„Dýralækningar eru í grunninn erfitt starf“
Eins og kom fram í síðasta blaði þó hóf Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta, nýlega doktorsnám í hestavísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Helga útskrifaðist frá Dýralæknaskólanum í Hannover í Þýskalandi árið 2002 og lauk þriggja ára sérfræðinámi í skurðlækningum stórra dýra frá Háskólanum í Ghent í Belgíu árið 2012.
Helga hefur alls um 20 ára starfsreynslu við hestalækningar, bæði hér heima og erlendis. Til að kynnast Helgu betur og fá betra innsýn inn í hennar líf og starf þá settist blaðamaður niður með henni og spurði hana nokkurra spurninga.
Fædd og uppalin í Breiðholtinu í Reykjavík
– Fyrsta spurningin er einföld, hver er Helga Gunnarsdóttir?
„Ég er fædd í Reykjavík og uppalin í Breiðholtinu. Ég gekk í Breiðholtsskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég lauk almennu dýralæknanámi frá Dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi og flutti heim til Íslands eftir nám.
Ég er gift Baldvini Esra Einarssyni og við eigum tvo syni, Styrkár, 14 ára og Flóka, 6 ára. Við búum á Akureyri og ég rek þar Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar, „Dýrey“, ásamt tveimur öðrum dýralæknum, Aðalbjörgu Jónsdóttur og Helgu Ragnarsdóttur. Við þjónustum allt Eyjafjarðarsvæðið, erum með þjónustusamning í Þingeyjarsýslu og erum með alla þjónustu sem bændur, hestamenn og gæludýraeigendur þurfa. Við bjóðum í tengslum við það upp á sólarhringsþjónustu alla daga, allt árið um kring. Ég fer einnig um allt land og þjónusta hestamenn og býð upp á sérhæfða þjónustu í tengslum við mína sérhæfingu sem hestadýralæknir.“
Helga segist stundum líka hafa tíma til að vera hestakona, samhliða starfi sínu. Þarna vann hún bikar á litlu kvennamóti hjá Létti á Akureyri. Hesturinn heitir Geisli frá Akureyri og er í eigu góðrar vinkonu hennar. Geisli er henni mjög kær því hryssan sem hann er undan slasaðist illa þegar hún var ung. Helga átti þátt í að koma henni til þeirrar heilsu að vera ræktunarhryssa og Geisli er fyrsta folaldið sem var undan henni.
Með áhuga á hestum alla tíð
– Hefur þú alltaf haft áhuga á hestum og landbúnaði og ertu sjálf í hestum og með marga hesta?
„Já, ég hef alltaf haft áhuga á hestum frá því ég man eftir mér. Fjölskylda mín stundaði reyndar ekki hestamennsku þannig að ég þurfti að bera mig eftir björginni.
Ég var farin að þvælast mjög ung niðri í Neðri-Fák svokallaðan, sem voru gömlu hesthúsin sem standa enn við Bústaðaveg í Reykjavík. Þar gat ég umgengist hesta og fengið að fara á bak. Ég var líka í sveit sem barn og unglingur.
Ég fór líka út sem hesta au-pair til Sviss í tvö sumur og svo var ég í vinnu hjá Benedikt Líndal og Sigríði Ævarsdóttur í tvö sumur að Staðarhúsum í Borgarfirði.
Ég eignaðist minn fyrsta hest um fermingu, hann var keyptur þriggja vetra og átti ég hann þar til hann var felldur í hárri elli. Í dag á ég þrjú hross en ég vildi að ég hefði meiri tíma til að stunda hestamennskuna en oft víkur hún fyrir löngum vinnudegi.“
Ætlað mér að verða dýralæknir
– Hvað kom til á sínum tíma að þú ákvaðst að verða dýralæknir og dreifst þig í það nám?
„Ég hef alltaf ætlað mér að verða dýralæknir, man ekki eftir að hafa velt öðru starfi fyrir mér. Í þá daga sem ég var að sækja um skólavist var erfitt að komast inn í skóla og ég hafði þá hugsað mér til vara að komast inn á Hóla í reiðmennskunám. Ég komst inn á Hóla og var að pakka niður í þann skóla þegar svar kemur frá Dýralæknaháskólanum að ég hefði fengið inngöngu þar líka. Ég þurfti þarna að velja á milli,“ segir Helga og hlær.
