umhverfi og félagslega þætti. Öflugt lífhagkerfi byggir á eins litlu umhverfisálagi og unnt er, góðum viðnámsþrótti vistkerfa, matvælaöryggi, opnu aðgengi að markaði, nýtingu úrgangs og nýsköpun. Bændur gegna lykilhlutverki í lífhagkerfinu, rétt eins og sjómenn eða þeir sem vinna að orkuöflun. Neytendur hafa sitt hlutverk og einnig báknið flókna sem gengur undir heitinu stjórnvöld. Hvað hentar okkur betur en lifandi og þróttmikið lífhagkerfi?
Höfundur þakkar samflotið við lesendur í rúma sex mánuði, blaðinu fyrir góða samvinnu og Bændasamtökunum og ritstjórninni fyrir hugmyndina um að beina orðum um umhverfismál, á prentuðum síðum og vefsíðu blaðsins, að landbúnaðargeiranum og almenningi.