Forréttindastarf
Hjörvar Ágústsson hrossaræktarbóndi gefur hér lesendum innlit í líf og starf fjölskyldu sinnar. Einnig má svo fylgjast með þeim á Instagram og Facebooksíðu Bændablaðsins næstu tvær vikurnar.
Kirkjubær á Rangárvöllum er gömul jörð sem nær það langt aftur að hún kemur vel fyrir í Njálu. Þá voru hér mest þjófar og lygarar sem urðu þess valdandi að Gunnar á Hlíðarenda dó. Við höfum því reynt í seinni tíð að skapa meira jákvætt umtal um Kirkjubæ.
Hér hefur verið stunduð skipulögð hrossarækt síðan 1960. Fyrstur til að vera hér úr minni fjölskyldu var afi minn, Sigurður Haraldsson, um 1974. Síðan seinna meir faðir minn, Ágúst Sigurðsson, ásamt Guðjóni bróður sínum. Seinna meir eingöngu mín fjölskylda.
Í dag sjáum ég og kona mín, Hanna Rún Ingibergsdóttir, um daglegan rekstur og rekum búið ásamt foreldrum mínum, Ágústi Sigurðssyni og Unni Óskarsdóttur.
Býli, gerð bús? Kirkjubær á Rangárvöllum, 1500 hektara hrossaræktarbú
Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýra)? Hjörvar Ágústsson, Hanna Rún Ingibergsdóttir og Lilja Rún Hjörvarsdóttir (1 árs), mæðgurnar Dögg og Krafla (ástralskir fjárhundar) auk Blesu og Huldu (íslenskir bland í poka-kettir).
Fjöldi búfjár? Aðeins misjafnt, en í kringum 80 hross á búi.
Hvers vegna velur þú þessa búgrein? Ákvað sem betur fer að vinna við það sem ég hef gríðarlega ástríðu fyrir og áhuga. Oft þarf að gera erfiða hluti og ekki alltaf auðvelt að láta hlutina ganga upp fjárhagslega, langir dagar á ekkert svo spes tímakaupi. En ég hlakka til á hverjum einasta morgni að fara út í hesthús og þjálfa. Hvílík forréttindi!
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Vaknað, gefið, stíur teknar, þjálfað, hádegisgjöf, þjálfað, kvöldgjöf. Svo, eins og flestir þekkja, er enginn dagur eins og ýmislegt annað sem þarf að brasa.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast er að þjálfa hrossin, mennta þau, finna út hlutverk fyrir þau, vera í kringum þau. Leiðinlegast er allt tengt rúlluplasti eftir að þú tekur það af rúllunni. Blautt/frosið rúlluplast í misheppilegum ílátum sem þú treður inn á kerru til að fara með á gámaþjónustuna.
Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Við erum nú alltaf að reyna að hugsa til þess. En ekki komin með svör.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Tækniþróun mun halda áfram að gera ýmsa hluti einfaldari. Vonandi verður komin einhver lausn önnur en rúlluplast. Eitthvað umhverfisvænna og skemmtilegra.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Alltaf stendur það nú upp úr þegar folöldin mæta á svæðið. Spá og spekúlera í byggingarlagi og háttum þeirra. Eins eru frumtamningar að hausti tími sem við bíðum alltaf spennt eftir.
Instagram-síða: @Kirkjubaer_horsefarm