Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Uppsalir
Bóndinn 11. febrúar 2021

Uppsalir

Hilmar Smári Birgisson er fæddur og uppalinn á Uppsölum, hann kom inn í búskapinn eftir nám sitt í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 2014. Hann kynntist Söru á Hvanneyri 2012 en samband þeirra byrjaði seinnihluta 2014. 

Hann flytur hana heim að Uppsölum 2015 eftir að hún útskrifast úr búvísindum frá sama skóla. Sara er sjálf ekki frá neinu búi, en var í sveit í Gröf á Vatnsnesi hjá Stellu og Tryggva. 

Þau hafa séð að mestu leyti um sauðfjárbúskapinn frá 2015 en fá dygga aðstoð frá Bigga og Siggu (foreldrum Hilmars) á álagspunktum. Um áramótin 2020 kláruðu þau kaupin á jörðinni og eru eldri hjónin frelsinu fegin.

Býli:  Við búum á Uppsölum í Austur-Húnavatnssýslu.

Staðsett í sveit: Erum staðsett við sýslumörkin á Austur- og Vestur- Húnavatnssýslu, erum fyrir ofan Vatnsdalinn (horfum niður í hann).

Ábúendur: Hilmar Smári Birgisson og Sara Björk Þorsteinsdóttir eru ábúendur í gamla bænum sem afi og amma hans Hilmars bjuggu í. 

Foreldrar Hilmars, Birgir Ingþórsson og Sigríður Bjarnadóttir, búa í húsi sem þau byggðu árið 1991. 

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Hilmar og Sara eiga tvo syni, Birgi Stein, sem verður 6 ára í haust, og Tryggva Þór, sem verður 3 ára í sumar. Gæludýrið þeirra er fjárhundurinn hann Tumi sem er 3 ára blanda af áströlskum fjárhund og border collie. Síðan eru nokkuð margar vel valdar gæfar í húsunum.

Stærð jarðar? Jörðin Uppsalir er um 530 hektarar. Hins vegar nýtum við jörðina Melrakkadal sem foreldrar Hilmars eiga, sú jörð er 3.000 hektarar.

Gerð bús? Sauðfjárbúskapur og vélaverktaka.

Fjöldi búfjár og tegundir? Erum með 1.340 kindur og nokkur hross.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Eins og á flestum býlum þá er enginn dagur eins og einnig eru störfin árstíðabundin. 

Á veturna, þegar búið er að taka kindurnar inn á hús, hefst dagurinn á skólaakstri, að honum loknum er gefin fyrri gjöf í húsunum. Eftir skólaakstur seinnipartinn er farið í seinni gjöfina. Þess á milli er farið í önnur tilfallandi störf, við skiptumst t.d. á að hlaupa í gripaflutninga með Bigga, sem og Sara vinnur utan bús sem hjúkrunarfræðingur. Á vorin á sauðburður hug okkar allan, síðan að koma fé á fjall. Einnig flytjum við fé á heiði fyrir nokkra nágranna okkar. Á sumrin er það heyskapur allt sumarið, þar sem við erum í heyverktöku. Rúllum 1.500 rúllur fyrir okkur, 6.500 fyrir aðra bæi hér í kring. Á haustin eru það hlaup upp á fjöllum eftir kindum, fjárrag og fjárflutningar fyrir SAH afurðir á Blönduósi. 

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Sauðburður er alltaf skemmtilegur og heyskapur í góðu veðri. Í rauninni finnst okkur ekkert leiðinlegt verk í sambandi við búskapinn, annars værum við líklega ekki með svona margt fé. Ætli veikir gripir og ullarflokkun sé ekki í neðstu sætunum.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Framtíðarsýn Hilmars er: fleiri börn, fleiri kindur, ný fjárhús og sólpallurinn sem hann átti að smíða 2018.

Framtíðarsýn Söru: betri ræktun, betri afurðir.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu á íslenskum búvörum? Ef horft er til innanlandsmarkaðar þá teljum við að bæta mætti framsetningu vöru í búðum, hafa umbúðir notendavænni og sýnileika vöru betri til þess að laða kúnnann að. Líkt og gert er með grænmetið, ekki hafa það í djúpum og dimmum kælum þar sem þarf að róta í mismunandi kjöttegundum sem oft eru bara í poka.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? 

Mjólk, smjör, ostur, egg og AB-mjólk með bananabragði.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Heimagerðar kjötfarsbollur úr heimahökkuðu ærhakki.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar pabbinn sagði við eldri soninn að klukkan væri orðin of margt til þess að hann væri að koma með honum út í seinni gjöfina. Sá stutti var sko aldeilis ekki sáttur og fór fram í bakdyrainngang, klæddi sig sjálfur í útifötin tautandi við sjálfan sig hversu ómögulegur pabbinn væri. Fór út og stóð fyrir framan eldhúsgluggann fullklæddur, þar sem faðirinn sat enn við eldhúsborðið, og hrópaði inn um gluggann til hans: „Ef klukkan er of mikið þá átt þú að drífa þig,“ snerist á hæl og æddi upp í fjárhús.

Gola.

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...