Verðhækkun leiðir til skógareyðingar og dauða
Mikil verðhækkun á vanillubelgjum hefur leitt til þess að aukið skóglendi hefur verið rutt til ræktunar á vanillaorkideunni. Auk þess sem meiri ásókn í belgina hefur leitt til þjófnaða, átaka og dauða vegna átaka um uppskeruna.
Eftirspurn eftir vanillubelgjum sem náttúrulegt bragðefni á Vesturlöndum hefur ríflega fimmfaldast undanfarin ár. Vanilla er þekkt bragðefni sem er mikið notað í ís, súkkulaði og sem vanilludropar við bakstur.
Þjófar drepnir með sveðjum
Víða þar sem vanilla er ræktuð ríkir umsátursástand þar sem þjófar sitja um uppskeruna og bændur verja hana með vopnum. Í einu tilfelli þar sem þjófar fóru um ræktunarsvæði tóku bændurnir sig saman og réðust til atlögu við þjófana með þeim afleiðingum að fimm þjófanna voru dregnir á burt og síðan drepnir með sveðjum og spjótum.
Mest ræktað á Madagaskar
Madagaskar er stærsti ræktandi vanillu í heiminum og þar er skógareyðing til að auka ræktun einnig mest.
Fyrir nokkrum árum var rósaviður mest seldi varningurinn á svörtum markaði á Madagaskar en í dag er það vanilla.
Þrátt fyrir miklar hækkanir á verði á vanillu á Vesturlöndum hefur verð til bænda ekki hækkað og lifa flestir vanilluræktendur á Madagaskar undir fátækramörkum.