Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Meginhluti ræktunarhúsa Kvistabæjar er ónothæfur eftir ofsaveðrið.
Meginhluti ræktunarhúsa Kvistabæjar er ónothæfur eftir ofsaveðrið.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 24. febrúar 2022

Víðtæk eyðilegging í illviðrinu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Gróðurhús á Suðurlandi urðu illa úti í óveðri sem geisaði sl. mánudag, 22. febrúar. Úrkomusamt suðaustan ofsa­veður gekk þá yfir landið og fór vindhraði yfir 50 metra á sekúndu í hviðum á nokkrum veðurstöðvum.

Stórtjón í Jarðarberjalandi

Húsnæði garðyrkjustöðvarinnar Jarðarberjalands í Biskupstungum eyðilagðist í illviðrinu.
Gróðurhúsið var 2.000 fm stórt og innihélt 18.200 jarðarberjaplöntur.

Gróðurhús Jarðarberjalands var 2.000 fm stórt og innihélt 18.200 jarðarberjaplöntur

„Við fórum niður að stöð um leið og hægt var, þegar aðeins lægði, upp úr miðnætti. Þá var húsið farið,“ segir Steinar Ástráður Jensen, annar eigenda stöðvarinnar. Ekki liggi fyrir heildartjón þeirra á þessum tímapunkti en ljóst sé að ræktunarárið þeirra sé fyrir bí.

„Það munu engin ber koma héðan út þetta ár og fram á mitt næsta ár að minnsta kosti. Við vorum búin að stilla upp í heilsársræktun og frá okkur fara vikulega 4–500 kg á veturna og 1.000–1.500 á sumrin,“ segir Hólmfríður Geirsdóttir, sem einnig á stöðina, en ársframleiðsla Jarðarberjalands er rúm 30 tonn af berjum á ári.

Þau segja að nú taki við að ræða við tryggingarfélagið en ljóst sé að þau hafi misst sína starfsstöð alla og endurreisa þurfi húsnæðið til að koma rekstrinum aftur af stað.

Skelfileg aðkoma

Þá er meirihluti 1.800 fm ræktunarhúsa trjáplöntuframleiðandans Kvistabæ í Reykholti ónothæfur eftir að plast rifnaði af gróðurhúsum stöðvarinnar. Aldís Björk Sigurðardóttir, framkvæmda- og ræktunarstjóri, reyndi að bjarga hluta húsanna um leið og stærsti skellurinn var yfirstaðinn.

„Við fórum um kvöldið til binda niður hluti sem höfðu losnað og skera plast frá til að það myndi ekki skemma út frá sér. Þetta var svakalegt, því við heyrðum rosalega hvelli og þá var það líklegast Jarðarberjaland að gefa sig,“ segir Aldís.

Engar plöntur voru í Kvistabæ en framleiðendurnir hugðu á sáningu í byrjun mars, sem ekkert verður úr.

„Ástandið setur reksturinn í mikla óvissu þar sem búið er að gera samninga um afhendingar fram í tímann sem erfitt getur verið að standa við. Við stefndum á að rækta um 2,5 milljón plöntur en úr þessu verður framleiðslan varla helmingurinn af því og tjónið því gríðarlegt,“ segir Aldís. Ekki verður hægt að plasta húsin aftur fyrr en veðrið verði heitt og lygnt.

Kryddjurtaskortur fram undan

Gróðrarstöðin Ártangi í Grímsnesi varð einnig illa úti. Rúður á víð og dreif um 3.000 fermetra svæði brotnuðu og dreifðust yfir afurðir stöðvarinnar. „Um 70–80 rúður fuku eða brotnuðu í þremur húsum. Ein rúða fýkur og brýtur aðra og hefur svo keðjuverkandi áhrif þegar vindáttin er svona leiðinleg,“ segir Gunnar Þorgeirsson, annar eigenda stöðvarinnar og formaður Bændasamtaka Íslands.

Glerbrotum rigndi yfir afurðir í Ártanga. Tjónið mun hafa áhrif á kryddjurtaframboð í verslunum næstu vikur.

Hann var ekki farinn að taka saman tjónið sem óveðrið olli. Um 20–30 þúsund plöntur eru í stöðinni og ljóst að hluta þeirra verði hent. Því megi búast við takmörkuðu framboði af kryddjurtum frá Ártanga næstu 3–4 vikurnar.

Gunnar segist ekki muna svona tíð og slæm veður áður. „Það er óvanalegt að vindstyrkurinn fari yfir 40 metra og sjaldgæft að fá svona margar, krappar lægðir á stuttum tíma. En ef maður lifir febrúar af þá lifir maður veturinn af,“ segir Gunnar, sem var í óðaönn við að laga gróðurhúsin fyrir næsta skell, sem búist er við á föstudag.

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...