Sólbakki
Hartmann er að mestu uppalinn í Reykjavík, bjó fyrstu sjö árin á Sauðárkróki og varði síðan meira og minna öllum sínum fríum þar. Ólöf er hins vegar uppalin á Sólbakka.
Við búum á Sólbakka II og erum í búrekstri með foreldrum Ólafar á Sólbakka. Kláruðum búfræði frá Hvanneyri vorið 2018 og komum inn í búskapinn þá um haustið.
Stofnað var lögbýlið Sólbakki II út frá Sólbakka, þar sem við erum búsett í dag, en búskapurinn er á jörð Sólbakka. Þetta verður samtvinningur hjá okkur næstu árin, enda uppbygging á bænum og veitir ekki af mörgum höndum. Skúli og Sirrý tóku við búinu af foreldrum Skúla í nokkrum skrefum frá árinu 1995 og hafa búið með blandaðan búskap hingað til. Breytingar urðu á búinu þegar nýtt fjós var tekið í notkun með mjaltaþjóni 2017.
Býli: Sólbakki.
Staðsett í sveit: Í Sólardalnum Víðidal – VesturHúnavatnssýslu.
Ábúendur: Hartmann Bragi Stefánsson og Ólöf Rún Skúladóttir (Sólbakka II), Skúli Þór Sigurbjartsson og Sigríður Hjaltadóttir (Sólbakka).
Hartmann Bragi Stefánsson og Ólöf Rún Skúladóttir (Sólbakka II).
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Hartmann og Ólöf eiga einn son, Hjört Þór (eins og hálfs árs).
Skúli og Sirrý eru með gæludýr, gamla íslenskblandaða tík, hana Lukku og Yorkshire Terrierin Lubba.
Stærð jarðar? Um 300 ha.
Gerð bús? Mjólkurframleiðsla, sparifé og fáeinar merar.
Fjöldi búfjár og tegundir? Við erum með um 45 mjólkandi kýr eins og er, og sama fjölda af kvígum og kálfum. Spariféð telur tæplega 30 hausa og síðan eru 8 folaldsmerar.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hartmann og Skúli vinna fulla vinnu við búið, síðustu misseri hafa það verið fjósstörf og framkvæmdir sem fylla vinnudaginn. Nú er verið að breyta gamla fjósinu í uppeldisaðstöðu fyrir kvígur.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Vorin eru allavega okkar skemmtilegasti tími, Hartmanni finnst öll jarðvinnsla skemmtileg, og fer hún að mestu fram þá. Ólöfu finnst hins vegar skemmtilegast að taka á móti kálfum (a.m.k. þegar vel gengur) og svo auðvitað sauðburðurinn á vorin hjá sparifénu.
Leiðinlegast finnst okkur þegar það koma upp heilsubrestir hjá kúnum – veikindi eða slys á gripum, það getur oft verið ansi leiðinlegt og erfitt.
Ætli það sé ekki farið að standa upp úr hjá Skúla og Sirrý að fá barnabörnin í heimsókn og fara með þau til dýranna.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Við viljum halda áfram uppbyggingunni hér, það þarf að halda áfram að breyta og bæta gömlu húsin eftir komu nýja fjóssins, það þarf að stækka ræktarland og fleira til. Setja okkur markmið og vonandi ná þeim – okkur langar allavega að gera fullt af alls konar.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu íslenskra búvara? Til dæmis bæting afurða, genaval í nautgriparækt og hugsanlegir möguleikar með kyngreint sæði. Spennandi að sjá hvað gerist í framtíðinni í þessum málum.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Á báðum bæjum er það mjólk, grænt ósaltað smjör og ostur. Hér á Sólbakka II bætist við ABmjólk fyrir erfingjann og svo núna það nýjasta, Hlölla sósa!
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Föstudagspitsa er vinsæl hefð, maður fær einhvern veginn aldrei leiða á henni. En síðan er það lambakjötið – klassík.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Okkur dettur í hug tvennt – misskemmtileg atvik og upplifanir. Það sem stendur upp úr er klárlega þegar kúnum var hleypt inn í nýja fjósið á afmælisdegi Hartmanns 1.febrúar 2017. Og svo það sem kannski situr einna mest í manni enn eru óveðursdagarnir í desember 2019, í rafmagns, hita, vatns og símasambandsleysi í 1,5 sólarhringa vitandi af kúnum í sömu aðstöðu – hræðilegt!
Skúli Þór Sigurbjartsson og Sigríður Hjaltadóttir (Sólbakka).