Yfirvofandi nautakjötsskortur árið 2002
Í byrjun árs 2002 birtist á forsíðu Bændablaðsins frétt um að yfirvofandi væri nautakjötsskortur í lok ársins. Rætt var við Runólf Sigursveinsson, sem þá var ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sem sagði að dregið hefði mjög úr nautakjötsframleiðslu vegna lágs verðs til framleiðenda.
„Það hefur orðið veruleg raunlækkun á nautakjöti til bænda á undanförnum árum en mjólkin hefur að mestu haldið í við verðlagsþróunina. Þess vegna hafa mjólkurframleiðendur, sem hafa verið með kjötframleiðslu aukreitis, farið úr í að auka mjólkurframleiðsluna og hætt við nautaeldið. Eftir standa sérhæfð bú sem reyna að ná peningum í gegnum sérhæft nautaeldi með holdablendingum. Þessi bú eru tiltölulega fá og þetta er það dýr framleiðsla og verðið það lágt að menn halda þetta ekki lengi út að óbreyttu,“ sagði Runólfur.
Hreiðar Karlsson, framkvæmdastjóri Kjötframleiðenda ehf., sagði að ástæðan fyrir því hve illa ári hjá nautakjötsframleiðendum sé fyrst og fremst offramleiðsla á nautakjöti á síðustu misserum. Þess vegna væri verðið svo lágt til framleiðenda, sem raun ber vitni.
Runólfur sagði einnig að ef skortur yrði á íslensku kjöti opnaðist sá möguleiki að flytja inn kjöt. En hann sagðist ekki óttast að þar með tapaðist markaður fyrir íslenskt nautakjöt. Hins vegar væri ljóst að ýmislegt þurfi að laga í þessari kjötgrein, bæði hvað varðar framleiðsluna og ekki síður verðmyndun í vinnslu og verslun.
Skoða má gömul tölublöð Bændablaðsins í gegnum vefinn Tímarit.is, þar sem þessa umfjöllun er að finna.