Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Eydís Rós Eyglóardóttir, alifuglabóndi á bænum Vatnsenda.
Eydís Rós Eyglóardóttir, alifuglabóndi á bænum Vatnsenda.
Bóndinn 12. janúar 2024

Draumur varð að veruleika

Hjónin Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvi Guðni Ingimundarson tóku við búi foreldra Ingva, þeirra Þórunnar Kristjánsdóttur og Ingimundar Bergmann árið 2015. Um ræðir eldi allt að 40 þúsund alifugla, en slíkur búskapur hefur spannað í vel yfir fjóra áratugi á bænum Vatnsenda.

Býli og staðsetning? Kjúklingabúið Vor, Vatnsenda Flóahrepp.

Ábúendur? Ingvar Guðni Ingimundarson, Eydís Rós Eyglóardóttir, Þórunn Kristjánsdóttir, Ingimundur Bergmann. Við hjónin eigum þrjú börn: Þórunn Eva (16), Eyþór Bergmann (14), Greta Sóley (8). Fjórir kettir: Logi Bergmann, Díana Ösp, Kola Mjöll og Lúna Richie. Einn hundur: Kubbur.

Fjölskyldan býr utan ljósmengunar þéttbýlis, en er stutt frá öllu sem þau gæti vanhagað um.

Stærð jarðar? Um 220 hektarar.

Gerð bús? Alifuglabúskapur.

Fjöldi búfjár? Allt að 40 þúsund fuglar sem eru aldir í fimm eldiseiningum.

Hvers vegna velur þú þessa búgrein? Kjúklingur hefur verið alinn í rúmlega 45 ár á Vatnsenda. Við tókum við búi af foreldrum Ingvars Guðna árið 2015.

Hér sér yfir bæinn og kjúklingabúið Vor. Standa alifuglabændur sig hérlendis gífurlega vel samanborið við Norðurlöndin enda starfa þeir undir ströngustu kröfum varðandi aðbúnað og velferð.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Dagurinn byrjar með eftirliti í kjúklingahúsin okkar. Þá fer maður inn í öll eldishús í viðeigandi hlífðarbúnaði. Gengið er um eldissalinn horft eftir atferli fugls, gengið úr skugga um að fóður og vatnskerfi virki sem skyldi, hræ fjarlægð og gætt að hita, raka, svo eitthvað sé nefnt. Ákveðin atriði eru skráð í dagskýrslur sem halda utan um eldishóp frá upphafi til enda.

Fuglinn er alinn upp í 33–35 daga. Suma daga er mun meira að gera en aðra. Þegar nýbúið er að senda eldishóp í slátrun, þarf að moka út úr húsi, allt þvegið hátt og lágt og sótthreinsað með ákveðnum efnum, á endanum er svo salurinn undirbúinn fyrir nýjan eldishóp. Spónn settur í gólf og kerfi stillt upp á ný og húsið kynt upp í 33 gráður.

Við hjónin erum einnig með annan rekstur sem þarf að sinna, vélsmiðju (www.vig.is) og smá ferðaþjónustu. Það er lítið um dauða stund og verkefnaleysi. Auk þess er mikilvægt að halda öllum búnaði og byggingum vel við svo að allt gangi upp.

Á Íslandi starfa alifuglabændur við ströngustu kröfur varðandi aðbúnað og velferð og við ættum að vera stolt af okkar framleiðslu.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það er alltaf gaman að taka á móti nýjum eldishóp, litlir gulir hnoðrar sem allir halda að þú sért mamman. Einnig þegar maður sér framfarir og bætingar í eldinu eftir mikla eftirfylgni og fínstillingar á kerfum.

Kannski ekki hægt að segja að eitthvað sé leiðinlegt þannig, meira kannski slítandi. Þegar hús er græjað fyrir nýjan hóp er t.d. pappír dreginn út á gólfið ofan á spæni og fóður sett þar ofan á. Í eldri húsunum okkar gerum við þetta alveg handvirkt með fötum sem kallar á smá burð á fóðri þegar því er komið fyrir á pappírinn, held að það sé minnst uppáhaldsverkefnið. Í nýju húsunum okkar erum við með fóðurvagn sem þarf bara að draga áfram og pappír og fóður leggst út á gólf án vandræða þegar vagninn er dreginn áfram.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Að minna sig á það að við séum að skaffa þjóðinni fæðu. Á Íslandi þá starfa alifuglabændur við ströngustu kröfur varðandi aðbúnað og velferð og við ættum að vera stolt af okkar framleiðslu. Samanborið við Norðurlöndin eru íslenskir alifuglabændur að standa sig gífurlega vel og skara fram úr í þessari grein.

Bændastarfið býður oft upp á ákveðið frelsi, dagarnir eru aldrei eins og fjölbreytileikinn er mikill, það hentar mér óskaplega vel.

Hverjar eru áskoranirnar? Að vera ný í „bransanum“ hefur alveg verið hark og slagur. Við sáum fram á að annaðhvort þyrftum við að stækka eða bara pakka saman og hætta. Ákvörðun var tekin og við byggðum tvö eldishús sem þrefaldaði framleiðslu okkar á einu bretti. Auðvitað fylgja „vaxtaverkir“ slíkri framkvæmd. Lánakjör mættu vera hagstæðari.

Hjónin sáu fram á að þurfa að stækka eða hreinlega bregða búi. Var því ákveðið að byggja tvö eldishús sem þrefaldaði framleiðsluna.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn þinn hagkvæmari? Ef fóðurverð myndi vera lægra og sveiflast lítið væri það mjög gott. Hráefnisverð hefur sveiflast mikið síðustu ár vegna átaka í heiminum og uppskerubresta sums staðar

Tollasamningar og innflutningur kjúklings hefur einnig ekki verið alifuglabændum í hag síðustu ár sem þarf klárlega að breyta, vilji stjórnvöld halda fjölbreyttum landbúnaði í landinu.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Vonandi erum við að horfa fram á bjarta tíma. Það er öruggt að ungir bændur eru fullir af eldmóð og þá langar að gera vel og standa sig, fá tækifæri.

Í okkar grein hefur neysla á kjúklingakjöti aukist gífurlega síðustu ár og miðað við spár þá heldur hvíti geirinn áfram að vinna sig upp stigann.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það að taka á móti fyrsta eldishóp í nýju húsin hjá okkur var ótrúlega skemmtilegt. Draumur orðinn að veruleika. Allt virkaði svo stórt og mikið.

Instagram-síða: Disillinn.

Fylgist með lífi og starfi fjölskyldunnar á Vatnsenda á Instagram-síðu Bændablaðsins næstu tvær vikurnar.

Mykjubras og menntun
Bóndinn 10. janúar 2025

Mykjubras og menntun

Næstu daga geta lesendur kynnst búskapnum á Hvanneyrarbúinu á Instagram Bændabla...

Á kafi í hrossarækt
Bóndinn 20. desember 2024

Á kafi í hrossarækt

Þau Hannes og Ástríður á Ási 2 víla ekki margt fyrir sér. Húsdýrin, sem eru allt...

Þegar kýrhausar komu saman
Bóndinn 6. desember 2024

Þegar kýrhausar komu saman

Á Syðri-Hömrum 3 í Ásahrepp gengur búskapurinn sinn vanagang og hefur húsfreyjan...

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...