– Þú bættir við þig þriggja ára sérfræðinámi í skurðlækningum stórra dýra frá Háskólanum í Ghent í Belgíu árið 2012. Af hverju ákvaðstu að gera það og hvað fannst þér mest heillandi við skurðlækningar?
„Fyrst vil ég segja að eftir almenna dýralæknanámið kom ég heim og stundaði dýralækningar á Norðausturlandi, nánar tiltekið á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er fjölbreytt svæði fyrir dýralækna að vinna á, blómlegur landbúnaður, mikil hestamennska og svo líka fjöldi smádýraeigenda. Á þessum tíma stundaði ég blandaða vinnu en fann strax að hugur minn var í „stóru dýrunum“ og snemma fór mig að langa að mennta mig meira á því sviði, sérstaklega hestalækningum. Þessi hugsun festi sig enn meiri í sessi eftir að ég eignaðist eldri son minn og ég fór markvisst að leita að möguleikum til frekari menntunar.
Kollegi minn hafði verið í starfsnámi við Dýralæknaháskólann í Ghent í Belgíu og kom heim og sagði mér frá því hvað honum hafði fundist hestaspítalinn við háskólann áhugaverður. Ég kynnti mér spítalann og möguleikum á framhaldsnámi. Við þann spítala voru í boði þrjár stöður á ári fyrir svokallaða „intern“ lækna. Það eru útskrifaðir dýralæknar sem vinna innanhúss á háskólasjúkrahúsinu, hafa umsjón með inniliggjandi sjúklingum, skipuleggja þá dýralæknanema sem þurfa að taka vaktir á spítalanum og eru í rauninni milliliðir fyrir þá dýralækna sem eru fastráðnir við háskólann.
Ég fór út og kynnti mig og sótti um stöðu sem ég og fékk. Þetta var mjög lærdómsríkt ár, botnlaus vinna, lítið sofið. Hestaspítalinn við Dýralæknaháskólann í Ghent er með þeim stærri í Evrópu, þar eru um 120 stíur fyrir inniliggjandi sjúklinga og mikil umferð. Þegar ég lauk þessu „intern“ ári þá þyrsti mig í meira nám.“
Erfiðasti tími sem ég hef upplifað
– Þú varst ekki hætt að læra núna, eða hvað?
„Nei, nei, því á tveggja ára fresti var í boði ein staða til að sækja um sem skurðlæknanemi. Ég hafði svo sem engar væntingar um að fá þessa stöðu enda margir um hituna. Ég sótti um og fékk þessa stöðu og við tók þriggja ára sérnám við spítalann. Þetta var erfiðasti tími sem ég hef upplifað, ég átti barn og mann sem ég sá varla og ég gekk mjög nærri mér í vinnu. En ég kynntist mörgu, kynntist mörgum af þeim bestu í þessu fagi og ég hefði aldrei viljað missa af þessu. Ég fékk mjög mikla klíníska reynslu, ég lærði vísindalega hugsun og nálgun á fagið og fékk að kenna dýralæknanemum á lokaári þeirra sem mér fannst mjög gaman.“
Vinna mín snýst jöfnum höndum um að eiga við neyðartilvik
– Hvað er það helsta sem er að hrjá íslenska hestinn og kallar á hjálp frá dýralækni?
„Það er erfitt að nefna það í stuttu máli hvað það helsta er sem hrjáir íslenska hestinn. Íslenski hesturinn er hraustur og heilbrigður í grunninn og við hér á Íslandi erum það heppin að geta í flestum tilfellum haldið hesta á sem náttúrulegastan máta.
Vinna mín snýst jöfnum höndum um að eiga við neyðartilvik, þ.e. hluti sem geta ekki beðið, eins og sár sem þarf að sauma eða veikindi af völdum hrossasóttar og svo hinn hlutinn, sem eru kannski ekki bráðaeinkenni sem þarfnast tafarlausrar athygli, það getur verið allt frá því að vera einföld heilbrigðisskoðun sem er oft framkvæmd á hverju ári, ráðgjöf um atferli og fóðrun eða að vera flókin skoðun vegna óljósra einkenna sem erfitt er að henda reiður á.“
Helga vann í afleysingum á hestaspítala í Osló, Noregi sem heitir Bjerke. Á þessari mynd er hún að gera hrossasóttaruppskurð á Fjord-hesti sem kom inn til spítalans um miðja nótt. Hann var með snúning á víðgirni og stíflu í smáþörmum. Hesturinn náði sér að fullu.
