Klifshagi II
Frá árinu 1990 komum við smám saman inn í búið þar til við tókum alveg við því í kringum 2000 en bjuggum félagsbúi með foreldrum Stefáns, þeim Pétri Sigvaldasyni og Unni Sigurðardóttur fram að því.
Býli: Klifshagi II.
Staðsett í sveit: Öxarfjörður, Norður-Þingeyjarsýsla.
Ábúendur: Stefán Pétursson og Guðlaug Anna Ívarsdóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Við hjónin, 3 börn og 2 tengdadætur. Baldur Stefánsson fæddur 1992, búfræðingur, kona hans er Sigríður Þorvaldsdóttir. Daníel Atli Stefánsson fæddur 1995, nemi í húsasmíði, kona hans er Berglind Heiða Guðmundsdóttir og Bjartey Unnur Stefánsdóttir fædd 2001, sem er grunnskólanemi. Svo eigum við kisu og tvo hunda.
Stærð jarðar? Ríflega 500 hektarar.
Gerð bús? Sauðfjárbú.
Fjöldi búfjár og tegundir? 550 kindur og 12 hestar.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?
Vinna á sauðfjárbúi er árstíðabundin, sauðburður á vorin, heyskapur á sumrin, göngur og réttir á haustin og viðhald og gjafalag á vetrum svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem frúin starfar við grunnskólann á veturna.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegustu eru þegar fjölskyldan vinnur saman að rúningi og að fara í gegnum lambahópinn á haustin / leiðinlegustu eru þeir erfiðleikar sem upp koma á sauðburði eins og t.d að missa fullburða lamb í erfiðum burði.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Með svipuðu sniði, hugsanlega stærri og líklega aukin þátttaka barnanna í búskapnum.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Við teljum þau viðunandi en lengi má gott bæta.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Ef rétt er haldið á spöðunum á hann að geta gengið vel.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Það væri spennandi að koma okkar hreina úrvalsgóða hráefni betur inn á sælkeramarkað.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Rabarbarasulta og bjór handa nágrönnunum.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Án efa heimamarinerað grillað ærfillet/ærlundir.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar fyrsta rúlluvélin kom og farið var að heyja í rúllur, það breytti miklu í verkun á heyi. Krakkarnir segja að það hafi verið þegar mamma rakaði með rakstrarvélina uppi.