Gilá
Ingþór Kristmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir kaupa Gilá í Vatnsdal í Húnavatnshreppi árið 1999 og hefja smábúskap ásamt því að vinna utan bús. Árið 2003 ákveða þau að stækka við sig og kaupa af foreldrum Ingibjargar bústofn og jörðina Marðarnúp sem er næsta jörð við Gilá.
Býli: Gilá.
Staðsett í sveit: Vatnsdal í Húnavatnshreppi.
Ábúendur: Ingþór Kristmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Eigum fjögur uppkomin börn, tvö þeirra eiga heima í sveitinni. Einn hundur er á bænum sem heitir Stáli.
Stærð jarðar? 2.380 ha.
Gerð bús? Sauðfjárbú.
Fjöldi búfjár og tegundir? Erum með 300 kindur, nokkrar geitur og hross.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hinn hefðbundni vinnudagur er að gefa búfénaðinum eftir skólaakstur á morgnana og aftur seinni part dags. Annars er enginn dagur eins í sveitinni og störfin fjölbreytt.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Sauðburður er alltaf heillandi og gefandi. Leiðinleg bústörf eru ekki til, bara misskemmtileg.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Vonandi verður búið að virkja bæjarlækinn og skógur farinn að vaxa í hlíðunum.
Hvar teljið þið að séu helstu tækifærin í framleiðslu á íslenskum búvörum?
Á innanlandsmarkaðinum, bæta framsetningu vörunnar með áherslu á gæði og hreinleika.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Egg og beikon.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Saltkjöt og baunir.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það gleymist seint þegar við hjónin ákváðum að endurnýja girðingu í kringum grænmetisgarðinn okkar en í hólfi þar við voru nokkrir stálpaðir nautkálfar. Eitthvað þurfti karlinn að bregða sér frá og átti konan (sem var óvön nautgripum) að standa vaktina á meðan ef kálfarnir myndu nú birtast. Fyrirmælin voru þau að dangla aðeins í hausinn á þeim og þeir færu með það sama. Kemur hersingin um leið og karlinn er farinn, konan danglar priki í hausinn á þeim áræðnasta sem verður bandóður, krafsar, bölvar og froðufellir, svo reiður að hann bruddi nokkra blómapotta sem voru þarna á stangli. Sem betur fer var karlinn fljótur í förum og birtist sem himnasending á ögurstundu og allt endaði vel.