Dýralækningar eru í grunninn erfitt starf
– Hvað er erfiðast við starfið og hvað er skemmtilegast?
„Dýralækningar eru í grunninn erfitt starf. Hugurinn er, allavega hjá mér, nánast alltaf við sjúklinga og tilfelli og það eru ófá kvöldin þar sem ég hef verið að velta vöngum yfir hinum ýmsu tilfellum sem ég mæti. Nálgun á tilfellin eru allt önnur en í mannalækningum, tilfelli sem er óljóst þarf að púsla saman og setja í samhengi. Það er ekki hægt að spyrja dýrin eða fá þeirra álit á bata eða afturför.
Öll smáatriði skipta máli í dýralækningum og upplýsingar sem virðast í fljótu bragði ómerkilegar geta skipt höfuðmáli. Kostnaður skiptir líka alltaf máli í þessu starfi, þar sem dýrin eru ekki partur af almannatryggingum og eigandi þarf að bera þann kostnað sjálfur sem þarf ef eitthvað hendir.
Það felst í því mikil ábyrgð að eiga dýr og þetta er þáttur sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir. Það er oft erfitt að þurfa að viðurkenna það að það er ekki alltaf fjárhagslegt bolmagn til að gera vissa hluti og hendur manns eru bundnar. Ég vil í þessu samhengi hvetja alla dýraeigendur til að kynna sér tryggingar fyrir dýrin sín og íhuga þann þátt dýraeignar vel.
Skemmtilegast við starfið er þessi gríðarlega fjölbreytni, enginn dagur eins og auðvitað samskiptin við dýr og menn,“ segir Helga og brosir út í annað.
Í Evrópu er töluverður fjöldi asna haldnir sem gæludýr. Þeir eru mjög krefjandi sjúklingar og hafa sannarlega sína skoðun á hlutunum. Þarna er Helga að skoða asna sem kom inn til þeirra á hestaspítalann í Ghent.
Við getum verið afskaplega stolt af hestinum okkar
– Ef þú horfir yfir sviðið á hestana á Íslandi, eru þeir almennt ekki mjög hraustir og flottir, hestakyn, sem við getum verið stolt af?
„Í sérnáminu mínu kynntist ég auðvitað alls kyns hestakynjum. Við hérna á Íslandi erum bara vön okkar hesti og höfum í rauninni engan samanburð. En hestamennska er svo gríðarlega fjölbreytt og hestarnir mjög svo mismunandi. Sama daginn gat ég verið að vinna með 60 kg falabella smáhest yfir í að skoða belgískan dráttarhest sem vegur yfir 900 kg.
Það var alveg hreint frábært að fá að kynnast öllum þessum fjölbreytileika og ég bý gríðarlega að því í dag. Við getum verið afskaplega stolt af hestinum okkar. Hann er auðlind og í rauninni alveg ótrúlegt að eyþjóð norður í Atlantshafi geti státað sig af sínu eigin hestakyni.
Íslenski hesturinn er líka einstakur að því leyti að hann er svo fjölbreyttur og mikill félagi. Hann spannar svo mikið, hann er seigur ferðahestur, úthaldssamur gangnahestur, grimmur keppnishestur á hringvelli og svo bara besti vinurinn í sunnudagsreiðtúrnum. Einn og sami hesturinn getur jafnvel innihaldið allt þetta.“
Hugmyndin að doktorsverkefninu byrjaði að mótast árið 2018
– Þú ert fyrsti nemandinn til að hefja doktorsnám í hestavísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hvernig varð sú ákvörðun til og hvernig sérð þú námið fyrir þér og hvað viltu fá út úr því?
„Hugmyndin að doktorsverkefninu byrjaði að mótast árið 2018 þegar ég fékk tækifæri til að aðstoða alþjóðlegan rannsóknarhóp sem var að safna gögnum um hreyfingu íslenska hestsins að Hólum í Hjaltadal. Þar var hópurinn í boði Hólaskóla og Sigríðar Björnsdóttur, sérgreinalæknis íslenska hestsins. Mér finnst mikilvægt að íslenskir dýralæknar séu með í því að starfa að rannsóknum er varða heilbrigði íslenska hestsins. Þetta er jú okkar hestakyn og við erum upprunaland þess.
Íslenski hesturinn er fjöregg sem við eigum að varðveita og vera landið sem fólk leitar alltaf til varðandi hestinn. Við finnum þennan hest okkar mjög víða orðið og eðlilega hafa aðrar þjóðir skoðun á hestinum og vilja taka þátt í að efla hans framgang og varðveita heilsu og eiginleika.
