Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Luis Segura, maltbyggsérfræðingur og fjárfestir, vill reisa malthús hér á landi. Hann kom hingað til lands með sérvalin byggyrki til prófunar og gæddi sér á íslenskum veigum.
Luis Segura, maltbyggsérfræðingur og fjárfestir, vill reisa malthús hér á landi. Hann kom hingað til lands með sérvalin byggyrki til prófunar og gæddi sér á íslenskum veigum.
Mynd / ghp
Fréttir 22. maí 2023

„Bjór hjálpar bændum“

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Á dögunum var hér á landi staddur Luis Segura, maltbyggsérfræðingur og fjárfestir, til að afhenda Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskólans byggyrki til prófunar. Markaði heimsóknin upphaf samstarfs hans og LbhÍ en markmið hans er að reisa hér á landi stærðarinnar malthús, verksmiðju sem maltar bygg til ölgerðar.

Luis starfar fyrir fyrirtækið Handel und Beratung est. 2016 og segist hafa áratuga reynslu á vettvangi maltverksmiðja og brugghúsa. „Fyrir nokkrum árum gerði ég kostnaðargreiningu á orkuþörf við möltun byggs og komst að þeirri niðurstöðu að um 30% af kostnaði framleiðslunnar fer í orkunotkun. Á þeim tíma var áhersla lögð á að hafa malthúsin nálægt viðskiptavinum, brugghúsunum. Hins vegar hafa tímarnir breyst og hlutfall orkukostnaðar í framleiðslu maltbyggs er farin að vera á milli 50-60%,“ segir Luis.

Orkan er því orðið forgangsatriði og leita framleiðendur maltbyggs eftir því að færa framleiðslu á svæði þar sem aðgengi er að ódýrari orku. Enn fremur sé vaxandi krafa um minni notkun kolefnis við alla framleiðslu. Hann, ásamt viðskipta- félögum sínum í Þýskalandi, hafa því fengið augastað á Ísland og telja það kjörið fyrir framleiðsluna. „Hér hafið þið ekki bara endurnýjanlega, heldur endalausa orku og vatn, sem er það sem þarf í maltbyggframleiðslu.“

Húsnæði hugsanlegs malthúss yrði um 5.000 fermetrar að stærð og gæti starfsemin skapað um 10–12 störf. Æskilegast væri að staðsetja slíka verksmiðju við höfn og ekki væri verra ef hún væri nálægt kornsamlagi. 

Tíu milljarða fjárfesting

Luis segir að ef af verður yrði innflutningur á byggi til vinnslunnar kannski óhjákvæmilegur fyrst um sinn, en þegar fram líða stundir er stefnan þó að nota bygg ræktað hérlendis. „Það fyrsta sem við viljum gera er að láta framkvæma prófanir á nokkrum maltyrkjum til að sjá hvort þau þrífist hér. Því er ég hingað kominn með sérvalin yrki frá Þýskalandi, Ástralíu, Frakklandi, Mexíkó og Finnlandi til að sjá hvernig þau bregðast við aðstæðum.“

Starfsmenn Jarðræktarmiðstöðvar sáðu yrkjunum í tilraunareiti á Gunnarsholti og því er niðurstaðna prófana að vænta strax í haust.

Luis undirstrikar að fyrirhugað verkefni sé hugsað í samstarfi við íslenska kornbændur. „Við viljum ekki eingöngu koma hingað og notfæra okkur orkuauðlindir ykkar. Við viljum líka styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu og sé ég mikla möguleika fyrir sjálfbæra starfsemina hér á landi.

Ef vel gengur gætum við ræktað maltbygg fyrir allan innlendan markað en einnig aflað töluverðra útflutningstekna fyrir landið.“ Auk þess leita Luis og félagar hans að innlendum samstarfsaðilum við að fjármagna verkefnið. Honum reiknast til að innanlandsþörf fyrir maltbygg sé kringum 4.000 tonn á ári en út frá stærðarhagkvæmni sé lítið vit í öðru en byrja á malthúsi sem getur annað að minnsta kosti 60.000 tonnum á ári. Fjárfestingin yrði kringum 10 milljarðar króna.

„Ég er sannfærður um að malthús á Íslandi feli í sér mikla útflutningsmöguleika. Ímyndaðu þér þegar siglingaleiðin yfir Norðurskautið opnast, þá væri auðvelt aðgengi að Japansmarkaði, sem er stórt viðskiptaland okkar nú þegar.“

Luis er skiljanlega mikill aðdáandi bjórs og smakkaði nokkra slíka frá íslenskum brugghúsum í heimsókn sinni. „Bjór er góður drykkur. Hann er bæði félagslegur og hollur. Hann inniheldur færri kaloríur en appelsínusafi. Svo stuðlar hann að landbúnaðarframleiðslu, bjór hjálpar því bændum.“

Skylt efni: kornrækt | möltun

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...