Víðtæk áhrif af verkfalli dýralækna, matvælafræðinga og líffræðinga
Á miðnætti hófust verkföll hjá fjórum stéttarfélögum innan BHM og þar með eru dýralæknar, matvælafræðingar og líffræðingar hjá Matvælastofnun farnir í verkfall.
Áhrif verkfalls starfsmanna Matvælastofnunar eru víðtæk og nær til meira en helmings starfsmanna stofnunarinnar, en einungis forstjóri Matvælastofnunar og yfirdýralæknir eru undanþegnir verkfalli.
Allt eftirlit í frumframleiðslu og með matvælafyrirtækjum sem framleiða búfjárafurðir mun stöðvast, þar með talin mjólkurframleiðsla. Einnig eftirlit með heilbrigði, aðbúnaði og velferð dýra og áburði og fóðri. Eftirlit í sláturhúsi stöðvast og þar með kjötframleiðsla, auk út- og innflutnings lifandi dýra og dýraafurða. Eftirlit með sjúkdómum í fiskeldi og með plöntuheilbrigði stöðvast einnig.
Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag kom fram að Reykjagarður hafi sótt um undanþágu til að fá að slátra og er vonast eftir að það skýrist í dag.