Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Þeir sex einstaklingar á Þernunesi í Reyðarfirði sem bera arfgerðina ARR, hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð gegn riðu í sauðfé sem notuð er með góðum árangri í Evrópu við útrýmingu á sjúkdómnum.
Þeir sex einstaklingar á Þernunesi í Reyðarfirði sem bera arfgerðina ARR, hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð gegn riðu í sauðfé sem notuð er með góðum árangri í Evrópu við útrýmingu á sjúkdómnum.
Mynd / skjáskot
Fréttir 17. janúar 2022

Viðurkennd verndandi arfgerð gegn riðu finnst í sex einstaklingum

Höfundur: smh

Sex einstaklingar fundust fyrir skemmstu með tiltekna verndandi arfgerð (ARR) gegn riðu, sem er alþjóðlega viðurkennd og notuð með góðum árangri í Evrópu við útrýmingu á riðu í sauðfé. Arfgerðin hafði aldrei áður fundist á Íslandi þrátt fyrir víðtæka leit. Einstaklingarnir sex eru allir á bænum Þernunesi í Reyðarfirði.

Fimm ær og einn hrútur fundust með arfgerðina, en Þernunes er talið vera gott ræktunarbú. Fundurinn er afrakstur tveggja rannsóknateyma sem unnið hafa saman að því að finna verndandi arfgerðir gegn riðu í íslensku sauðfé. Annars vegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hinsvegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum.

Stórmerkur fundur

Í tilkynningu frá teymunum er talað um stórmerkan fund. Þar kemur fram að ARR-arfgerðin hafi verið staðfest í kindunum, eftir að rúmlega 4.200 sýni höfðu verið raðgreind, í þessari rannsókn og öðrum tengdum verkefnum á síðustu tíu mánuðum. Nýlega hafi verið fluttar fréttir af annarri fágætri arfgerð (T137) sem fundist hefur í örfáum kindum, sem ítalskir vísindamenn hafa sýnt fram á að virki verndandi þar í landi.  Sú arfgerð sé hinsvegar ekki viðurkennd af Evrópusambandinu né íslenskum yfirvöldum, enn sem komið er. 

Fundurinn hafi verið óvæntur, en í fyrstu hafi tveir gripir greinst með arfgerðina eftir að sýni úr þeim höfðu verið send til Þýskalands í greiningu.  „Í kjölfar þeirra niðurstaðna voru strax tekin aftur sýni úr þessum sömu gripum sem og nákomnum ættingjum þeirra. Þau voru greind á tilraunastofu MATÍS í Reykjavík.  Þær greiningar staðfestu fyrri niðurstöðu en jafnframt fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð.  Kindur þessar eru kollóttar og rekja ættir sínar m.a í kollótta féð í Reykhólasveit og á Ströndum.

Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu. Það kemur sér vel að um þessar mundir er að hefjast stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná a.m.k. upplýsingum um arfgerðir 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur.  Það er því orðinn  raunhæfur möguleiki að bændur geti fundið ARR ásamt fleiri spennandi arfgerðum s.s. T137-breytileikanum sem hugsanlega mun einnig virka fullkomlega verndandi í íslensku sauðfé,“ segir í tilkynningunni.

Ólæknandi heilahrörnun

Í tilkynningunni kemur fram að fyrir rúmlega 20 árum hafi vísindamönnum orðið ljóst að ARR afbrigði príonpróteinsins veitti vörn gegn riðuveiki í sauðfé.  „Riðuveiki er svokallaður príonsjúkdómur sem veldur ólæknandi heilahrörnun vegna umbreytingar og uppsöfnunar á príonpróteininu. Skipulegar aðgerðir til að hefta útbreiðslu riðu hérlendis hófust uppúr 1980 og frá árinu 1986 hafa allar hjarðir þar sem einstaklingur greinist með dæmigerða riðu hér á landi, verið skornar niður.

Um síðustu aldamót voru gerðar rannsóknir hér á landi er varða næmi kinda með mismunandi arfgerðir fyrir riðuveiki. Í þessum rannsóknum fannst ARR ekki þrátt fyrir skipulega leit.  Frá þessum tíma hefur verið unnið hér með arfgerðir sem hafa mismikið næmi fyrir riðusmiti og  litið svo á að íslenska kindin byggi ekki yfir arfgerð sem væri fullkomlega verndandi líkt og þekkist í mörgum erlendum sauðfjárkynjum.“

Allir breytileikar príonpróteinsins rannsakaðir

Bæði rannsóknarverkefnin hafa hlotið styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar sem er í umsjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. „Forsvarsmenn þessara verkefna mynduðu síðan teymi sem unnið hefur saman. Þar sem vonin var veik að finna ARR arfgerðina þá er ætlunin að rannsaka alla mögulega breytileika í príonpróteininu í  þeim tilgangi að finna fleiri arfgerðir sem gætu mögulega nýst til að auka riðuþol íslensku kindarinnar.  Jafnframt var horft til þess að skoða fé af íslenskum uppruna á Grænlandi, ef þrautalendingin yrði að sækja þyrfti erfðaefni út fyrir landsteinana,“ segir í tilkynningunni.

Vonir um fleiri ARR-gripi

Talið er að þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu, en um þessar mundir er að hefjast stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná upplýsingum um arfgerðir að minnsta kosti 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur.  „Það er því orðinn  raunhæfur möguleiki að bændur geti fundið ARR ásamt fleiri spennandi arfgerðum s.s. T137-breytileikanum sem hugsanlega mun einnig virka fullkomlega verndandi í íslensku sauðfé. 

Þessi fundur getur gjörbreytt baráttunni við riðuveiki þar sem ekki þarf að byrja á því að fá þessa arfgerð viðurkennda.  Fljótlega mætti því taka upp reglur að fyrirmynd ESB sem m.a. þýðir að ekki þurfi að skera allar kindur á bæjum þar sem upp kemur riða.  Í löndum Evrópusambandsins er ekki skylda að skera niður kindur sem bera ARR þó riða sé staðfest í hjörðinni – því talið er að slíkar kindur geti hvorki veikst né smitað annað fé ef þær eru arfhreinar fyrir ARR.

Fyrir ræktunarstarfið verður áskorunin á næstu árum að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans.  Vonandi mun áframhaldandi leit í stofninum skila upplýsingum um fleiri gripi með þessa arfgerð. Eins er mjög mikilvægt að halda áfram rannsóknum á öðrum mögulega verndandi stökkbreytingum s.s. T137.  Ef niðurstöður rannsóknanna eru samkvæmt óskum, gæti Ísland orðið fyrsta landið í heimi sem nýtir sér fleiri en eina verndandi arfgerð. Það myndi hafa jákvæð áhrif á fjölda mögulegra ræktunargripa og á erfðabreytileika stofnsins, en einnig hraða uppbyggingu þolins stofns.

Hér eru um gríðarlega merk og mikilvæg tíðindi að ræða fyrir íslenska sauðfjárrækt og baráttuna við riðuveiki sem gefur góða von um að það verði hægt að útrýma sjúkdómnum í náinni framtíð,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Eyþór Einarsson, starfar í rannsóknarhópi sérfræðinga á Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, og Karólína Elísabetardóttir, sem vinnur með hópi erlendra vísindamanna.

Undir tilkynninguna skrifa Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, Gesine Lühken, prófessor, Universität Gießen í Þýskalandi, Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð, Stefanía Þorgeirsdóttir, sérfræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Vilhjálmur Svansson, sérfræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...