Á þessum tímapunkti sá ég tækifæri til þess að fá að nýta mér hluta af þeim gögnum sem unnin voru á þessum tíma til að skrifa tvær fræðigreinar og fékk ég styrk til þess. Í framhaldinu settumst við Sigríður niður og sáum fljótt að þarna var mikill efniviður og ekki bara úr þessum gögnum heldur möguleiki á að vinna dýpra með hugmyndir okkar. Okkur langaði að vinna þetta sem mest út frá Íslandi og þar sem Sigríður var að taka við gestaprófessorsstöðu við Hvanneyri þá fannst okkur kjörið að kanna þann möguleika.
Það var unnin mikil undirbúningsvinna og á þar Sigríður mikinn hluta þar sem hún brennur fyrir þessu verkefni jafn mikið og ég. Einnig er mjög mikils virði að fá vísindahópinn frá Uppsala í lið með okkur. Þetta er líka í fyrsta skiptið sem íslenskur dýralæknir vinnur doktorsverkefni frá íslenskum háskóla þannig að þetta er verðmætt fyrir okkur og áhugavert.“
-Verkefnið þitt felst í því að meta ávinning hlutlægra mælinga á helti samanborið við hefðbundna sjónræna heltigreiningu í þeim tilgangi að auka heilbrigði, einingu og velferð íslenska hestsins. Enn fremur að bæta þekkingu á áhrifum heltis á hreyfimynstur og ganglag íslenska hestsins og bæta þannig aðferðir við sjónrænt mat á helti. Á mannamáli, hvað þýðir þetta?
„Íslenski hesturinn býr yfir fimm gangtegundum. Hann er smærri en mörg hestakyn og hann hefur styttri skreflengd. Hann er harður af sér og kvartar seint. Vandamál sem tengjast helti, eða stoðkerfinu hreinlega, sérstaklega ef einkenni eru væg, geta því verið lengi að malla og kannski ekki uppgötvuð fyrr en vandamálið er orðið stærra og alvarlegra. Væga tegund af helti er oft erfitt að meta sjónrænt, þ.e. að horfa á hestinn hreyfa sig og sjá hvort hann sé haltur eða ekki. Helti er jafnframt stundum ruglað saman við annað, s.s misstyrk eða hreinlega eðlilegt ósamræmi í hreyfingum. Afar fá hross eru með fullkomið samræmi í hreyfingu.
Síðustu árin hafa rannsóknir á sviði hlutlægrar greiningar á helti aukist mikið. Hlutlæg heltisgreining gengur út á það að mæla með þráðlausum nemum sem staðsettir eru á líkama hestsins, hreyfingu hestsins í hverju skrefi. Þessa þætti er ég að fara að skoða, bæði hreyfingar heilbrigðra hesta og svo hreyfingar þeirra sem eru haltir og koma til mín sem sjúklingar.
Von mín er sú að með þessari doktorsvinnu takist okkur að kortleggja vissa þætti í hreyfingu íslenska hestsins sem breytast þegar hesturinn er haltur. Þetta á því að nýtast okkur í framtíðinni þegar við erum að vinna með þætti eins og helti og hvernig hesturinn breytir hreyfingunni samfara því,“ segir Helga.
Að fá að eyða tíma með þeim sem mér þykir vænt um
– Svona að lokum, hver er helstu áhugamál þín og hvað gerir þú til að tæma hugann og gera eitthvað allt annað en þú gerir dags daglega?
„Helstu áhugamál mín eru, fyrir utan starfið mitt, að fá að eyða tíma með þeim sem mér þykir vænt um. Ég kann alltaf að meta það betur og betur. Ég hef gaman af því að lesa, fara í leikhús og út að borða. Svo er ég alltaf að vinna í því að reyna að gera ekki neitt stundum og hvíla mig hreinlega.
– Og allra síðasta spurningin. Vorið og sumarið, hvernig leggst það í þig? Er eitthvað sérstakt á dagskrá, eitthvað skemmtilegt, sem þú stefnir á að gera?
„Já, vorið og sumarið leggjast vel í mig, ég vona að kófið fari aðeins að sleppa af okkur hendinni og leyfi aðeins frelsi þegar sólin hækkar. Ég er að fara að ferma eldri drenginn minn í vor og þá kemur fjölskyldan hingað norður og eyðir góðum tíma saman.“