Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Unaós við Héraðsflóa.
Unaós við Héraðsflóa.
Mynd / HKr.
Fréttir 28. apríl 2017

„Ríkið er orðið versti bóndi landsins“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bújarðir í eigu ríkisins hafa verið að losna bæði á Héraði og í Vestur- Skaftafellssýslu án þess að þær séu auglýstar til leigu eða sölu. Þetta þykir Guðna Ágústssyni, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, léleg búmennska og segir ríkið orðið versta bónda landsins.
 
Margoft hefur komið fram á liðnum misserum í viðtölum við ungt fólk, sem hug hefur haft á að hefja búskap, hversu erfitt það geti verið að finna vænlegar jarðir til ábúðar sem eru í rekstri. 
 
 „Sú var tíðin að ríkið leigði margar jarðir til bænda sem voru landseta ríkisins. Ríkið fór heldur vel með bændur á þeim tíma. Þegar ég var landbúnaðarráðherra var jarðeignadeildin undir landbúnaðarráðuneytinu og sá vel um þessi mál,“ segir Guðni Ágústsson, sem var landbúnaðarráðherra frá 1999 til 2007.
 
Ríkið er orðið versti bóndi landsins
 
„Nú er búið að stinga land­búnaðarráðuneytinu niður í skúffur í öðrum ráðuneytum og færa jarðeignadeildina (sem nú heitir ríkiseignir) yfir í fjármálaráðuneytið. Mér sýnist að þetta sé með hörmulegum hætti og ríkið er orðið versti bóndi landsins. Það brýtur allar reglur og hagar sér með jarðirnar eins og  þeir séu að leigja eða selja hús í Reykjavík. 
 
Þú getur ímyndað þér stöðuna hjá Útsvars-Þorsteini Bergssyni, sem er afburðamaður í spurningaþættinum Útsvari og sigrar alla. Nú ætlar hann því miður að hætta búskap á þeirri frægu jörð Unaósi. Hann segir upp um áramót eins og reglurnar segja til um. Núna er kominn sauðburður og ríkið ekki enn farið að auglýsa jörðina eða hver eigi að byggja hana. Þetta er því allt í ólestri. Nú verður Þorsteinn að skera sitt fé í haust ef enginn tekur við bústofninum. Jörðin fer því í eyði.
 
Eins  eru þessar fréttir úr Vestur- Skaftafellssýslu, sem á líf sitt að verja og er að reyna að byggja sig upp og fá fólk til að flytja í byggðina,“ segir Guðni og vísar þar til sjónvarpsþáttarins Landans um liðna helgi.  „Þar segja þeir að búið sé að leggja fimm ríkisjarðir í eyði með þeim hætti að þær eru ekki auglýstar.“
 
Áhugasamir geta ekkert gert
 
Þorsteinn Bergsson, bóndi á ríkisjörðinni Unaósi við Héraðsflóa, er að hætta búskap og furðar sig á áhugaleysi ríkisins á að leita að nýjum ábúendum. Hann hyggst flytja á Egilsstaði í haust, en verður mögulega eitthvað tengdur landbúnaði áfram í gegnum störf fyrir Búnaðarfélag Austurlands.
 
„Jörðin hefur ekki enn verið auglýst,“ sagði Þorsteinn í samtali við Bændablaðið sl. mánudag. Áhugasamt fólk, sem hefur haft samband við hann út af jörðinni, geti því ekkert gert þar sem eigandinn, sem er ríkið, hafi ekki sýnt þessu neinn áhuga. Þó hafi sveitarstjórn lýst áhuga á að jörðin haldist í byggð. Þá segir Þorsteinn að búseta á jörðinni skipti einnig miklu máli fyrir vaxandi ferðaþjónustu á svæðinu. 
 
Hafi ekki mótað neina stefnu
 
„Ég er aðeins búinn að grafast fyrir um hvað valdi og verið í sambandi við Óskar Pál Óskarsson hjá ríkiseignum (sviðsstjóra lands- og auðlindasviðs). Þar var því borið við að fjármálaráðuneytið hafi ekki mótað neina stefnu um hvað ætti að gera við ríkisjarðir.“
 
Þorsteinn segist ekki skilja það því bæði séu til lög og reglugerðir um hvernig fara eigi með þessar eignir ríkisins. 
„Í lögum um opinber fjármál sem samþykkt voru 2015 stendur að Ríkiseignir hafi fullt umboð til að ráðstafa svona eignum til skemmri tíma án þess að tala nokkuð við ráðuneyti eða ráðherra. Þeir gætu því leigt jörðina til fimm ára án þess að tala við ráðherra. 
 
