Syngjandi í yfir 60 ár
Spengilegur og kvikur í hreyfingum, tígulegur í fasi og gustar af honum. Þessi maður vekur athygli og ekki annað hægt að segja en sú athygli sé vel verðskulduð, enda einn ástsælustu söngvara landsins.
Hér um ræðir engan annan en Jón Kr. Ólafsson sem með ómþýðri rödd sinni hefur átt hlut í hjörtu margra yfir árin – auk þess að hafa, um árabil, starfrækt tónlistarsafnið Melodíur minninganna á heimili sínu í Bíldudal.
Sungið frá því hann stóð í tærnar
„Ég hef alla tíð sungið, frá því ég stóð í tærnar. Röddina tel ég mig hafa fengið í arf frá föður mínum sem lést þegar ég var barn að aldri,“ segir Jón er við setjumst niður yfir veitingum Kaffivagnsins á Grandagarði.
„Ég kynntist honum aldrei, hann drukknaði þegar ég var á þriðja ári, en mér skilst að hann hafi haft ákaflega bjarta og fallega rödd. Föðurættin mín frá Flatey í Breiðafirði býr nefnilega yfir miklu söng- og tónlistarfólki.
Sjálfur er ég lýrískur tenór, hann Guðmundur Jónsson heitinn, óperusöngvari, heyrði það strax og sagði mér.“
Jón Kristján Ólafsson er fæddur á Nesi, Bíldudal í ágústmánuði árið 1940 og þótti snemma hafa afar fallega rödd. Fimmtán ára var hann kominn í kirkjukór staðarins, söng þar bæði sem ein- og kórsöngvari og sinnti kórstarfi í heil fjörutíu ár.
Árið 1962, rúmlega tvítugur, gekk Jón til liðs við hljómsveitina Facon frá Bíldudal sem naut mikilla vinsælda. Ferill hennar endaði árið 1969, þó ekki fyrr en út var gefin fjögurra laga hljómplata hjá SG-hljómplötum sem hafði m.a. að geyma hið geysivinsæla lag „Ég er frjáls“ eftir Pétur Bjarnason. Sló lagið samstundis í gegn og er nú, hálfri öld síðar, greypt í þjóðarvitundina.
Stórsöngvari stígur afdrifaríkt skref
„Ég sagði við sjálfan mig, svona eftir Facon ævintýrið – hvað ætlar þú að gera, vinur, sitja á Bíldudal og horfa á hendurnar á þér? Það fannst mér ekki heillandi tilhugsun þannig ég ákvað að fá inni hjá systur minni sem bjó í Reykjavík. Ég bara fór án þess að hafa vinnu eða neitt og komst í djobb á Hótel Borg tiltölulega fljótt, kynntist Svavari Gests, Ellý Vilhjálms, Ragga Bjarna og Hauki Morthens. Haukur var minn mentor, tók mig undir vænginn. Þetta var í raun algert kraftaverk þessi Reykjavíkurför, alveg á réttum tíma.
Ástríða mín fyrir söngnum var númer eitt, tvö og þrjú og þetta voru dásamlegir tímar. Það er víst að ekkert hefði orðið úr mér ef ég hefði ekki tekið skrefið. Ég hefði orðið að viðundri, koðnaður upp í Bíldudal!“
Ferill Jóns fór svo sannarlega á flug og má segja að hann sé í raun ekki enn lentur. Við tóku dagar, vikur og ár þar sem svo mikið var að gera í söngnum að lítið sem ekkert annað komst að. Síðastliðin sextíu ár hefur hann sungið mikið og víða, nú síðast þann 17. júní 2022 í Jónshúsi Kaupmannahafnar með félaga sínum, Ingimari Oddssyni söngvara.
„Jú, fullt af fólki og brjáluð stemming – allt geggjað,“ segir Jón, enda engu öðru vanur.
Klassíkerinn Jón
Árið 1983 gáfu SG-hljómplötur út stóra plötu með Jóni þar sem hann syngur einsöngslög við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar píanóleikara. Vakti flutningur hans mikla athygli og lofaður víða.
Í Morgunblaðinu 21. desember 1983 sagði m.a.: „Ljóðasöngvari af guðsnáð með fallega rödd og mikla smekkvísi í lagavali... Jón Kr. hefur þétta og fagra rödd sem hann beitir listilega án þess að hafa fengið sérstaka skólun í heimi tónlistarskólanna.“
Jón segir plötuna hafa komið til þegar hann var að gera klassískt prógramm með Ólafi Vigni fyrir útvarpið, sem var tekið upp og flutt í þætti með Jóni Ólafssyni.
„Ekki löngu seinna fæ ég símtal frá góðvini mínum, Svavari Gests, hann hringir í mig vestur á Bíldudal og segir: Jón, ég hef alveg kynnst á þér nýrri hlið – ég vissi ekki að þú værir klassíker líka. Ég er búinn að spila upptökurnar aftur á bak og áfram og ég ætla að segja þér það Jón, þetta verður gefið út núna!
Þess vegna eru þessar upptökur til í dag, hans vegna, frá A til Ö. Annars hefði ég bara sungið inn á þetta teip sem hefði sjálfsagt farið forgörðum.“
Ekki allt með slaufu
Þann 17. júní um aldamótin síðustu opnaði Jón tónlistarsafnið Melódíur minninganna með pomp og prakt.
Þar má finna ýmsa tónlistartengda muni gullára síðustu aldar auk aragrúa hljómplatna, öllu vel uppstilltu og aðgengilegu sem unun er á að líta. Aðspurður segir hann lítinn áhuga hafa verið hjá sveitarfélaginu varðandi tilurð safnsins almennt og enga styrki í boði er komi að uppihaldi þess. „Sveitarfélagið í Vesturbyggð gerir ekkert fyrir mig og hefur ekkert gert á neinn hátt.
Ef einhver spyrði mig tildæmis – er félagsþjónusta á þessu svæði? Þá myndi ég ekkert vita um hvað viðkomandi væri að tala.
Ég hef sett upp safnið alveg upp á mitt einsdæmi þótt ég sé ekki á sömu launum og einhverjir hásettir menn. Allt upp á mína buddu bara. Alltaf sama sagan í menningar- málum úti á landi. Til að mynda var rosalega öflugt leikfélag á Bíldudal á sínum tíma, nú er bara talað um lax og kalkþörungaverksmiðjur. Það er ekki allt með slaufu, sko.“
Heimsborgarinn á ferð og flug
Rokksafnið í Keflavík hélt sérsýningu með fjölmörgum munum úr tónlistarsafni Jóns og var sú sýning vel sótt. Svo vel reyndar að hún stóð í eitt og hálft ár en hófst 7. mars 2021. „Það stendur til að Rokksafnið í Keflavík taki alveg við safninu mínu nú í haust, enda tekur enginn við kyndlinum af mér á Bíldudal. Sjálfur sé ég fyrir mér að hefja nýjan kafla hvað varðar mig sjálfan og því veltir maður fyrir sér spurningunni hvað komi næst.
Og hvað kemur næst? Ég hef alla tíð haft unun af ferðalögum og þætti til dæmis gaman að heimsækja Parísarborg aftur.“
Út fyrir landsteinana stefnir hugur heimsborgarans Jóns Kr.Ólafssonar, enda lífið ferðalag sem á að njóta.