Gott hey og einsleitni lykillinn að árangri
Stóra-Mörk 1 í Rangárþingi eystra var afurðahæsta kúabúið árið 2023, með 8.903 kílógrömm eftir árskú. Þar eru Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson bændur. Tíðindin leggjast vel í þau, en töluverð vinna sé að halda þessu og allt þurfi að ganga upp.
Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið í búskap á Stóru-Mörk 3 frá 2010. Þá keyptu þau Stóru-Mörk 1 af frænku Aðalbjargar árið 2019 og færðu hjörðina yfir í fjósið hjá sér. Þótt gripirnir gangi saman hafa þau haldið hjörðunum alveg aðskildum í skýrsluhaldi frá upphafi. Þegar kýr eignast kvígur halda þær áfram í sömu hjörð og móðirin og engin tilfærsla er á gripum. „Auðvitað er verið að sæða með sömu nautunum, þannig að þetta er skylt,“ segir Aðalbjörg. „Áhrifin ættu að deyja út en það hefur ekki gert það enn þá,“ skýtur Eyvindur inn í.
Í hjörðinni frá Stóru-Mörk 1 eru fjörutíu kýr, á meðan sú frá Stóru-Mörk 3 telur rúmlega áttatíu. „Það er fróðlegt að sjá muninn milli hjarða,“ segir Eyvindur, en meðalnytin eftir hverja árskú í Stóru-Mörk 3 eru 7.626 kílógrömm. Þau geta ekki útskýrt af hverju munurinn stendur því kýrnar ganga saman, eru mjólkaðar í sama fjósi og fá sama fóður. Heildarframleiðslan sé tæplega milljón lítrar mjólkur á ári. Spurð út í ástæður þess af hverju þau eru með kúahjarðirnar aðskildar segir Aðalbjörg að þau hafi ekki fengið heimild til að sameina þær og færa greiðslumarkið milli jarða, þó líklega séu þau komin á þann stað að þau geti fengið undanþágu.
„En svo erum við búin að læra inn á þetta flækjustig,“ bætir Aðalbjörg við, þó hún reikni með að þau muni fella þetta allt undir einn hatt fyrr en seinna. Allt skýrsluhald sé tvöfalt núna, en miklu muni um að mjaltaþjónarnir haldi utan um afurðirnar eftir hvern einstakling.
Sláttutími grundvallaratriði
Aðalbjörg og Eyvindur telja að þennan góða árangur megi þakka hversu föstum tökum þau hafi tekið túnrækt og fóðuröflun. Eftir að þau komu inn í búskapinn árið 2010 lögðu þau áherslu á að fara markvisst í endurræktun túna og er meðalaldur spildnanna þar sem kúaheyið er ræktað sex ár, á meðan sú elsta er tíu ára.
Þau vakta gæði heysins með því að taka heysýni og fylgjast með hversu lystugt það er fyrir kýrnar. Um leið og þau sjá að rúllur af einhverri spildu eru með lakar niðurstöður úr heyefnamælingum eða ganga illa út leggja þau á ráðin að endurrækta viðkomandi tún næsta vor. Að jafnaði endurrækta þau tuttugu hektara árlega. Heildarræktarlandið er hundrað og áttatíu hektarar, þar af eru hundrað og þrjátíu með mjög góða ræktun og hugsaðir í kúafóður.
„Að vera mjög nákvæm á sláttutíma og heyverkun er grundvallaratriði,“ segir Aðalbjörg. Hún bendir á að það sé dýrt að slá, heyja og rúlla og sá kostnaður sé alltaf sá sami óháð gæðum heysins. „Við leggjum áherslu á að ná slættinum alveg hárrétt og ekki fara að sofa þótt klukkan sé orðin tíu um kvöld.“ Þá gangi mjög mikið á gæði heysins ef beðið er eftir aukinni sprettu fyrir fyrsta sláttinn og því hefjist heyskapur alltaf mjög snemma, eða í byrjun júní. Þau bæta við að ef fyrsti sláttur er uppskerulítill, jafnast það oftast út í öðrum og þriðja slætti.
Yfirleitt eru þau búin með annan sláttinn rétt fyrir verslunarmannahelgi og þriðji slátturinn klárast yfirleitt í lok ágúst eða byrjun september. Með því að slá allt þrisvar nái þau kröftugu gróffóðri og eru þau ekki í neinum vandræðum með lystugleika á öðrum slættinum og er síðasti slátturinn jafnvel enn lystugri.
Kornrækt of áhættusöm
Til að kúnum líði sem best miða þau að því að hafa alla daga eins og fóðrið mjög einsleitt. Þetta takist þeim með því að hafa góða ræktun á öllum túnum og bætir Aðalbjörg við að þau reyni aldrei að plata lélegu heyi í kýrnar með því að blanda því við verra fóður. Höfuðatriði sé að allt gróffóður sé vandað, en allt hey er gefið á hefðbundinn fóðurgang þar sem nýjum rúllum er raðað annan hvern dag.
Aðspurð hvort þau þurfi að leggja hart að sér til að viðhalda heilbrigði kúnna, segir Eyvindur að þau kaupi mjög lítið af steinefnum og vítamínum. Þá passi þau upp á að gefa geldkúnum gróft hey. Aðalbjörg bætir við að með því að hafa allt eins og gera engar æfingar sé hægt að viðhalda hraustum og nytháum kúm.
