Vilja flytja út færeysk hross
Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar að hefja útflutning. Mjög fáir hafa áhuga á að ala hrossin í Færeyjum og eru einungis hundrað einstaklingar eftir.
Heilsufrøðiliga starvsstovan, sem samsvarar til Matvælastofnunar, hefur verið falið að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar svo heimilt verði að flytja út hrossin. Þess er vænst að leggjast þurfi í mikla forvinnu og má ekki reikna með niðurstöðu á næstunni. Frá þessu greinir Kringvarp Føroya.
Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þarf 1.000 hryssur til að geta fullyrt að stofninn sé ekki í hættu. Færeyski hesturinn hefur lifað í Færeyjum í hundruð ára. Hann er smágerðari en íslenski hesturinn, 120–132 sentimetrar á herðakamb, býr að fjölda litaafbrigða og er með fjórar gangtegundir, þar með talið tölt.