Vill auka þekkingu um járningar og hófhirðu
Hófhirða hrossa er viðfangsefni ráðstefnu sem haldin verður í húsnæði Eldhesta í Ölfusi dagana 23. og 24. ágúst.
Geert Cornelis er einn skipuleggjenda ráðstefnunnar. „Mér finnst enn þá almenn þekking á járningum aðeins of lítil hér á landi samanborið við önnur lönd eins og í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er að lagast en það er mikið eftir. Sumir hlutir í kringum þetta, eins og kynbóta- og keppnisjárningar, þessi hófasöfnun sem fylgir þeim oft, er í raun ekki best fyrir dýrið eða hestvænt. Því er svo mikilvægt að segja frá og kynna fyrir fólki hvað sé gott og slæmt,“ segir Geert og bætir við að með góðri járningu sé hægt að auka endingu hjá hrossi um einhver ár.
Margt liggur að baki
Ráðstefnan er ekki eingöngu ætluð fagfólki eins og járningamönnum og dýralæknum heldur öllu hestafólki sem hefur áhuga á heilbrigði hrossa.
„Flestir járningamenn vita hvað þeir eru að gera en tamningamenn og eigendur eru með kröfur um hvernig þeir vilja láta gera þetta og hafa oft áhrif á járningamanninn. Því er mikilvægt að auka þekkingu allra aðila. Það er svo margt á bak við þetta. Járning er ekki bara að setja fjórar skeifur undir hestinn og málið dautt, þótt sumir haldi að það sé bara nóg,“ segir Geert.
Skrefalengd og röntgenmyndir
Á meðal frummælenda verður Aksel Vibe, sem fjallar um notkun röntgenmynda þegar kemur að hófsnyrtingu og járningu. Jonathan Nunn og Josh Nunn munu fjalla um skrefalengd og hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Jeffrey Newnham mun ræða um fylliefni og Michael Weishaupt fjallar um áhrif keppnisjárninga á hreyfingu, stoðkerfi og heilbrigði hófa á íslenskum hrossum. Ráðstefnunni lýkur á verklegum hluta.
Ef fólk vill frekari upplýsingar um ráðstefnuna getur það haft samband við Geert í síma 8938107