Primadonnasjal
Einfalt og fljótlegt sjal prjónað úr Drops Air. Garðaprjón og gatamynstur setja skemmtilegan svip á sjalið. Lungamjúkt sjal sem gott er að vefja um hálsinn í vetur.
Mál:
- Lengd efst: ca 160 cm.
- Hæð fyrir miðju: ca 51 cm.
Garn: Drops Air fæst í Handverkskúnst
- Bleikur nr 20: 100 g
Prjónar: Hringprjónn, 80 cm nr 8 – eða þá stærð sem þarf til að 12 lykkjur og 26 umferðir með garðaprjóni verði 10x10 cm.
Sjal: Sjalið er prjónað fram og til. Prjónað er ofan frá við miðju að framan og aukið er út í hverri umferð í hliðum.
Fitjið upp 2 lykkjur á hringprjón nr 8 með Air. Prjónið síðan þannig:
Umf 1-2: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið slétt út umf = aukið út um 2 lykkjur.
Umf 3-4: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið slétt út umf = aukið út um 4 lykkjur.
Umf 5-6: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið slétt út umf = aukið út um 2 lykkjur.
Umf 7-8: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið slétt út umferðina = aukið út um 4 lykkjur.
Umf 9: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, *prjónið 2 slétt saman, sláið 1 sinni uppá prjóninn*, endurtakið frá *-* þar til 1 lykkja er eftir af umf, 1 slétt = aukið út um 1 lykkju.
Umf 10: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið slétt út umf = aukið út um 1 lykkju.
Umf 11-12: 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, 1 slétt, sláið 1 sinni uppá prjóninn, prjónið sléttar út umf = aukið út um 4 lykkjur. Nú eru 20 lykkjur á prjóninum.
Endurtakið umferðir 1-12, (lykkjufjöldinn eykst um 18 lykkjur í hverri endurtekningu). Prjónið þar til stykkið mælist 51 cm frá uppfitjunarkanti.
Afelling:
Til að fá affellingarkantinn teygjanlegan er fellt af með tvöföldum þræði eða með grófari prjónum. Fellið laust af. Klippið frá og festið enda, þvoið stykkið og leggið til þerris.
Prjónakveðja,
mæðgurnar í Handverkskúnst
www.garn.is