Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Í skjóli trjánna undir vindbörðu fjalli Ingólfs
Mynd / HKr.
Líf&Starf 6. janúar 2017

Í skjóli trjánna undir vindbörðu fjalli Ingólfs

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Helga R. Pálsdóttir og Helgi Eggertsson reka myndarlega gróðrarstöð og hrossarækt að bænum Kjarri í Ölfusi. Þau segjast vart muna aðra eins veðurblíðu og ríkt hefur stóran hluta af þessu ári. 
 
„Við erum að framleiða hér tré, skrautrunna, limgerðis- og skjólbeltaplöntur. Trén sem við erum að selja eru alveg upp í þriggja til fjögurra metra há. Hnausaplönturæktun er svolítið okkar sérgrein í trjáræktinni,“ segir Helga. Þar á hún við að trén eru undirbúin í uppeldinu til flutnings síðar og þá seld í hnaus sem er íklæddur striga sem auðveldar mjög allan flutning. Framleiðsluna sýna þau á stóru útisvæði yfir sumarið. Þar eru allar plönturnar vel merktar samkvæmt ákveðnu merkingakerfi sem garðplöntuframleiðendur hafa látið útbúa fyrir sig. Framleiðsluna selja þau síðan á staðnum beint til viðskiptavina.
 
„Þetta hefur gengið ágætlega, en vissulega er gífurlega mikil vinna í kringum þetta. Þegar vel viðrar sýnir fólk þessu þó meiri áhuga en ella.“
 
Helga R. Pálsdóttir er fædd norður í Skagafirði en uppalin á bænum Kröggólfsstöðum rétt fyrir neðan Hveragerði. 
 
„Mamma, Sigurbjörg Jóhannes­dóttir, er ein af systrunum 7 frá Merkigili í Skagafirði, en pabbi, Páll Sigurðsson, var hestamaður og kenndur bæði við Fornahvamm og Varmahlíð.“ 
 
Helgi Eggertsson er aftur á móti fæddur og uppalinn á Selfossi. Faðir hans er Eggert Vigfússon frá Selfossi og móðir Hulda Vilhjálmsdóttir frá Laugabökkum í Ölfusi.
 
Trjásalan aftur að ná sér á strik eftir hrunið
 
Helga segir að efnahagshrunið 2008 hafi ekki haft svo mikil áhrif á viðskiptin til að byrja með.
„Við vorum að selja nokkuð jafnt og þétt fyrir verkefni sem höfðu verið í gangi fyrir hrunið, en síðan fór að draga úr þessu. Ég held að þetta sé nú allt á uppleið og að koma til baka núna.“
Helga segir að trjágróðurinn sem fólk sé að kaupa sé af fjölmörgum tegundum og í ýmsum stærðum. Birkið er alltaf vinsælt, reynitegundir, elri, greni og fura að ógleymdum öllum skrautrunnunum. 
 
„Við erum búin að búa hér í 35 ár. Við tókum þá við búi af föðursystur minni, Rögnu Sigurðardóttur, sem þá var nýlátin. Hennar maður var Pétur Guðmundsson, sem lést nokkrum árum áður en við komum að þessu.  Þegar við tókum við var í sjálfu sér engin ræktun í gangi. Ragna og Pétur höfðu dregið saman seglin sökum aldurs en skjólbelti voru til staðar. Við gátum nýtt okkur skjólbeltin, en mýrin hér fyrir ofan bæinn var bara grasi vaxin.“
 
Óskaplega frjór jarðvegur í mýrinni ofan við bæinn
 
–Nú eruð þið búin að rækta upp myndarleg tré í þessari mýri, er þetta ekki súr og vondur jarðvegur til þess?
„Nei, þetta er eðaljarðvegur, óskaplega frjór og góður. Þarna vex allt sem sett er niður. Ég held því fram að þessi jarðvegur bjargi því að hægt sé að rækta hér þar sem hvassviðri getur verið mjög mikið.“
Þegar við hófum hér búskap vorið 1981 var Helgi að útskrifast úr framhaldsdeildinni á Hvanneyri. En ég úr MA. Í framhaldinu fór ég í Garðyrkjuskólann, en Helgi starfaði í mörg ár hjá Búnaðarsambandi Suðurlands sem ráðunautur á ýmsum sviðum.“ 
 
Helgi átti hesthús á Selfossi þegar þau kynntust. Þar voru þau með sín hross til að byrja með. Eftir að þau fluttu að Kjarri hafa þau byggt upp nær allan húsakost sem nú stendur á jörðinni, þar á meðal hafa þau stækkað íbúðarhúsið, byggt hesthús og veglega reiðskemmu og lítið fjárhús fyrir 20 kindur. Reyndar segist Helgi hafa verið rekinn út úr hlöðunni með kindurnar af því að einhverjum hafi fundist vera vond lykt af þeim. 
 
