Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
„Versta martröð“
Fréttir 24. nóvember 2015

„Versta martröð“

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Nýlega voru kynntir samningar um afnám tolla milli 12 Kyrrahafslanda þ.e. Trans-Pacific Partnership (TPP). Greint var frá þessu í Bændablaðinu en mjög alvarlegar athugasemdir hafa síðan verið gerðar við þennan samning.

Er TPP-samingurinn sagður flytja rétt sjálfstæðra ríkja í veigamiklum þáttum yfir til fjölþjóðlegra fyrirtækja. Svipað virðist vera að eiga sér stað við tollasamningagerð milli Bandaríkjanna og ESB.

Sagt er að TPP-tollasamningurinn sé í raun eins og NAFTA-samningur Ameríkuríkja á sterum. Hefur honum víða verið harðlega mótmælt, meðal annars af bændum í Bandaríkjunum, Kanada, Japan og víðar.

Er TPP-samningurinn kallaður hin fullkomna fyrirtækjastýrða landhremming (Land grabbing). Þá er samningurinn sagður muni valda uppsögnum á fólki, launalækkunum, gjaldþroti bænda víða um lönd og hækkun lyfjaverðs.

Sömu áróðursrökunum víða beitt

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða viðbrögðin á Íslandi við nýgerðum tollasamningi sem gerður hefur verið milli Íslands og Evrópusambandsins en enn á eftir að samþykkja. Hér á landi hafa heyrst húrrahróp úr ranni innflutningsverslunarinnar sem beitir einkum fyrir sig ástúð fyrir hag neytenda. Það eru nákvæmlega sömu rök og kollegar þeirra og fyrirtækjasamsteypur sem standa að baki TPP nota í umræðunni. Einnig er fróðlegt að sjá viðbrögð við þeim samningi sem nú er unnið að á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins (TTIP) sem er gerður á svipuðum forsendum. Vegna hans hafa hundruð þúsunda haldið uppi mótmælum á götum úti í Þýskalandi.

Til hagsbóta fyrir stórfyrirtækin og almenningur skilinn eftir í myrkri

Viðbrögðin við TPP-samningnum eru gríðarlega hörð, ekki síst í Bandaríkjunum. Fjölmiðla­samsteypur risafyrirtækjanna virðast þó lítinn áhuga hafa á að flagga slíku.

Lori Wallach, stjórnandi viðskiptavaktarinnar Public Citizen’s Global Trade Watch, segir að í hverjum kaflanum á fætur öðrum í samningnum komi skelfingin í ljós. Hún segir að ráðgjafar sem kynnt hafa hagsmuni fyrirtækja varðandi samninginn séu yfir sig ánægðir og segi þetta allt gert í þágu almennings.

Athyglisvert er að þessi orð Wallach eru nákvæmlega eins og sagt hefur verið varðandi samninginn á milli Íslands og ESB. 

Lori Wallach segir að það sé staðreynd að með TPP-samningnum sé verið að troða á rétti almennings í viðleitni við að búa til nýtt viðskiptamódel sem fellur að kröfum stórfyrirtækjanna.

„Á meðan hafa ráðgjafarnir sem stýrt hafi þessari samningavinnu skilið almenning eftir í myrkrinu.“
Nick Dearden hjá Global Justice Now er líka ómyrkur í máli.

„Í málum er varðar allt frá hlýnun jarðar, fæðuöryggi, Internetið til lyfja, þá er TPP algjör hörmung.“
Charles Chamberlain, yfirmaður samtakanna lýðræði fyrir Ameríku, Democracy for America, talar á svipuðum nótum:

Óörugg matvæli munu flæða inn í landið

„Nú þegar við höfum séð allan texta samningsins kemur í ljós að hann mun eyðileggja störf og er verri en við hefðum nokkurn tíma getað ímyndað okkur. Þessi samningur mun  keyra niður laun, óörugg matvæli munu flæða inn í landið, hann mun valda verðhækkunum lífsnauðsynlegra lyfja með óheftum viðskiptum við lönd þar sem samkynhneigt fólk og einstæðar mæður eru grýttar til dauða.“

Afneitun á hlýnun  jarðar

„TPP-samningurinn er afneitun á hlýnun jarðar,“ segir Jason Kowalski, stjórnandi aðgerðasamtakanna 350 policy. (350.org).

„Á meðan samningurinn er uppfullur af tilslökunum fyrir olíuiðnaðinn er ekki minnst einu orði á hlýnun jarðar. Það sem samningurinn gerir aftur á móti er að gefa olíufyrirtækjunum sérstaka möguleika á að lögsækja þær ríkisstjórnir sem voga sér að koma í veg fyrir vinnslu á olíu. Ef eitthvert hérað vill koma í veg fyrir að verið sé að nota aðferðir (fracking) við að pressa olíu upp úr sandsteini, þá geta olíufyrirtækin farið í mál. Ef samfélög reyna að stöðva kolavinnslu, geta fyrirtækin valtað yfir fólkið. Til skamms tíma grefur þessi samningur undan ríkjum og möguleikum þeirra til að fara að ráðgjöf vísindamanna sem telja að best sé að láta olíuna óhreyfða í jarðlögunum.“

Samtökin Vinir jarðar, Friends of the Earth (FOE), gerðu einnig athugasemdir við samninginn.
„Hann er hannaður til að verja frjáls viðskipti með óhreinar vörur á borð við tjörusand, kol úr kvikum jarðvegi (Powder River Basin) og fljótandi gas frá höfnum á vesturströnd Bandaríkjanna. Afraksturinn verður aukin hlýnun jarðar vegna aukinnar kolefnislosunar allt í kringum Kyrrahafið.“

