Vilja gera flug að hagkvæmum kosti fyrir landsbyggðina
Starfshópur sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna hefur skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Í nýrri skýrslunni eru gerðar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi innanlandsflugs og rekstri flugvalla og að innanlandsflug verði hagkvæmur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Farmiðar á völdum svæðum niðurgreiddir
Starfshópurinn kynnti tillögur um hvernig jafna má aðgengi landsmanna að þjónustu sem aðeins er í boði á suðvesturhorni landsins. Tillaga er gerð um að farmiðar með lögheimili á völdum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir.
Isavia ohf. ábyrgð
Lagðar eru fram tillögur um að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra flugvalla, sem gegna hlutverki sem varaflugvellir í millilandaflugi, með því að skilgreina þá sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og Isavia ohf. falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Lagt er til að þjónustugjöld verði samræmd á millilandaflugvöllunum og hóflegt þjónustugjald sett á til að standa straum af uppbyggingu vallanna. Slíkt gjald gæti orðið á bilinu 100 kr. til 300 kr. á hvern fluglegg. Mikilvægi öryggishlutverks varaflugvalla tengt millilandaflugi hefur aukist og starfshópurinn telur nauðsynlegt að taka tillit til breyttra aðstæðna á grundvelli þróunarinnar undanfarin ár.
Þjónustusamningur til fimm ára
Þá er lagt til að þjónustusamningur ríkisins við Isavia verði framvegis gerður til fimm ára í senn til svo að hægt verði að þróa flugvallakerfið til lengri tíma og stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna.
Starfshópurinn leggur til að tillögurnar verði útfærðar nánar á næsta ári svo þær geti komið til framkvæmda árið 2020.