Þegar ég var búinn að sýna fram á þetta kom næst upp á diskinn að þeir vildu ekki gera neitt fyrr en búið væri að taka út jörðina. Hér áður fyrr var það aldrei neitt skilyrði og það var t.d. ekki þannig þegar við tókum við jörðinni. Þá var jörðin auglýst áður en það mat fór fram til að það væri nægur tími fyrir nýjan ábúanda að taka við.“
 
Óþarfa verðmætasóun
 
Þorsteinn er með rúmlega 300 fjár á fóðrum og segist verða með sauðburðinn nú í vor og fjallskil í haust. Ef mögulegir nýir ábúendur ætli að heyja jörðina í sumar, þá sé tíminn að verða skammur hvað varðar áburð, vélar og annað.
 
„Það kostar töluvert ef túnin fara úr rækt og ef menn þurfa líka að byrja á því að útvega sér nýjan bústofn. Mér finnst það óþarfa verðmætasóun.“ 
 
Úttektarmenn boðuðu komu sína
 
Í samtalinu við Þorstein kom fram að Óskar Páll hafi boðað komu sína með úttektarmönnum til að taka út jörðina á Unaósi í gær, miðvikudag. Þá var líka hugmyndin að taka einnig út jörðina Kirkjubæ hjá Baldri Grétarssyni, rétt norðan við Lagarfoss. Hann hafði hugsað sér að hætta í fyrra en gekkst inn á, að sögn Þorsteins, að vera áfram með jörðina í eitt ár vegna þess að Ríkiseignir vildu ekkert gera. 
 
„Vonandi fer því eitthvað að gerast í þessum málum. Ég er svo sem ekkert vonlaus um að þetta leysist, en mér finnst satt að segja þessi dráttur heldur leiðinlegur,“ segir Þorsteinn. 
 
Ríkisjörðum skal ráðstafað til ábúðar
 
Í fyrstu grein reglugerðar frá 13. júlí 2011 um ráðstöfun ríkisjarða segir m.a. að þeim skuli að jafnaði ráðstafað til ábúðar eða útleigu með leigusamningum, þannig að best samræmist markmiðum um búsetu og landbúnað.
 
„Auglýsa skal jarðir í Bændablaðinu og a.m.k. einu útbreiddu dagblaði auk heimasíðu ráðuneytisins. Í auglýsingu eftir umsóknum áhugasamra um ábúð ríkisjarða eða útleigu landspilda, skal öllum veittur kostur á umsókn. Í auglýsingunni skulu koma fram upplýsingar um ræktun, mannvirki, hlunnindi, greiðslumark, hvar nánari upplýsingar eru veittar, hvar eyðublöð fyrir umsókn séu afhent, hvert skuli skila umsóknum, fyrir hvaða tíma skuli skila umsóknum, hvenær afhending fari fram svo og önnur atriði er máli skipta.“
 
Fyrir neðan allar hellur
 
„Ég tel að framganga ríkisins nú sé fyrir neðan allar hellur og óforsvaranleg,“ segir Guðni Ágústsson.
„Þegar menn í fjármálaráðuneytinu eru spurðir hverju þetta sæti, þá segir dimm rödd og draugaleg að þeir séu með verkefnið uppi í Háskóla og láta hann gera skýrslu um ríkisjarðir. Þannig að þetta er því miður bara eyðileggingarstarf. Það þarf auðvitað að taka á þessu með eðlilegum hætti þar sem bóndi segir upp um áramót og jörðin sé auglýst til búsetu að nýju um miðjan vetur eða hreinlega seld. Á fardögum kæmi síðan nýr bóndi og tæki við búi af þeim sem hættir.“
 
Skilja ekki um hvað búskapur snýst
 
„Eins og staðan er myndi ég trúa ríkinu til að láta kýrnar standa hirðulausar  í fjósi. Ef um loðdýrabú væri að ræða myndu þeir sjálfsagt sleppa minknum út í náttúruna til að firra sig vandræðum af rekstri búsins. Mér virðist þeir ekki skilja um hvað búskapur snýst.
 
Svo drabbast jarðirnar niður og verða að engu. Þetta er óforsvaranleg framganga og sýnir að mennirnir kunna ekkert til búskapar. Þeir halda greinilega að þetta sé eins og að selja eða leigja hús í Reykjavík og að hægt sé eða gera þetta með viku fyrirvara. Að fara í búskap og taka ákvörðun um að fara í sveit er mikið verkefni sem tekur marga mánuði að undirbúa. Ég undrast þessi vinnubrögð og skora á fjármálaráðherra og ríkisstjórnina að koma þessu í eðlilegan farveg. Þetta er á ábyrgð ríkisins,“ segir Guðni Ágústsson.  

Skylt efni: Bújarðir | ríkisjarðir

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...