Eitt þriggja barna við nám í hestamennsku
 
Þau hjón eiga þrjú börn, Pál, Rögnu og Eggert, sem öll eru á þrítugsaldri. Eggert er á öðru ári á hestabraut við Háskólann á Hólum og er með brennandi áhuga á hestamennsku. Páll er aftur á móti að ljúka læknisfræði og Ragna verkfræðinámi.
 
Helga segir að það hljóti eitthvað að hafa klikkað hjá þeim í uppeldinu þar sem ekkert barnanna hefur sýnt sérstakan áhuga á garðyrkjunámi. 
 
„Þau hafa samt öll tekið þátt í þessu með okkur og byrjuðu að vinna við þetta um leið og þau gátu gengið. Svo þau þekkja okkar störf mjög vel.“ 
 
Byrjuðu að byggja hlöðuna 1987
 
„Við byrjuðum á að byggja hér hlöðu 1987 og síðan hesthús 1988 sem tekið var í notkun 1989. Nú síðast bættum við viðbyggingu við hlöðuna og reiðskemmunni sem við tókum í notkun haustið 2013,“ segir Helga.
 
Nú er búið að endurnýja í hesthúsinu og hlöðuna sem þau byggðu fyrst tóku þau í gegn á síðasta ári. Hesthúsið rúmar nú 30 hross. Þau eru nú með um 70 hross og að jafnaði fæðast 7–10 folöld á ári. Helgi sér síðan um uppeldið á hrossunum og tamningar með dyggri aðstoð konu sinnar og barna. 
 
Of mörg hross á markaðnum
 
Helgi segir að hans hlutverk á bænum lúti mest að hestamennskunni. Hann segir að þau rækti upp hesta og temji til að selja. Afsetning á hrossum mætti vera betri, en hann segir að offramboð á markaði ráði þar mestu um. Reyndar hafa hestamenn verið að ræða um það árum saman að full þörf væri á að grisja stofninn. 
 
Á síðasta ári voru samkvæmt tölum Matvælastofnunar 67.358 hross í landinu. Mögulega er um einhverja vantalningu að ræða, einkum í þéttbýli. Nákvæmari tölur um hrossaeign landsmanna ættu að liggja fyrir vorið 2017.
 
„Það tekur þó (mjög) langan tíma frá því hætt er að halda merum þar til draga fer úr fjöldanum sem kemur inn á markað,“ segir Helgi. Hann segir að þetta sé vissulega í áttina en er ekki sérlega bjartsýnn á að menn dragi nægilega úr framleiðslu.
 
Kúabúskapur nær horfinn úr Ölfusinu en hestamennskan öflug
 
Helgi segir að miklar breytingar hafi átt sér stað í landbúnaði í Ölfusinu á liðnum áratugum. Um 1960 hafi verið um 60 mjólkurinnleggjendur í Ölfusinu, en nú sé einungis einn eftir. Það er Pétur Guðmundsson í Hvammi, sem var einmitt að vígja nýja fjósbyggingu á dögunum. 
 
Það eru hins vegar mörg hrossabú í Ölfusinu þar sem stunduð er fjölbreytt hestatengd starfsemi.
Hrossarækt, tamningar, hestaleigur að ógleymdu hestaleikhúsinu í Fákaseli. Ölfusið er vel í sveit sett og njótum við nálægðarinnar við höfuðborgina. 
 
Reiðskemman var algjör bylting
 
Helgi er stoltur af reiðskemmunni sem er 16x40 metra límtréshús, eða 640 fermetrar að grunnfleti. Það er byggt af Límtré  á Flúðum, eða Límtré Vírnet ehf., eins og fyrirtækið heitir í dag. Þeir teiknuðu einnig millibygginguna sem tengir skemmuna við hlöðuna. 
 
