Rekstrarafkoman áfram efst á baugi
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, bóndi í Ásgarði í Dölum, var kjörinn nýr formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum á deildarfundi sauðfjárbænda 13. febrúar.
Eyjólfur segir að ljóst sé að erilsamir tímar séu fram undan í hans lífi, enda beri hann nokkra aðra hatta í lífi og starfi; hann sé til að mynda oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar og ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) í 50 prósent starfi.
Verndandi arfgerðir gegn riðu
Hann telur að aðaláherslur og verkefni hans í embætti formanns muni snúa að kjaramálum sauðfjárbænda. „Það er mikilvægast að ná frekari leiðréttingu á afurðaverði til bænda. Í ytra umhverfinu eru landnýtingarmálin ofarlega á baugi í augnablikinu og inn á við eru fjölmörg verkefni í gangi, eins og innleiðing verndandi arfgerða gegn riðu, en það er mjög jákvætt að nýtt upprunabú ARR fannst nýlega hér í Dölunum.“
Að sögn Eyjólfs hefur hann sem ráðunautur hjá RML unnið að söfnun, úrvinnslu og greiningum á rekstrarstöðu sauðfjárbúa og öðrum rekstrartengdum verkefnum og þekkir því vel þann afkomubrest sem bændur hafi glímt við á undanförnum árum – frá öllum hliðum. „Ég vil halda áfram að sinna þessum rekstrartengdu verkefnum, en er mjög meðvitaður um að ég sinni hlutverkum sem geta skarast. Rekstrartengdu verkefnin eru teymisvinna og við sem stöndum saman að teyminu eigum eftir að fara yfir verkaskiptingu hjá okkur. Ég á ekki von á því að það hafi neikvæð áhrif á störfin sem fram undan eru. Ég tók það skýrt fram þegar ég gaf kost á mér til forystu, að ég vildi áfram sinna mínum störfum hjá RML og það gerði enginn athugasemd við það.“
Samtal við afurðastöðvarnar
Varðandi afurðaverðsmálin, þá stefnir í að taka samtalið með forsvarsmönnum afurðastöðvanna fljótlega varðandi frekari leiðréttingu á afurðaverði. „Aukinn innflutningur er ákveðin ógn en þótt innflutt matvæli séu ódýr, er yfirleitt um blekkingarleik að ræða því kaup og kjör þeirra sem vinna við framleiðsluna erlendis eru ekki í neinum takti við kaup og kjör á Íslandi. Það er hins vegar ljóst að við sauðfjárbændur verðum að gera þá grundvallarkröfu að við framleiðum ekki þessi matvæli á Íslandi ef við þurfum að borga með hverju framleiddu kílói.
Ungu fólki með áhuga á landbúnaði standa ýmis önnur tækifæri til boða en að gerast sauðfjárbændur til að lifa og starfa í sveit. Það þurfa allir sem koma að þessum málum að átta sig á því að tíðarandinn er að breytast að þessu leyti. Fólk lét sig hafa það fyrir einhverjum árum að taka sér aldrei frí, en nú eru breyttir tímar. Það gengur heldur ekki að bændur þurfi að sækja störf utan heimilis og eigi síðan eftir að sinna búskapnum þegar heim er komið. Slíkt fyrirkomulag getur ekki leitt af sér eðlilegt fjölskyldulíf.“
Betri horfur í sauðfjárræktinni
Rekstraraðstæður í íslenskri sauðfjárrækt hafa lagast á undanförnum misserum, með einskiptisaðgerðum stjórnvalda og leiðréttingu afurðaverðs síðustu ár. Þá er útlit fyrir að verð á aðföngum sé á niðurleið. „Jú, það er rétt, það eru aðeins betri horfur en það vantar samt talsvert upp á að afkoman verði jákvæð og hægt sé að greiða laun í samræmi við vinnuframlag,“ segir Eyjólfur.
„Við þurfum fljótlega að hefja undirbúning að samtalinu við stjórnvöld, þar sem núgildandi búvörusamningar renna sitt skeið í árslok 2026.
Í gildandi samningi var upphaflega gert ráð fyrir að greiðslumark í sauðfjárrækt myndi fjara út á samningstímanum en í nýafstaðinni endurskoðun var það fest sem þriðjungur af heildargreiðslum hvers árs út samningstímann.
Það hefur ríkt meiri sátt um greiðslumarkið eftir að markaði með greiðslumark var komið á árið 2019 með skýrum leikreglum. Það kom því ekkert á óvart að það var samþykkt samhljóða á deildarfundi sauðfjárbænda ályktun um að áfram verði stuðst við greiðslumark í stuðningskerfi sauðfjárræktar við gerð nýrra búvörusamninga. Verkefnið fram undan verður því að greina ýmsar sviðsmyndir og ræða þær innan okkar raða og koma vel undirbúin til samtals við hið opinbera.“
Garðyrkja og skógrækt
Eyjólfur býr sem fyrr segir í Ásgarði í Dölum, með konu sinni, Guðbjörtu Lóu, og þremur dætrum, þar sem ætt hans hefur búið samfleytt frá 1810. „Við erum með um 400 fjár á vetrarfóðrum og svo höfum við á undanförnum tveimur árum verið að færa okkur yfir í grænmetisræktun og skógrækt, samhliða fjárbúskapnum.
Bæði árin höfum við verið með blómkál, spergilkál og hvítkál og bættum svo við okkur gulrófum síðasta sumar. Við uppskárum heil fjögur tonn síðasta haust. Það er gott að nýta sér þá möguleika sem maður hefur. Við seljum grænmetið mikið beint frá býli og hluta af kjötafurðunum okkar líka. Það eru möguleikar fyrir einhverja bændur að búa sér til meiri verðmæti með því að horfa til slíkra tækifæra.“
Bændurnir í Ásgarði eru í skógrækt og hafa á undanförnum þremur árum plantað 25 þúsund plöntum, sem Eyjólfur segir að þau sjái fyrir sér að verði orðinn myndarlegur beitarskógur fyrir sauðfé eftir áratug.