Vorfrost og hitabylgjur draga úr uppskeru
Kenjótt veðurfar og umhleypingar í helstu vínræktarhéruðum Frakklands hafa dregið talsvert úr uppskeru vínþrúgna í sumar og er búist við um 12% samdrætti í ár miðað við meðaluppskeru undanfarinna ára í landinu.
Óvenjulegt veðurfar með vorfrosti og hitabylgjum eru að valda frönskum vínbændum búsifjum. Kuldar í vor og næturfrost á stórum vínræktarhéruðum í Frakklandi urðu þess valdandi að blómvísar vínviðarplöntunnar skemmdust og duttu af plöntunum. Annars staðar þar sem blómvísarnir lifðu af dró talsvert úr blómgun þeirra vegna kals.
Í framhaldi af vorfrostunum tóku við hitabylgjur þar sem hitinn fór yfir 40° Celsíus í suðurhéruðum landsins og plönturnar sviðnuðu illa í hitanum. Regn í ágúst dró víða nokkuð úr skemmdunum en olli meiri skemmdum annars staðar þar sem úrkoman breyttist í hagl, meðal annars í Beaujolais-héraði.
Veðurfræðingar í Evrópu og í Bandaríkjum Norður-Ameríku segja að hitastig í heiminum í júlí síðastliðnum sé það hæsta síðan mælingar hófust.