Verslanakeðjan Whole Foods í Bandaríkjunum hættir að kaupa íslenskt lambakjöt
Verslanakeðjan Whole Foods í Bandaríkjunum er að öllu óbreyttu að hætta sölu á íslensku lambakjöti í verslunum sínum. Ástæðan er m.a. auknar kröfur verslunarinnar sem ekki er talið raunhæft að mæta og valda íslenskum bændum miklum kostnaðarauka.
Whole Foods gerir þá kröfu að íslenskt lambakjöt gangist undir vottun Global Animal Partnership. Fyrirtækið sem sér um vottunina er dótturfélag Whole Foods og því tæpast um þriðja aðila að ræða. Vottun þess mun auka kostnað sauðfjárbænda verulega.
Sérkennileg ákvörðun
Hafliði Halldórsson hjá Icelandic Lamb segir að vegna þessa sé vafi á að viðskipti við Whole Foods muni halda áfram eftir næstu sláturvertíð.
„Ákvörðun Whole Foods er einkennileg í ljósi þess að sú vottun sem íslenskt lambakjöt hefur, bæði íslensk og evrópsk, í dag geri í flestu meiri kröfu um aðbúnað en vottun Global Animal Partnership.
Það sem er ólíkt í núverandi vottun á íslensku lambakjöti og Global Animal Partnership er helst tvennt. Annars vegar reglur um aukið rými fyrir hverja fullorðna á yfir veturinn og undirlag. Vottun Global Animal Partnership gerir sömu kröfur um rými og gerðar eru um rými gripa við lífræna ræktun og svo að dýrin standi ekki á grindargólfi heldur á taði. Reyndar voru fulltrúar Whole Foods tilbúnir að falla frá seinni kröfunni eftir að hafa skoðað aðstæður í nokkrum fjárhúsum.
Að sögn Hafliða mun aukakostnaður á hvert kíló af lambakjöti aukast verulega undirgangist íslenskir sauðfjárbændur vottunina og það er ekki kostnaður sem hægt er að bæta ofan á núverandi kostnað bænda.
Harðari krafa Whole Foods
„Whole Foods hefur í mörg ár verið að ýta því að íslenskum afurðastöðvum og sauðfjárbændum að gangast undir Global Animal Partnership og íslenskt lambakjöt hefur til þessa verið undanþegið þeirri vottun.
Í vor kom svo harðari krafa frá Whole Foods um að gangast undir vottunina. Icelandic Lamb og fulltrúar Kaupfélags Skagfirðinga, Sláturhússins á Hvammstanga og Landssambands sauðfjárbænda tók á móti sendinefnd frá Whole Foods í mars síðastliðinn þar sem farið var yfir málið.
„Við reyndum að ná samkomulagi um einhvers konar útfærslu á vottuninni en svar Whole Foods var nei og að þeir mundu hætta að selja íslenskt lambakjöt nema að vottunin væri samþykkt að fullu.
Að okkar mati var kostnaðurinn við vottunina allt of hár til þess að hægt væri að gangast undir hana.“
Hafliði segir að kostnaðurinn við vottun hvers býlis á 14 til 16 mánaða fresti sé sá sami, hvort sem um er að ræða íslensk sauðfjárbú með 200 kindum eða kjúklingabú í Bandaríkjunum með 300.000 hænur í eldi.
Kaup Whole Foods breytileg milli ára
Undanfarin 20 ár hefur magnið af íslensku kindakjöti sem Whole Foods hefur keypt verið misjafnt milli ára.
„Á síðasta ári voru það um 200 tonn en árið þar á undan voru það 130 tonn. Salan hefur því verið mjög rokkandi milli ára og aldrei náð þeirri hæð sem til stóð og ekki fest í sessi. Þrátt fyrir það hefur okkur fundist Whole Foods vilja halda viðskiptunum áfram þar til núna.
Fyrir vikið hafa aðrar dreifileiðir setið á hakanum og við ekki lagt nógu mikla áherslu á að skoða þær. Það er því ekki um annað að ræða en að leita nýrra leiða detti Whole Foods út og galopið að skoða allar leiðir,“ segir Hafliði.