„Það var algjör bylting að fá skemmuna. Þá er maður ekkert háður veðrum með þjálfun. Þetta verður allt mun þægilegra, eins og í þeirri endalausu rigningartíð sem hér var í haust. Auðvitað hefði maður getað farið í galla og skarkað hér úti, en skemman gerir manni kleift að vinna þetta jafnt og þétt alla daga ársins. Áður komu oft heilu vikurnar sem ekkert var hægt að gera vegna veðurs og þá þurfti að nota helgarnar þegar rofaði til.“
 
Þar sem vindálag getur verið mjög ofsafengið undir Ingólfsfjallinu mætti ætla að hús eins og þessa reiðskemmu þurfi að styrkja sérstaklega. Sú varð þó ekki raunin þar sem byggingarnar frá Límtré eru gerðar til að þola mjög mikið álag. Eigi að síður bað Helgi um að vegghæðin yrði ekki meiri en nauðsynlega þyrfti.  
 
Helgi segir að þegar þau ákváðu að byggja skemmuna 2013 hafi staðið einstaklega vel á hjá Límtré sem hófst þegar handa við verkið. Þá var enn lægð í framkvæmdum í þjóðfélaginu og ágætt aðgengi að iðnaðarmönnum. Þetta er gjörbreytt í þeirri uppsveiflu sem nú ríkir. 
 
„Lenti bara í þessu“
 
Þó segja megi að hestamennskan eigi nú huga Helga að verulegu leyti, þá er hann ekki fæddur inn í sveitastörf og ólst alls ekki upp við hestamennsku eins og Helga konan hans. 
 
„Ætli ég hafi ekki verið um tíu ára aldurinn þegar ég fór að sniglast út í hesthús á Selfossi. Það var ekkert af mínu fólki í hestamennsku. Maður bara lenti í þessu eins og sagt er, eiginlega fyrir einhverja tilviljun,“ segir Helgi.
 
„Hjá okkur sem höfum þetta að atvinnu, þá snýst þetta allt um hesta. Það er vinnan, það er hobbýið og allt. Menn hugsa eiginlega ekki um neitt annað.“
 
–Nú starfaðir þú lengi hjá Búnaðarsambandi Suðurlands (BSSL), hvert var þitt hlutverk þar?
„Ég var þar í ráðgjöf í loðdýrarækt og hrossarækt og svolítið í jarðræktinni líka. Ætli ég hafi ekki verið í sjö ár þar í fullu starfi. Svo var ég í nokkur ár í viðbót að sinna loðdýraræktinni.  Þá var hestamennskan farin að taka svo mikinn tíma að ég mátti ekki vera að því að sinna starfinu lengur hjá Búnaðarsambandinu.“
 
–Er bjart fram undan í hesta­mennsku á Íslandi?
„Já, ég held að þetta eigi eftir að verða áfram öflugt áhugamál og atvinna fyrir marga,“ segir Helgi. Hann telur að útflutningur á hrossum sé að aukast, en hann hafi verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Jafnvel þótt bæði Danir og Svíar hafi verið að koma meira inn í söluna með sín íslensku hross. Innanlandsmarkaðurinn er líka að rétta úr kútnum.
 
Sumarexem veldur enn vanda hjá íslenskum hrossum erlendis
 
Það eru dýrustu keppnishrossin sem hafa verið að seljast vel. Aftur á móti hefur salan á þessum venjulegu reiðhrossum minnkað mikið um langan tíma. Það er einkum út af sumarexeminu. Venjulegt fólk sem stundar hestamennsku erlendis í sínum tómstundum, hefur bara ekki aðstöðu til að passa eins vel upp á þá eins og atvinnu- og keppnisfólkið. Það pakkar hrossum bara inn og vefur þá inn í ábreiður á þeim tíma þegar flugan er skæðust.“
 
–Hvað með hesta undan íslenskum hrossum erlendis eins og í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, eru þeir eins útsettir fyrir sumarexemi og hross sem héðan eru flutt?
„Það er lægra hlutfall af þeim sem fær sumarexem. Það er búið að vera að reyna að finna bóluefni gegn sumarexemi. Það er bara spurning hvenær það kemur.“
 
Hann segir að menn dreymi líka um að finna mögulega lækningu fyrir hross sem hafi þegar smitast af exemi. Staðan er þannig í dag að ef hross fær exem, þá losnar það ekkert við það nema vera þá flutt á svæði sem er laust við áreiti flugunnar sem veldur því. Helgi segir að þessi áhætta fyrir exemi sé þekkt í öllum hrossakynjum, en mismikið þó. 

15 myndir:

Skylt efni: gróðrastöðvar | Kjarr

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...