„Þetta er svo óspennandi bú að það er eiginlega ekkert gaman að taka viðtal við okkur,“ segir Aðalbjörg glettin. „Við erum bara með rúllur og fóðurbæti og meira að segja gamalt fjós.“
Helminginn af orkunni fái kýrnar úr aðkeyptu kjarnfóðri, sem þau benda á að sé nálægt meðaltali á landinu. Kosturinn við fóðurbæti sé að hann sé tilbúinn og klár til notkunar þegar hann er keyptur. Það sé hins vegar dýrt fóður og því keppist þau við að ná sem mestum gæðum úr gróffóðrinu.
Þau eru ekki í kornrækt þar sem þau segja hana of áhættusama. „Stundum er þetta geggjað. Svo koma haustlægðir og þetta fýkur niður,“ segir Aðalbjörg. Þar sem þau eigi mikið land hafi þau valið að einbeita sér frekar að gróffóðurrækt, en vel heppnað hey sé gott og tiltölulega ódýrt og öruggt fóður.
Áburðarnotkun minnkuð um helming
Eins og áður segir er ræktunin í Stóru-Mörk mjög markviss og miðar hún einnig að því að takmarka áburðarnotkun. Þau hafi notast mikið við grasfræblöndur með rauðsmára, sem bindur köfnunarefni í jarðveginn og hefur heildarnotkunin á tilbúnum áburði minnkað um helming frá árinu 2010. Á sama tíma hafi þau fjölgað túnunum. „Yfirleitt berum við tvö hundruð og sjötíu kíló á hektara í fyrri slætti og hundrað og fimmtíu fyrir aðra umferðina. Svo látum við skítinn yfirleitt duga í þriðja sláttinn,“ segir Eyvindur.
Einn liðurinn í minnkaðri áburðargjöf sé að fylgjast með sýrustigi í jarðvegi allra túna. Með því að bera markvisst kalk á ræktarland hafi pH gildið að jafnaði hækkað um nokkrar kommur, sem þýði að túngrösin nýti áburðarefnin betur. Aðalbjörg bætir við að það hafi ekki komið niður á uppskerunni þótt áburðargjöf hafi minnkað.
Bændur verði að leggja sitt af mörkum til að lágmarka sitt kolefnisspor, en stór þáttur í sótspori landbúnaðarins sé tilbúinn áburður. Þau hafa tekið þátt í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður frá upphafi, en bændur þurfi líka að elta markaðinn sem kalli eftir umhverfisvænum vörum.
Fimmti ættliður í Stóru-Mörk
Aðalbjörg er fimmti ættliður bænda í Stóru-Mörk. Nú eru þau ein í búskap á torfunni, en Stóra-Mörk samanstendur af þremur bæjum. „Við flytjum hingað í eldgosinu 2010 og vorum í búskap með pabba og mömmu alveg þangað til í fyrra,“ segir Aðalbjörg. Foreldrar hennar heita Ragna Aðalbjörnsdóttir og Ásgeir Árnason og bendir Aðalbjörg á að þau eigi stóran hluta af heiðrinum þar sem ekki sé langt síðan þau drógu sig úr búrekstrinum.
Þegar þau komu inn í búið var þetta blandað bú með þrjú hundruð kindum og sjötíu kúm. „Eftir að við tókum við höfum við ákveðið að einbeita okkur enn frekar að mjólkurframleiðslunni, sérstaklega eftir að við bættum við Stóru- Mörk 1,“ segir Aðalbjörg. Þau hafi minnkað ásetning á nautum og fækkað sauðfé niður í fjörutíu og fimm þar sem þau séu að jafnaði bara tvö sem sinni bústörfum.
Áhyggjur af þróun mjólkurframleiðslu
Aðalbjörg er nokkuð gagnrýnin á félagskerfi bænda og er hún áhyggjufull yfir þróuninni í mjólkurframleiðslu undanfarin ár. Rekstrargögn sýni að bændur borgi að meðaltali tæpar nítján krónur með hverjum framleiddum mjólkurlítra. Þetta þýði að bændur séu farnir að leita sér að vinnu utan bús eða ganga á eigið fé og sína eigin heilsu til að greiða með búrekstrinum. Þeir sem hafi fjárfest standi verst, en það sé líka fólkið sem ætli að byggja upp sinn landbúnað.
„Þeir sem hafa verið í forsvari fyrir bændur og eru í hagsmunagæslunni og kjarabaráttunni hjá heildarsamtökum okkar bænda, hafa sofið á verðinum og ekki gripið nógu fast inn í. Ég veit að þeir eru að eiga við ríkisvaldið sem þarf líka að gyrða sig í brók. Stjórnmálamenn þurfa að standa við það sem þeir segja í ræðum á tyllidögum,“ segir Aðalbjörg.
Eyvindur nefnir að alltof stór hluti kúabænda nái ekki að mjólka upp í greiðslumarkið hjá sér. Þau telja að það sé vegna langvarandi afkomuvanda bænda en bæta við að skýringar megi einnig finna hjá íslenska kúakyninu. Á meðan aðrir kúastofnar taki stöðugum framförum í kynbótum dragist íslenska kýrin aftur úr. Meðalnytin hafi ekki vaxið í nokkur ár og hátt hlutfall kvíga á landsvísu festi ekki fang.
„Svo er mikill kálfadauði það versta í stofninum,“ segir Eyvindur. Þetta geri að verkum að allir gripir séu settir á og úrvalið sé ekki nóg. Þá geti bændur lent í því að eiga ekki nóg af gripum.