„Frí“ heimsending vegna COVID-19
Landstólpi og Vélaval hafa farið í sérstakar aðgerðir vegna COVID-19 veirunnar og bjóða bændum nú fría heimsendingu á vörum frá sér.
„Þetta er okkar framlag vegna ástandsins og okkar leið til að þjónusta bændur, við erum jú öll saman í þessu verkefni. Viðtökurnar hafa verið frábærar og bændur kunna greinilega vel að meta snertilaus viðskipti, sem eru mjög mikilvæg um þessar stundir,“ segir Elsa Ingjaldsdóttir, gæðastjóri hjá Landstólpa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Boðið er upp á fría heimkeyrslu á öllum rekstrarvörum ef keypt er fyrir 30 þúsund krónur eða meira. „Að sjálfsögðu hafa bændur áhyggjur af stöðunni og fjölmörg dæmi eru um að þeir hafi lokað búum sínum fyrir gestum og gangandi. Við megum alls ekki við að þeir veikist, það þarf jú að halda áfram að fóðra skepnurnar og huga að velferð þeirra,“ bætir Elsa við.