Bandaríkjaforseti sagður selja þegnum sínum svikna vöru

Erich Pica, forseti Vina jarðar (Friends of the earth), segir að með samningnum hafi Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, mistekist að gera þetta að viðskiptasamningi sem taki mið af umhverfisvernd. „Obama forseti hefur selt Bandaríkjamönnum svikna vöru.“

Fjöldi sérfræðinga utan Banda­ríkjanna hefur einnig sagt álit sitt á samningnum. Þannig segir dr. Matthew Rimmer, prófessor í hugverkasmíð og lagasetningu, að samningurinn taki illa á umhverfismálum og eftirlitsþátturinn í samningnum sé mjög veikur. Þá sé aðeins lítillega komið inn á fiskveiðar, líffræðilegt jafnvægi og umhverfisþjónustu.

Auðveldar líftæknirisum að beita lögsókn vegna viðskiptahindrana

Frú Wenonah Hauter, stjórnandi Fæðu- og vatnsvaktarinnar „Food & Water Watch“, segir:
„TPP-samningurinn er eftirgjöf til stórfyrirtækja í landbúnaði og matvælaiðnaði. Slík fyrirtæki hafa viðleitni til að sækja gegn reglum um skynsamlegt matvælaöryggi, veikja eftirlitskerfi með innflutningi á matvælum og koma í veg fyrir tilraunir til að styrkja fæðuöryggi.“

Þessi samtök segja einnig að í skjóli TPP-samningsins geti stórfyrirtæki í landbúnaði og líftæknifyrirtæki sem framleiða fræ auðveldlega lögsótt ríki sem banna innflutning á erfðabreyttum (GMO) vörum. Einnig auðveldi samningurinn þeim að hefja lögsókn gegn eftirliti og sýnatöku vegna mögulegrar mengunar frá erfðabreyttum jurtum. Þá geri samningurinn engar eiginlegar kröfur um að líftæknifyrirtækin þurfi að leita heimilda fyrir sölu á nýjum erfðabreyttum afbrigðum eða svo mikið sem að merkja vörur sem erfðabreyttar.

Varúðarmerkingar flokkaðar sem ólöglegar viðskiptahindranir

Samtökin Center for Food Safety, (Miðstöð matvælaöryggis), segja að það séu fimm ástæður fyrir því að neytendur eigi að hafa verulegar áhyggjur af þessum nýja samningi Obama.

Efst á listanum sé heimild í samningnum til að sniðganga merkingar á erfðabreyttum (GMO) matvælum. Þá sendi Food Safety frá sér í síðasta mánuði eftirfarandi athugasemd varðandi samninginn:
„Sérhverjar matvælaöryggisreglur sem settar eru af bandarískum stjórnvöldum og varða merkingar eða skorður við illgresiseyði, skordýraeitur eða önnur slík efni, sem ganga lengra en alþjóðlegar samþykktir, má í samningnum líta á sem ólöglegar viðskiptahindranir.“

Aftökuskipun á opið internet

Varðandi netnotkun er TPP-samningurinn sagður sérlega hættulegur.  Evan Greer, baráttustjóri hjá samtökunum Fight for the Future (FFTF), sagði í ræðu fyrir skömmu: „Á meðal fjölmargra kafla sem valda FFTF miklum áhyggjum eru þeir sem taka á vörumerkjum, einkaleyfum á lyfjum, höfundarrétti og viðskiptaleyndarmálum. Kafli J sem tekur á netþjónustufyrirtækjum er einna verstur. Hann tekur á opnu frelsi internetsins. Þessi kafli gerir kröfur um að netþjónustufyrirtækin verði eins konar höfundarréttarlöggur og aðstoði við að taka á þeim sem stunda niðurhal á höfundarréttarvörðu efni. Samningurinn gerir hins vegar ekki ráð fyrir að hægt sé að koma með mótrök gegn því að bandarísk fyrirtæki geti krafist þess að vefsíður í öðrum löndum séu teknar niður. Því væri enginn möguleiki á því að einstaklingar sem reka slíkar síður geti gert gagnkröfu ef t.d. er um að ræða pólitískt gagnrýna vefsíðu þar sem einkaleyfisvarið efni kemur fyrir í umfjöllun.

Kafli J í samningnum gerir netþjónustufyrirtækin ekki ábyrg fyrir því ef þau gera mistök við að taka úr umferð efni á vefnum að kröfu einkaréttarhafa sem eru þvert á rétt manna vegna málfrelsis.“

Samtök, sem nýlega stuðluðu að kosningu Justin Pierre James Trudeau í sæti nýs forsætisráðherra í Kanada, tala á svipaðan veg. Þau lýsa áhyggjum yfir að samningurinn kunni að ganga gegn efnahag þjóða, mannréttindum, heilsu manna, möguleikum fólks til atvinnu, gegn umhverfi og lýðræðinu. Krefjast þau þess að fullt samráð verði haft við almenning áður en samningurinn verði samþykktur.  Samtökin lýsa sérstökum áhyggjum vegna ákvæða í TPP-samningnum sem gefa fyrirtækjasamsteypum heimild til að lögsækja ríki vegna meints tapaðs gróða sem þau telja sig hafa orðið fyrir í samningum.

Mikil pressa er á nýjum forsætisráðherra Kanada um að skrifa undir samninginn sem fyrst. Hefur hann þegar fengið meldingar um að flýta málinu frá Barack Obama Bandaríkjaforseta og Shinto Abe, forseta Japans. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...