Verðandi búfræðingar senda frá sér markaspil
Verðandi búfræðingar, útskriftarnemar 2016, í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, hafa látið framleiða Markaspil. Spil sem nemendur hafa spilað fyrir próf í eyrnamerkingum síðustu árin.
Hugmyndin að Markaspilinu kviknaði síðastliðið haust þegar búfræðingar voru að læra undir próf í markaheitum og eyrnamerkingum. Til að eiga auðveldara með að muna mörkin bjuggu nemendurnir sér til samstæðuspil og spiluðu það og gekk öllum vel á prófinu.
Nemendurnir sem standa að spilinu eru að ljúka öðru ári í búfræði og stefna flest á búskap. Í vor mun hópurinn halda í útskriftarferð til Lúxemborgar, Belgíu og Frakklands þar sem fræðst verður um verklag annarra þjóða. Með kaupum á spilinu styrkir fólk þessa ungu og flottu fulltrúa bændastéttarinnar.
Markaspilið er skemmtilegt samstæðuspil fyrir alla fjölskylduna, spilið er einfalt og er bæði fyrir unga sem aldna. Hægt er að spila það sem veiðimann, samstæðuspil og fleira. Markmið spilsins er að kenna eyrnamerkingar og markheiti á íslensku sauðfé og því skemmtilegt og flott framtak.
Sala á spilinu er hafin og ætti að vera skemmtileg gjöf á sveitaheimilum í bæjarfélögum og meðal borgarbarna.
Nánari upplýsingar á www.facebook.com/markaspilid eða á markaspilid@gmail.com